Grein í Fiskifréttum

Grein í Fiskifréttum Tvö erfið verkefni bíða þjóðar og þings sem hafa klofið samfélagið í margar fylkingar.  Annars vegar umsóknin um aðild að ESB og

Fréttir

Grein í Fiskifréttum

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson
Tvö erfið verkefni bíða þjóðar og þings sem hafa klofið samfélagið í margar fylkingar.  Annars vegar umsóknin um aðild að ESB og hins vegar sjávarútvegsmálin. Báðir þessir málaflokkar eru flóknir og hafa þarf talsvert fyrir því að setja sig vel inn í þá. Fyrir vikið mótast umræðan af rangfærslum og upphrópunum.  Þegar þannig háttar eiga lýðskrumarar auðvelt með að ná eyrum fólks og láta því gamminn geysa og oftar en ekki af hávaða meir en viti.  Það er því sérlega erfitt þegar þessum tveimur mikilvægu en flóknu málum er hrært saman og sú blanda notuð til að rugla fólk enn meira í ríminu.

Í sjónvarpsfréttum RÚV þann 24. nóvember sl. kom varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðanefndar Alþingis í fréttatíma með „stórkostlega" yfirlýsingu. Nú þyrfti að innkalla allar veiðiheimildir þannig að þær væru á forræði ríkisins áður en við gengjum í ESB. Þjóðnýting á aflaheimildum væri nú forgangsmál og ekki mætti nokkurn tíma missa.

 Hamfarastjórnun

Á slíkri ögurstundu þarf ekki að nota samráð eða lýðræðisleg vinnubrögð.  Hér þarf að nota hamfarastjórnun eins og við snjóflóð, jarðskjálfta eða eldsvoða.  Slík stjórnun er reyndar einnig notuð í hernaði, þar sem ekki er tími til að taka lýðræðislegar ákvarðanir, hvað þá að velta fyrir sér sanngirni og langtímahugsun. Vinna þarf orustuna en huga síðar að afleiðingum stríðsins.

 Ég hef reyndar áður kynnst fólki sem notar slíkar stjórnunaraðferðir, hamfarastjórnun, en hún gagnast sjaldast við venjulegar aðstæður. En hvað skyldi nú búa undir hjá þingmanninum, annað en fjandskapur hennar í garð þess fólks sem starfar við sjávarútveg?  Gengur röksemdarfærsla hennar upp og eru mál hér svo aðkallandi að grípa þurfi til slíkra örþrifaráða við ákvarðanatöku?

 Gefum okkur að Íslendingar gengju í ESB við næstu áramót og stæðu frammi fyrir því að afnema þröngt eignarhald þjóðarinnar á sjávarútvegsfyrirtækjum þar sem jafnræðis yrði gætt innan EES svæðisins.  Það hefur reyndar komið í ljós að erlendir aðilar hafa hingað til mátt eiga 49.99% í slíkum fyrirtækjum án þess að himnarnir hryndu.  En gefum okkur þetta og ríkið þjóðnýtti kvótann í einum grænum áður en ósköpin dyndu yfir.  En hvað svo?  Hvernig myndu yfirvöld deila þessum gæðum út eftir inngöngu í ESB? 

 Samkeppnisyfirburðum fórnað

Ekki mætti mismuna þjóðum innan EES þannig að Norðmenn eða Spánverjar myndu sitja við sama borð og íslenskir aðilar við leigu á kvótum af ríkinu.  Þetta liggur morgunljóst fyrir og þetta fyrirkomulag mun því ekki halda útlendingum frá auðlindinni.  Við hefðum hinsvegar vængstýft íslenska sjómenn og grafið undan samkeppnishæfni þeirra gagnvart útlendingum.  Samkeppnisyfirburðum sem þeir hafa haft undanfarna áratugi.  Nú þyrftu þeir að keppa í uppboðum við útlendinga, með töluverðar skuldir en án þeirrar eignar sem gerði þá öfluga í samkeppni, sjálfum nýtingarréttinum.

 Í dag er íslenskur útvegur sá öflugasti í heimi. Við trónum á toppnum með þjóðum sem nota svipaðar aðferðir við fiskveiðastjórnun . Engin þeirra þjóða er í ESB.  Samkeppnisyfirburðir okkar gagnvart þjóðum evrópska efnahagssvæðisins eru slíkir að fátt er að óttast, svo framarlega að fólk eins og Ólína Þorvarðardóttir nái sínum stefnumálum ekki fram.

 Heift eða heimska?

Ekki veit ég hvort varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndarnefndar er svo blinduð af heift út í íslenska sjómannastétt eða hvort hún er svona illa að sér í þessum tveimur mikilvægu málaflokkum, sjávarútvegi og ESB, að henni sést ekki fyrir.  Heilræði mín til Ólínu er að hún ræði af sanngirni við fólk í sjávarútvegi og lesi sig betur til um fjórfrelsið sem útilokar mismunun borgara innan EES svæðisins í viðskiptum.

 

 


Ná - vígi

Bloggara var stórlega misboðið þegar hann horfði á Návígi með Þórhalli á RÚV í gærkvöldi.  Ekki í fyrsta sinn en nú tók steininn úr.

Það kallar á þekkingu á málefninu ef taka á menn á teppið og sýna þeim fulla hörku og láta þá ekki komast undan að svara.  En í gærkvöldi hafði Þórhallur lært nokkur stikkorð og frasa og lét þá stanslaust ganga á viðmælanda sinn, Steinþór Pálsson bankastjóra Landsbankans.  Hann gaf honum bókstaflega ekkert tækifæri til að svara spurningum og gelti bara á hann stanslaust.  Hér var um mjög áhugaverðan vinkil að ræða og hefði verið gaman að heyra í vel upplýstum manni útskýra þessi mál með faglegum hætti.  Mikið vantar uppá aðalmenningur fái upplýsingar um það sem er að gerast, en þessi sjónvarpsþáttur var ekki innlegg í þá umræðu.

Þórhallur hefur greinilega engan skilning á því hvernig þetta allt gengur fyrir sig, né hvernig bönkunum var skipt upp í gamla og nýja og uppgjörið þar á milli.  Hann skilur heldur ekki hvernig kaupin ganga fyrir sig á eyrinni og að þegar fyrirtæki fer í þrot er það skiptaráðandi sem tekur við.  Það hefði verið áhugavert að fá útskýringar Steinþórs á því hvernig Landsbankinn ætlar að sigla þann erfiða róður sem framundan er, en það var ekki möguleiki á því fyrir geltinu í stjórnandanum.  Hann hafði varla byrjað að svara eða útskýra það sem hann var spurður að, þegar Þórhallur byrjaði að punda út tölum og prósentum og dylgjum um eitt og annað.  Dró meðal annars upp dagblaðssnifsi frá manni út í bæ sem skrifað hafði Velvakanda og kvartað yfir fríum mat í Húsasmiðjunni.

Bloggari hefði viljað fá svör um hvernig Landsbankinn ætlar að skilja milli feigs og ófeigs þegar kemur að atvinnulífinu.  Hann hefur skilið það svo að fyrirtæki með jákvætt fjárstreymi fái að lifa, en hin að deyja.  Það er eðlilegt að hjálpa fyrirtækjum með jákvæða EBITA en láta þau fyrirtæki rúlla sem ekki skila jákvæðu fjárstreymi.  Þar skilur á milli fyrirtækja sem eru annarsvegar með góðan rekstur en skulda of mikið, og þeirra sem erum með slæman rekstur.

Bloggari vill fá að vita hvernig hygla á þeim sem hafa farið óvarlega í fjármálum, á kostnað þeirra sem sem sýndu ráðdeild.  Það var áhugavert að heyra af því hvernig óvissa vegna aðgerðaleysis stjórnvalda kemur í veg fyrir að Landsbankinn geti leyst vandamál viðskiptavina sinna.  Til hvers er þetta nýja fyrirbæri, Umboðsmaður skuldara?

En þetta skilur Þórhallur ekki og því er gripið til slagorða og stóryrða.  Það eitt að nota fyrri helming þáttarins í að nafngreina menn og kalla þá óráðsmenn, ítrekað, án þess að þeim sé gefið tækifæri á að bera hönd fyrir höfuð sér er óverjandi.

En Þórhallur er ekki alltaf svona harður.  Um daginn fékk hann Björk Guðmundsdóttir í þáttinn og þá var nú heldur betur annað uppi á teningnum.  Björk fór ítrekað með rangt mál og notaði frasa sem hún skildi ekki, enda er hún engin sérfræðingur í því viðfangsefni sem þátturinn fjallaði um.  Sem dæmi varð henni tíðrætt um ruðningsáhrif stóriðju án þess að hafa hugmynd um hvað það þýðir.

Spyrillinn skaut annað slagið inn hrósyrðum um viðmælanda sinn, hjálpaði henni þegar hana rak í vörðurnar lagði rauðan dregil fyrir hana í gegnum þáttinn.  Þetta eru forkastanleg vinnubrögð og gefur ekki tilefni til trausts á þeim fréttamiðli sem ástundar slík vinnubrögð.  Það er mjög mikilvægt á þessum óvissu tímum að almenningur sé upplýstur um hvað sé að gerast og hvernig ákvarðanir eru teknar.  Að hægt sé að treysta á hlutleysi og fagmennsku fjölmiðla þegar fjallað er um málefni líðandi stundar.  Návígi stendur ekki undir því.


Athugasemdir

04.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst