Hvað er þjóðarsekt?

Hvað er þjóðarsekt? Þjóðarsekt er það þegar þjóð finnur enga sök hjá sér, og beri eitthvað út af í málum hennar sakfellir hún einungis leiðtoga sína.

Fréttir

Hvað er þjóðarsekt?

Guðbergur Bergsson
Guðbergur Bergsson

Þjóðarsekt er það þegar þjóð finnur enga sök hjá sér, og beri eitthvað út af í málum hennar sakfellir hún einungis leiðtoga sína.

Um leið gleymist henni að lýðræði felst í samábyrgð og skyldum. Þar er enginn undanskilinn, hvorki þjóðin né leiðtogarnir, enda eru þeir lýðræðislega kosnir af henni.

Í einræðisríkjum og í nýlendum er þjóðin aftur á móti saklaus ef eitthvað ber út af í málum hennar, enda ræður hún engu. Öll ábyrgð er í höndum stjórnenda hennar.

Þetta er sá megin munur sem er á lýðræði og einræði.

Að gera sér ekki grein fyrir þessu er undirrót hins þrúgandi máls sem höfðað hefur verið gegn Geir Haarde fyrrum forsætisráðherra, eins og hann hafi verið einráður hjá saklausri þjóð.

En í raun réttri ætti þjóðin að hefja mál gegn sjálfri sér og glópsku sinni. Þjóðir gera það aldrei. Samt ætti þessi þjóð að hafa sektarkennd yfir að hún þóttist ekki gera sér grein fyrir í góðærinu að yfirleitt er auðveldara að koma sér í skuldir en að losna við þær. Einnig er léttara að fá lán en greiða þau.

Að sjálfsögðu ætti hver vitiborinn maður að gera sér grein fyrir þessu. Hann veit það innst inni. En þegar hrifningin grípur hugann og glópska hennar ræður, gleymir hann rökum og eigin reynslu og forfeðra sinna að auki.

Um leið og í óefni er komið langar þjóðina ekki að líta í eigin barm með sjálfsásökun. Fyrir bragðið vill hún í rauninni ekki réttlæti heldur hefnd sem lendir á stjórnmálaleiðtoga. Yfirleitt er þjóðarleiðtoginn, forsetinn ekki talinn með í svona tilviki, þótt hann hefði átt að vara þegnana við glópsku. Það ætti að vera skylda. „Þjóðarleiðtogi“ ætti að tala til þjóðar „sinnar“ föðurlega, ef svo mætti að orði komast. Oft gerist þess þörf og þegnarnir taka sönsum ef farið er að þeim með gát og yfirvegun í staðinn fyrir að hrífast af bjartsýnisæðinu sem kennt er við „útrásarvíkinga“.

Hjá okkur er litið á forseta á óhlutbundinn hátt, annað gildir um forsætisráðherra. Honum er ýmist þakkað allt, ef vel gengur, eða litið á hann sem „sökudólg“ sem öllu illu veldur. Hann einn ber ábyrgð á lélegu gengi og efnahag, þótt hann hafi kannski ekki verið nema í stuttan tíma við stjórnvölinn og flestir viti að harmleikur er lengi að fara á svið og verða skilinn af áhorfendum og jafnvel stjórnendum. Í hita forleiksins er ekki hugsað um innihaldið. Þjóðin ákveður bara í lokin að hörmuleg sýning hafi verið færð á fjalirnar og taka beri í lurginn á leikstjóranum. Í þessu hefur hún á réttu að standa, leikstjórinn er sekur og honum verður að fórna í Þjóðleikhúsi landsins, en rétt að muna að sviðstjórarnir bera engu minni sök og líka áhorfendurnir fyrir að flykkjast á sýninguna og klappa í fyrstu þótt þeir vissu að þetta var óttalegur skrípaleikur.

Þótt konungi sé fórnað og hann gerður höfðinu styttri, breytist fátt við aftökuna; mannkynssagan sannar það. Í lýðræðisríkjum samtímans er ekki hafður sami háttur á vegna lélegrar stjórnsýslu, forsætisráðherrar eru ekki færðir á höggstokkinn. Öxin var áður talið þjóðráð, í og með til þess að þeir sem völdin höfðu segðu ekki sannleikann um alla hina sökudólgana við yfirheyrslur og drægju þá til ábyrgðar og ofan í stjórnmálasvaðið. Ekki er lengur notuð slíka aðferð við að finna samsekt manna í stjórnkerfinu. En það er hægt og alger þörf að taka einstaklinga af lífi sem stjórnmálamenn.

Með því að draga Geir Haarde fyrir dóm – ekki hefði hann sagt frá öllum hinum – yrði líklega varla annar vandi leystur en sá sem skiptir flesta litlu máli en gæti orðið sálrænn léttir fyrir menn í gildru lánadrottna. Dómurinn mundi slá á hefndarþorsta þeirra sem gleymdu eigin sök í fallna leiknum, að þykjast ekki vita að það er auðveldara að koma sér í skuldir en losna við þær, að auðveldara er að fá lán en greiða þau. Hvort þannig menn mundu læra eitthvað á þessu til langframa er harla óvíst. Yfirleitt læra þjóðir ekki af reynslunni, en aðstæðurnar geta neytt þær til þess að ranka við sér um stund. En eðli mannsins er að ljóma hvað eftir annað af hrifningu yfir gyllivonum sem gjarna leiða til vonbrigða. Þar gildir einu hvort vonin og svo vonbrigðin hafi borist frá aðdáunarverðum innlendum óskabörnum, drengjum eða drullusokkum í De Code og Kaupþingi, eða útlenda Kananum þegar hann var upp á sitt besta á Vellinum.

Maður spyr bara: Hvað ætli hrífi þjóðina næst, fyrst upp ölduna og færa hana síðan ofan í öldudalinn?


Athugasemdir

23.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst