Hlutverkaleikur með þingmanni

Hlutverkaleikur með þingmanni Heill og sæll Sigmundur Ernir.Þú mannst kannski ekki eftir mér. Ég er Róbert Guðfinnsson gamli leigjandinn í kjallaranum hjá

Fréttir

Hlutverkaleikur með þingmanni

Gamalt og lúið
Gamalt og lúið
Heill og sæll Sigmundur Ernir.

Þú mannst kannski ekki eftir mér. Ég er Róbert Guðfinnsson gamli leigjandinn í kjallaranum hjá þér til fimmtán ára. Frá 1991 til 2005.
Þegar ég sá skrif þín og fantasíur varðandi leigjanda í kjallaranum hjá þér http://www.sigmundurernir.is/2012/04/06/leigjandinn/  þá áttaði ég mig á því hvað ég á þér mikið að þakka og ákvað því að koma á þig smá sendibréfi og leifa þér að að fá aðeins innlit í hugaróra mína.

Það var á haustdögum 1990 þegar þú hringdir í mig og baðst mig að líta á gamla húsið sem þú hafðir nýlega keypt í útjaðri borgarinnar. Við þekktumst ekkert en þú hafðir frétt hjá sameiginlegum kunningja að ég væri nokkuð laginn við að laga gömul hús.  Ég var mjög undrandi þegar ég leit á eignina með þér. Húsið var í mikilli niðurníðslu og lóðin sem að réttara væri að kalla landareign var í mikilli órækt. Það var illa komið fyrir þessu gamla óðalssetri.

Ég man ekki alveg hvert kaupverðið var. Allavega var það ekki hátt. Markaðurinn fyrir svona eign var lítill. Efnahagsörðuleikar árana á undan höfðu gert svona eignir nánast verðlausar. Bankarnir voru að sligast undan þessari byrði. Það voru ekki margir sem gátu eða vildu standa undir svona fjárfestingu.
Það var ekki hægt annað en að dáðst að hugrekki þínu og framtíðarsýn. Ungur fréttamaður á Stöð 2 sem trúðir á Ísland. Þú varst að fjárfesta til langs tíma. Fyrir börnin þín og barnabörn.

Ég var á því að það borgaði sig að rífa gamla húsið og byggja minna hús. Þú varst ekki sama sinnis. Vildir endurbyggja þetta risa stóra hús og rækta upp landareignina.  Það var ekki hægt á nokkurn hátt að skilja hvernig þú ætlaðir að fara að þessu. Launin hjá Stöð 2 nægðu rétt til framfærslu heimilisins.
Málið þróaðist í allt annan farveg en að ég hafði ætlað mér. Áður en ég vissi af þá var ég kominn á fullt að gera upp húsið fyrir þig. Þetta var mikil vinna en skemmtileg. Það kom fljótlega í ljós að vinnuframlag þitt varð ekki það sem um hafði verið talað. Enda kom það ekki að sök þar sem oftast þurfti að vinna verkin upp eftir þig.

Þú varst snjall þegar þú lést mig halda að ég fengi æfilangann afnotarétt af kjallaranum sem gagngreiðslu fyrir vinnuframlag mitt. Húsið var ekkert annað en fúahjallur og kjallarinn fullur af raka og sveppagróðri. Til mikils var að vinna fyrir mig og mína að verkið gengi vel. Öruggt þak yfir höfuðið skipti miklu máli í þá daga.

Fyrir fullorðinn tengdaföður minn var þetta eins og himnasending. Að vera ekki lengur gjaldgengur á vinnumarkaðnum átti ekki við hann og dvaldi hann því öllum stundum á óðalinu við lagfæringar. Ekki mátti hann heyra það að þú borgaðir honum laun, það kæmi bara til lækkunar á ellilaununum. Vinnuframlag gamla mannsins kom sér vel því að oft var lítið inni á tékkheftinu hjá þér og enginn banki vildi lána út á svona glæfralega framkvæmd.
Þær voru því ófáar málningadollurnar sem keyptar voru í Kolaportinu á niðursettu verði. Þá vorum við duglegir að ná okkur í afgangs timbur hvar sem það bauðst. Ekki sá ég mikinn tilgang í að rukka fyrir það efni sem ég lagði út fyrir. Það voru ekki miklir peningar á okkar heimilum í þá daga kæri þingmaður.

Einhvern veginn tókst okkur að koma verkefninu áfram. Allt var gert á hagkvæmasta hátt og allir frítímar mínir fóru í að gera kjallarann íbúðarhæfann.
Við voru seigir Sigmundur Ernir okkur tókst að klára málið. Á óðalinu urðu til notaleg heimili fyrir fjölskyldur okkar.

Samkomulagið var til fyrirmyndar á milli hæðanna fyrstu árin. Ég sá um að halda eigninni við meðan þú klifraðir upp metorðastigann í fjölmiðlaheiminum.
Menn voru hættir að gera grín af óðalinu þínu niður á kaffistofu Stöðvar 2. Þú varst orðinn fréttastjóri og eignin þitt mesta stolt. Ekki var það verra að fasteignamarkaðurinn hafði tekið verulega við sér. Miklar byggingarframkvæmdir voru á svæðinu og verktakar farnir að líta á landareign þína sem hluta af  sínu framtíðar skipulagi. Þá voru bankarnir komnir í einkaeign og ólmir í að lána peninga út á flott stórhýsi.
Þú hafðir haft rétt fyrir þér. Virði eignarinnar hafði margfaldast og var heimili þitt og landareign orðin eftirsótt fyrir fyrtækjaveislur Stöðvar 2.

Það var um sumarið 2004 að við á neðri hæðinni fundum fyrir breytingu í okkar garð. Endalausar kröfur um að landareignin ætti að vera óaðfinnanleg og ég ætti að leggja mig meira fram voru farnar að fara í taugarnar á mér. Þetta var ekki lengur orðið samstarfsvekefni. Ég var orðinn hálfgerður ráðsmaður hjá þér. Það var svo um  haustið að vinslit urðu á milli okkar. Þegar ég fékk að heyra það í þriðja sinn að ég byggi jú hjá þér leigulaust. Það væri nú kominn tími til að ég borgaði leigu fyrir búsetuna í kjallaranum.
Það hafði komið upp nokkrum sinnum í samtölum milli okkar hjóna að það gæti verið skemmtilegt að búa erlendis í smá tíma. Ég man eftir svipnum á þér þegar ég tilkynnti undir áramótin að við myndu flytja úr kjallaranum í janúar. Við hefðum ákveðið að yfirgefa föðurlandið í smá tíma. Þú reyndir ekkert að telja okkur hughvarf. Varst sennilega feginn að losna við okkur. Með brotthvarfi mínu þá taldir þú örugglega að þú hafir losnað undan gamla samkomulagi okkar um æfilangan afnotarétt af íbúðinni. Þar sem að ég lifi enn þá ætla ég að samningurinn standi.

Það hefur farið vel um okkur hér í útlandinu. Reynsla mín við að gera upp óðalssetur þitt kom sér vel. Ég hef síðustu árin dundað mér við að kaupa gömul hús og gera upp.
Þær krónur sem að við hjónin höfðum nurðlað saman komu sér ágætlega í nýju umhverfi. Þetta er nú orðið þokkalegt fyrirtæki hjá okkur og afkoman ágæt. Hagnaðinn af vinnu síðustu ára höfum við látið safnast upp í fyrirtækinu og er nú svo komið að fjármálastofnanir sækjast eftir að lána okkur í ný verkefni.
Það virðist því hafa verið rétt ákvörðun hjá okkur að fara frá Íslandi vorið 2005.

Tæknin er alveg ótrúleg. Á hverjum degi fer ég inn á fréttasíður og blogg frá Íslandi. Ég fylgist betur með athöfnum þínum og gjörðum nú en áður. Sem þingmaður á hinu virðulega Alþingi þá verður þú jú að láta þjóðina vita hvað þú ert að aðhafast hverju sinni.
Það kom mér á óvart að þú værir í vandræðum með leigjandann í kjallaranum. Ég hélt alltaf að þetta væru ágætis hjón sem að borguðu leiguna reglulega. Bæði í tryggri vinnu. Hann á togara og hún í frystihúsi. Þá trúi ég því varla að þú takir hart á þeim og leigan er örugglega með sanngjarnasta móti.

Ég vona að það sé ekki rétt sem að ég las á einhverri bloggsíðunni vorið 2007 að þér hafi verið boðnar 500 milljónir fyir húsið og landareignin og þú hafir hafnað því. Í blogginu var sagt að þú hafir viljað bíða lengur því að eignin myndi hækka enn frekar í verði. Þú værir í lykil aðstöðu. Byggingarverktakar þyrfu landareignina undir nýbyggingar. Einnig las ég að þú hefðir veðsett eignina til að kaupa hlutabréf  í bönkunum.
Sigmundur Ernir. Getur það verið að eitthvað hafi farið úrskeiðis hjá þér í hruninu mikla í  október 2008? Ef að svo er þá skil ég það mjög vel að þú þurfir hærri leigu fyrir kjallarann. Það er varla hægt að ætlast til þess að þú standir einn undir stórri skuld.  Ef að svo er fyrir komið hjá þér þá er það nánast ósvífni hjá leigjandanum að vilja ekki taka þátt í greiðslu á fasteignagjöldunum. Þetta er jú sameiginleg byrði ykkar. Ekki kemur til greina að þú seljir stoltið þitt. Óðalið er jú hluti af ímynd þinni.

Tíminn líður hratt og nú er farið að síga á seinni hlutann af kjörtímabilinu hjá þér. Það er óásættanlegt að vinna við aðstæður þar sem menn sjá ekki nema fjögur ár fram í tímann. Það að kjörtímabilið sé svona stutt gerir öll vinnubrögð ómarkviss og ástandið erfitt fyrir fjölskylduna. Fyrir mann í þinni stöðu þá verðurðu að fá meiri festu í líf þitt. Beita verður öllum ráðum til að þú missir ekki þingsætið og haldir óðalinu. Tryggja verður að þú haldir  afraksturinum af eigninni sem að byggð var upp með elju og mikilli vinnu gegnum árin. Það er óþolandi að arðurinn gæti lent hjá óbreyttum leigjanda sem að aldrei átti eignina og lagði ekkert á sig við að byggja hana upp.
Óvissa um endurkjör eru sennilega óþarfa vangaveltur því almenningur er mjög meðvitaður um hvað þið fjölmiðlafólkið eruð öðrum fremri. Hvort sem er til þingsetu eða til annara æðstu embætta þjóðarinnar
 
 Kæri Sigmundur Ernir. Þó að vinslit hafi orðið hjá okkur fyrir sjö árum síðan þá ristir það ekki mjög djúpt af minni hálfu. Ég vildi því láta þig vita að ég gæti haft ágætis starf fyrir þig hér í útlandinu ef að allt fer á versta veg.
Ég keypi nefnilega stóra landareign með gömlu húsi hér í útjaðri borgarinnar.  Lóðin er í órækt og húsið þarf verulegrar endunýjunar við. Kjallarinn er með öllu óíbúðarhæfur.  Með dugnaði og útsjónarsemi er hægt að koma honum í ásættanlegt stand á stuttum tíma.  Þar sem ég geri ekki ráð fyrir að þú takir með þér mikla fjármuni frá Íslandi þá væri hugsanlegt með góðum vilja að skoða samkomulag um að þú leggðir vinnu í að gera upp húsið og fengir afnotarétt af kjallaranum til æfiloka.

Kveðja  Róbert

PS:  Ég sé það í fjölmiðlum heima á Íslandi að mikil umræða er um sjávarútveginn og fiskveiðistjórnunarfrumvarpið.  Ég treysti því að hjarta þitt slái enn með fólkinu í öllum sjávarútvegsbæjunum í kjördæminu þínu. Ekki trúi ég að þú viljir færa arðinn frá auðlindinn í frekara mæli til Reykjavíkursvæðisins.



Athugasemdir

15.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst