Hvað á að gera fyrir heimilin? II
Það sem ég ætla fyrst og fremst að beita mér fyrir næstu vikurnar til lausnar efnahagsvanda þjóðarinnar er:
1. Fella niður 20% af skuldum heimilanna og 20% af skuldum fyrirtækja sem eiga í viðskiptum við nýju bankana.
2. Afnema vaxtabótakerfið og gera vexti og verðbætur vegna fjárfestinga í íbúðarhúsnæði frádráttarbær frá skatti næstu 5 árin án tillits til ráðstöfunartekna en með þaki á virði íbúðarhúsnæðis.
Nú eru allt að 50 þúsund heimili (125 þúsund einstaklingar) og þúsundir fyrirtækja tæknilega gjaldþrota. Með þessum tveim aðgerðum fækkar mjög þeim heimilum og fyrirtækjum sem þurfa að fara þessa leið. Þær hægja á lækkun fasteignaverðs eða stöðva hana og efnahagslífið fer af stað. En kostar þetta ekki einhver ósköp?
Skuldir Íslendinga sem liggja nú að hluta afskrifaðar í nýju bönkunum eru bókfærðar á allt öðru og mun lægra verði en snýr að hinum venjulega Íslendingi – segjum 50% til einföldunar. Bankinn mun rukka 100% af skuldunum en búast við að fá 50% til baka vegna þess að mörg fyrirtæki og heimili munu ekki geta staðið í skilum og verða gjaldþrota og bankinn mun þurfa að afskrifa hluta lánanna. En hann tapar ekki á því vegna þess að skuldirnar liggja nú þegar afskrifaðar á efnahagsreikningi hans. Hvað ef bankinn rukkar nú 80% af skuldunum í stað 100%? Jú mun fleiri geta staðið í skilum og færri verða gjaldþrota. Meðalgreiðsla hvers og eins til bankans lækkar en fleiri geta borgað. Niðurstaðan er sú sama fyrir bankann. Þetta kostar bankann ekki neitt en mun færri verða gjaldþrota. Gæði lánasafns bankann hefur verði aukið þannig að bankamál sé notað. Fegurð aðgerðarinnar liggur í að lánin voru afskrifuð þegar þau voru flutt úr nýju í gömlu bankana og kröfuhafinn í gömlu bönkunum er jafnsettur hvort heldur sem 80% eða 100% eru rukkuð.
En hvað með vaxtafrádráttinn? Með frádrættinum aukast ráðstöfunartekjur heimilanna þannig að þau geta enn frekar staðið í skilum með lánin sem styrkir hina aðgerðina. Einnig munu þeir sem eiga pening fjárfesta í íbúðarhúsnæði vegna þess að arðsemi þess hefur hækkað (af því að fjármagnskostnaðurinn lækkar vegna frádráttarins). Fasteignalækkunin stöðvast og enn færri verða gjaldþrota.
En kostar þetta ríkissjóð ekki gríðarlegar fjárhæðir? Ekki endilega. Fasteignaverðslækkun hefur verið stöðvuð og rástöfunartekjur auknar og efnahagslífinu hefur verið ýtt af stað. Kaupmáttur fer að vaxa. Lykilatriðið er að skattstofnar hafa styrkst og breikkað. Sá sem er atvinnulaus greiðir minni skatta en sá sem er með atvinnu og engar skatttekjur er hægt að fá af gjaldþrota fyrirtæki!
Þessar tvær aðgerðir er hægt að framkvæma um leið og skilið hefur verið á milli gömlu og nýju bankana. Því er brýnt að þeirri vinnu sé hraðað.
Nú verður eflaust mikið framboð á úrtölumönnum sem munu gagnrýna þessar aðgerðir en við skulum ekki hlusta á þær nema að þeir komi með betri lausnir eða sýni fram á villu í röksemdafærslunni. Munum líka að fjármál ríkisjóðs er ekki eingöngu hægt að laga með skattahækkunum og niðurskurði eins og kennt var í Austur-Þýskalandi. Það er líka hægt að styrkja og breikka skattgrunnana!
Ég lýsi mig reiðubúinn til að rökstyðja ofangreint og svara gagnrýni hvar og hvenær sem er.
Höfundur Tryggvi Þór Herbertsson
Athugasemdir