Hvað skuldar hin íslenska þjóð?
Málið þarf einmitt að skoðast með það í huga að mjög mikið af þessum skuldbindingum eru óljósar, aðrar eru ekki beinar lántökur og enn aðrar eru í raun aðeins tilfærsla á eignum og skuldum.
Skoðum málið nánar:
Endurfjármögnun banka og sparisjóða
Þannig eru 385 milljarðar sem settir eru í bankana í raun eign okkar þar og settir inn í bankakerfið sem skuldabréf. Tvær leiðir eru til að ná þeirri eign til baka, það er a) að bankarnir greiði arð til eiganda síns með reglubundnum hætti – og raunar er annað óleyfilegt vegna samkeppnissjónarmiða, b) að ríkið selji bankana aftur og fái fjárframlag sitt þannig til baka.
Þriðja leiðin er raunar fær líka og aðhyllist ég hana að vissu leyti, það er að innlendir og erlendir kröfuhafar bankanna eignist bankana og reki til frambúðar. Þá er jafnframt hugsanlegt að sameina bankana og draga úr umsvifum þeirra og stærð enn frekar og því þurfi eiginfjárframlag ríkisins ekki að verða jafn mikið og nú er gert ráð fyrir.
Lán AGS og vinaþjóða
Það 5,1 milljarðs dollara lán sem Ísland hefur fengið vilyrði fyrir hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og vinaþjóðum á norðurslóðum hefur enn ekki verið afgreitt, ef frá er talinn lítill hluti láns gjaldeyrissjóðsins og var það að hluta notað til uppgreiðslu óhagstæðari lána. Ákvörðun um hvernig þessum lánum verður ráðstafað ræðst af aðstæðum á gjaldeyrismarkaði, en segja má að mestar líkur séu til þess að stærstur hluti upphæðarinnar verði í formi svokallaðra ádráttarlína, þ.e. sé til staðar ef við þurfum á því að halda. Lánið er til Seðlabankans og telst því ekki beint til skulda ríkisins eins og það er reiknað skv. aðþjóðlegum stöðlum. Einnig má ætla að sá hluti sem færist inn á reikning Seðlabankans verði fyrst og fremst notaður í formi varaforða. Því ætti að vera einfalt að borga slíkt lán til baka og kostnaður af því verður ekki mikill.
Ábyrgð vegna innlánsreikninga í útlöndum
Hvað varðar IceSave reikninga Landsbankans í útlöndum og mögulega ábyrgð íslenska ríkisins vegna þeirra skal hafa í huga að í umræðunni er að Tryggingasjóður taki lán hjá seðlabönkum viðkomandi ríkja til að mæta þeim skuldbindingum sem hann er talinn hafa gagnvart innistæðueigendum í þeim löndum. Áætlað er að íslenska ríkið veiti sjóðnum ábyrgð vegna þeirra lána. Falli slík ábyrgð á ríkið er um gríðarmiklar upphæðir að ræða, hugsanlega um 600 milljarða króna.
Það er hinsvegar mjög ósennilegt, þar sem eignir Landsbankans eiga að vega talsvert á móti þeirri upphæð, og samkvæmt mati sérfræðinga á vegum skilanefndar bankans kunna að standa út af um 72 milljarðar króna, sem vissulega er mikill skellur, en langt í frá sú upphæð sem úrtölumenn hrópuðu um lengi vel.
Hallli á ríkissjóði
Áður en áfallið dundi yfir í byrjun október hafði verið ráðgert um nokkurn tíma að uppsveifla sú sem verið hafði í efnahagslífinu væri á enda komin og talsverður viðsnúningur yrði á rekstrarafkomu ríkissjóðs. Var ætlað að talsverður halli yrði á ríkissjóði á þessu ári og þeim tveimur næstu, en ekki þó meiri en svo að inneign ríkisins hjá Seðlabankanum dygði til að fjármagna þann halla og ríflega það.
Nú blasir hinsvegar við að hallinn verði verulega miklu meiri og fjármagna þurfi það sem út af stendur á annan hátt. Ætlun fyrri ríkisstjórnar var að grípa til sparnaðaraðgerða en fjármagna hluta með lántöku, líklegast með útgáfu ríkisskuldabréfa. Miðað var við 50 milljarða nettóútgáfu á þessu ári. Á næsta ári getur þessi upphæð numið um 150 til 160 milljörðum króna, allt eftir því hvernig til tekst við gerð fjárlaga. Því miður er margt sem bendir til þess að vinstri stjórn sú sem nú er við völd hyggist ekki ráðast gegn hallarekstrinum með bráðnauðsynlegum hagræðingaraðgerðum, heldur grípi til gamals vinstra úrræðis í staðinn, þ.e. hækkunar skatta. Þótt ráðherrarnir sjálfir hafi sagt að ekki verði skattahækkanir á þessu ári, eru sérvaldir útsendarar þeirra, Indriði H. Þorláksson og Stefán Ólafsson, sendir útaf örkinni til að boða þessar aðgerðir – og telja þeir sjálfsagt og eðlilegt að hækka skatta verulega. Þetta eru vonbrigði, en kemur svo sem ekkert á óvart úr þessari átt. Betri leiðir eru til að koma böndum á hallann, en það verða ekki vinstri menn sem það gera.
Fjármögnun Seðlabanka
Ríkissjóður hefur tekið á sig ótryggar kröfur sem Seðlabankinn átti á íslenskar fjármálastofnanir í þeim tilgangi að tryggja bankanum viðunandi eiginfjárstöðu. Er þar um að ræða 345 milljarða kröfur sem greitt er fyrir með 270 milljarða skuldabréfi útgefnu af ríkissjóði.
Ástæða þessa að ríkissjóður tekur þessar kröfur yfir er sú að ríkissjóður hefur rýmri heimildir til að sýsla með slíkar kröfur og er betur í stakk búinn að verja hagsmuni sína sem kröfueigandi. Á þessu stigi liggur ekki nákvæmlega fyrir hvað mun innheimtast af þessum bréfum en í áætlunum ráðuneytisins er gert ráð fyrir að það verði á bilinu 50 til 80 milljarðar króna. Því gæti nettó skuldsetning ríkisins gagnvart Seðlabankanum verið á bilinu 190 til 220 milljarðar króna.
Ísland um miðja deild
Samkvæmt þessari upptalningu minni er ljóst að skuldir íslenska ríkisins hafa hækkað verulega vegna þeirra stöðu sem skapast hefur í efnahags- og fjármálakerfinu, hér á landi og um allan heim. Þetta kallar á verulega útsjónarsemi í rekstri ríkisins og við stjórn efnahagsmála á næstu árum þar sem gera þarf margháttaðar breytingar.
En þótt skuldastaðan hafi vissulega breyst er hún alls ekki óyfirstíganleg. Miðað við ofangreindar tölur má ætla að nettóskuldirnar í lok árs 2010 verði um 500 milljarðar króna, sem er um þriðjungur landsframleiðslu. Það er um meðaltal þess sem tíðkast meðal þjóða innan OECD, og fjarri því eins slæmt og í löndum eins og Belgíu og Japan, svo dæmi séu tekin.
Við megum ekki láta úrtölufólk draga úr þrótti íslenskrar þjóðar til að ná árangri við endurreisnina. Verkefnið er ærið, en við hræðumst það ekki.
Athugasemdir