Í tilefni kosninga

Í tilefni kosninga Á uppvaxtar árum mínum á Siglufirði voru stjórnmál mjög stór þáttur í daglegu lífi bæjarbúa. Þegar nálgaðist kosningar breyttist

Fréttir

Í tilefni kosninga

Róbert Guðfinnsson
Róbert Guðfinnsson

Á uppvaxtar árum mínum á Siglufirði voru stjórnmál mjög stór þáttur í daglegu lífi bæjarbúa. Þegar nálgaðist kosningar breyttist rólegheitar fólk í óstoppandi áróðursmaskínur. Gestur Fanndal stóð mest allan daginn fyrir utan búð sína og spjallaði. Óskar Gari og Kolli héldu baráttufundi. Bogi Sigurbjörns trekktist allur upp og það varð enn erfiðara að skilja Jóhann Möller.

Oft voru síðustu vikurnar fyrir kosninga erfiðar en aldrei leiðinlegar. Í mínu nánasta umhverfi var breytingin mest á fóstur minni Erlu Óla. Í minningunni allt frá barnæsku man ég hvernig þessi öfluga kona umbreyttist þegar stóra stundin nálgaðist. Fyrir okkur ungmennin var það mikill heiður að fá að vera með í þessari stemmingu. Þannig upplifði ég nokkrar kosningar hjá Alþýðubandalaginu í Suðurgötu 10.

Árið 1979 voru Alþingiskosningar. Ég var þá námsmaður í Reykjavík og ekki mikið að hugsa um stjórnmál. Ég átti því ekki von á að fá beiðni frá kosningaskrifstofu Alþýðubandalagsins á Siglufirði um hvort að ég gæti aðstoðað sjúkling við að fara á kjörstað til að kjósa utankjörfundar. Æskuvinur minn Guðmundur Konráðsson hafði sérstaklega beðið um að ég yrði fenginn til að sækja sig inn á Klepp og fara með sig á kjörstað. Við Gummi Konn höfðum unnið saman sem unglingar í saltfiski og verið viðloðandi Alþýðubandalagið. Gummi sem að var einstakur gæðadrengur lést ungur af völdum heilasjúkdóms.

Eitthvað var ég banginn við að fara einn inn á Klepp til að ná í þennan góða dreng. Vegna veikindanna átti Gummi erfitt með að vera kyrr og var á sífelldu iði og vildi ávallt fara sínar eigin leiðir. Ég veit ekki hvort að ég var að vona að Gummi gleymdi þessu eða ég hreinlega þorði ekki að fara að sækja félagann og það dróst í einhverja daga að ég léti til skara skríða. Það var ekki fyrr en ég fékk ítrekun frá Gumma að ég kallaði mér til aðstoðar öflugan rauðliða, frænda minn Krisján Elíasson.

Við vorum vígalegir þegar við mættum inn á Klepp og fórum með Gumma á kjörstað. Á leiðinni í bílnum fór Stjáni yfir hlutina með farþeganum. Hvort ekki væri alveg klárt að Gummi væri með þetta á hreinu, hann ætti að kjósa G bókstaf Alþýðubandalagsins. Ekki fengum við að fara með kjósandanum inn í kjörklefann enda var þar til staðar virðulegur eldri maður sem að sá um þá þjónustu.

Þegar Gummi var kominn aftur í bílinn til okkar og við vorum að næra okkur á ljúffengum ís spurðum við hvort að hann hafi ekki kosið rétt. Gummi svaraði ákveðið að hann hafi kosið D lista Sjálfstæðisflokksins. Við Stjáni horfðum hvor á annan og skelltum uppúr og hlógum það sem eftir var bílferðarinnar. Þegar stoppað var við innganginn á sjúkrastofnunni stígur Gummi út úr bílnum og snýr sér að okkur og segir blæstur á máli. “Þið haldið kannski að ég sé algjör bjáni. Auðvitað kaus ég G “.

Þrátt fyrir að vera þjakaður af erfiðum sjúkdómi lagði Gummi Konn mikið á sig að nota rétt sinn til að hafa áhrif á gang mála. Það að setja sig inn í málin og mæta á kjörstað er jú grundvallaratriði til að lýðræðið virki.

Með kveðju

Róbert Guðfinnsson


Athugasemdir

21.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst