KIRKJUGARÐAR. Nýjar spurningar og svör. Umhirða garðana í ár er meiriháttar KLÚÐUR

KIRKJUGARÐAR. Nýjar spurningar og svör. Umhirða garðana í ár er meiriháttar KLÚÐUR Sigló.is hefur sent nýjan spurningarlista til gjaldkera sóknarnefndar

Fréttir

KIRKJUGARÐAR. Nýjar spurningar og svör. Umhirða garðana í ár er meiriháttar KLÚÐUR

Gamli kirkjugarðurinn er ennþá ósnyrtur
Gamli kirkjugarðurinn er ennþá ósnyrtur

Sigló.is hefur sent nýjan spurningarlista til gjaldkera sóknarnefndar og fengið svör, sem sjá má neðar í þessari grein.

Eftir að Sigló.is birti greinar um ástandið í kirkjugörðum bæjarins og sérstaklega eftir greinina Kirkjugarðsmálin krufin til mergjar þar sem margar spurningar varðandi umhirðu, fjármál og rekstur komu upp og leiddu til að gjaldkeri sóknarnefndar svaraði í opnu bréfi til Sigló.is komu margir bæjarbúar með nýjar upplýsingar, jafnframt því að fréttaritara voru afhentar ársreikningar sóknarnefndar og kirkjugarða.

Sjá bréf frá gjaldkera hér:  Bréf frá gjaldkera sóknarnefndar varðandi ástand kirkjugarðana og fjárhag kirkjunnar

Þegar rýnt er í þessa ársreikninga koma upp margar spurningar og oft er erfitt að lesa hvað er hvað í þessum ársreikningum, síðan er það augljóst að peningar hafa verið færðir úr sjóðum kirkjugarða í sjóði kirkjunnar. Þar af nýjar spurningar til gjaldkera, ekki bara varðandi kirkjugarðana heldur einnig varðandi hörmungar ástand í fjárhagsmálum kirkjunnar og hennar stóru langtíma skuldir sem að stóru leiti sköpuðust vegna ORGEL-kaupa fyrir langa löngu.

Er þarna hægt að finna svör og útskýringar á ástandi kirkjugarðana í ár ?

Ja...... bæjarbúar geta sjálfir lesið sig inn í þessi mál, það getur verið erfitt en að sjálfsögu verður Sigló.is að birta þær spurningar sem byggja á upplýsingum frá áhyggjufullum bæjarbúum.

En ljóst er að flestir bæjarbúar eru sammála um að ástand og umhirða kirkjugarðana í sumar heitir ekkert annað en MEIRIHÁTTAR KLÚÐUR á góðri íslensku, hreinlega erfitt að segja þetta á annan hátt.

Síldarævintýri nálgast með komu mjög margra brottfluttra bæjarbúa sem varla verða glaðir við heimsóknir sínar til vina og ættingja í kirkjugörðum bæjarins.

Bæjarráð hefur tekið upp málefni kirkjugarðana þrisvar sinnum og þeir sem þar sitja hafa að sjálfsögu hag bæjarbúa í huga og vilja skilja hvernig þetta ástand hefur skapast, en hefur hingað til samkvæmt heimildum fréttaritar fengið frekar loðin svör.

í fundarbókun frá bæjarráðsfundi í dag 28 júlí stendur einungis:

Niðurstaða fundar:
Á fund bæjarráðs mættu fulltrúar sóknarnefndar, Sigurður Hlöðversson og Hermann Jónasson.

Á árinu 2015 eru gert ráð fyrir 5 mkr. á fjárhagsáætlun Fjallabyggðar, til þess að búa til ný grafarstæði í suðurgarðinum í Siglufirði.


Það er einnig staðreynd þegar lesið er úr ársreikningum að síðustu ár hafa komið eyrnamerktir peningar til umhirðu og viðhalds kirkjugarðana,
aldrei undir 6 miljónir árlega síðustu 4 árinn.

Eftir að reiknaður er burt ýmis kostnaður sem í raun á ekki heima þarna. Eins og t.d. aukakostnaður við grafartöku, snjómokstur, rekstur og framlag kirkjugarðs til kirkju, viðgerðir á líkbíl og ljóst er að kirkjan skuldar kirkjugarði peninga ár hvert af einhverri ástæðu.

Ef maður reiknar saman þá peninga sem teknir eru af umhirðu greiðslum frá kirkjugarðsráði árið 2014 þá reiknast þetta svona samkvæmt tölum frá gjaldkera og tölum frá ársreikningum: mismunur kostnaðar við grafatöku, snjómokstur og fleira 986.071 + framlag til kirkjunnar 500.000 + skuld kirkjunnar 360.000 + viðgerðir á líkbíl 200.000 = 2.046.000.

Sem sagt 2.000.000 hverfa árlega í annað en umhirðu og viðhald kirkjugarðana. 

Þegar kemur að umhirðumálum er sagan svona: 
Frá verktökum með fjölda manns og verkfæri og verkkunnáttu, til ráðningar starfsmanns fyrir verkstjórn með ungmenni sem aðstoðarfólk til eingöngu ráðningar á ungmennum utan verkstjórn síðustu árinn.

Niðurtalning síðustu ára er frá 5 starfsmenn til 3 í hitti fyrra, og svo 2 í fyrra og 0 í ár 2015. 

Hér koma spurningar Sigló.is í formi bréfs til gjaldkera sóknarnefndar og síðan þar fyrir neðan svör í bréfi frá gjaldkera


                                                                                                                                                       Siglufirði 23. júlí 2015

Hr. Hermann Jónasson
gjaldkeri sóknarnefndar Siglufjarðarkirkju

Heill og sæll Hermann.

Sendi þér sem gjaldkera sóknarnefndar Siglufjarðarkirkju  nokkrar spurningar með ósk um skrifleg svör. Spurningarnar eru settar fram með vísan til laga um upplýsingaskyldu stjórnvalda, þar sem meðal annars segir að svara skuli beiðni um upplýsingar eins fljótt og verða má.

Spurningarnar eru settar fram eftir samtöl við fjölmarga íbúa Fjallabyggðar um málefni kirkjugarðanna og kirkjunnar hérna á Siglufirði. Ég sendi þér þessar spurningar, þar sem þær snúast að mestu um fjárhagsleg mál.

Umræðuna í fjölmiðlum á undanförnum dögum þekkjum við líklega báðir ágætlega og ég undirstrika sérstaklega að umræðan á ekki að vera á persónulegum nótum, heldur er um að ræða opinbert mál sem flestum kemur við á einn eða annan hátt.

Eftir að við heyrðumst síðast hefur fjöldi manns haft samband við fréttaritara og komið með margvíslegar upplýsingar. Meðal annars hefur fréttaritari undir höndum ársreikninga sóknarnefndar fyrir 2013 og 2014 og ársreikninga kirkjugarða.

Í hljóðrituðu samtali við Sigló.is á fundi með sóknarnefnd sagðir þú að sjóðir kirkjunnar væru algjörlega aðskildir. Á árum áður hafi fjármunir hugsanlega verið færðir á milli sjóða. Slíkt hafi verið fyrir þína tíð sem gjaldkeri.

Í ársreikningum  sóknarnefndar fyrir árin kemur meðal annars fram að kirkjan skuldar kirkjugörðunum kr. 360.000 árið 2015, kr. 220.000 árið 2014 og kr. 340.000 árið 2013.

Spurning: Hvernig stendur á þessum millifærslum á milli sjóða og sýna þessar skuldir ekki svart á hvítu að sjóðirnir eru ekki algjörlega aðskildir ?

Í ársreikningum fyrir 2013 og 2014 kemur fram að kirkjugarðar veita framlag til kirkjunnar árlega með kr. 500.000.

Spurning:
Er sóknarnefnd leyfilegt að úthluta eyrnamerktum fjármunum v/ umhirðu og grafartöku sem styrk til kirkjunnar ?

Samkvæmt upplýsingum sem komu fram á fundi Sigló.is með sóknarnefnd var stór skuld kirkjunnar við kirkjugarða afskrifuð.

Spurning:
Hvaða ár var þetta og hversu stór var þessi upphæð ?

Samkvæmt tölvupósti frá þér, reiknaði fréttaritari út að rekstrarafgangur kirkjugarðanna hefði orðið 1.353.910 fyrir árið 2014.

Spurning:
Er þetta rétt reiknað og ef ekki hver var niðurstaðan ?

Fréttaritara hefur verið tjáð að sumarstartsmenn 2013 og 2014 hafi fengið 80% af launum sínum greidd frá Vinnumálastofnun.

Spurningar:
Greiddi Vinnumálastofnun 80% launa sumarstarfsmanna ? 

Ef svo er, ætti þá ekki rekstrarafgangur að vera meiri ?

Er lögð fram fjárhagsáætlun um reksturinn á hverju ári ?

Eru allir  kostnaðarliðir ræddir sérstaklega í sóknarnefnd áður en reikningar eru greiddir ?

Eru lagðar reglulega fram skriflegar upplýsingar um milliuppgjör, þannig að sóknarnefndin sé vel upplýst um fjárhaginn ?

Enginn aðalfundur var haldinn vegna starfsársins 2013 til 2014.

Spurningar:
Fyrst ekki var haldinn aðalfundur, telur þú að nefndin hafi haft lögformlegt umboð til starfa ?

Hvers vegna var ekki haldinn fundur ?

Hvers vegna tók sóknarnefnd á sig hönnunarkostnað vegna framtíðarstækkunar suður-garðsins árin 2010-2011 ?

Er þetta ekki alfarið hlutverk bæjarfélagsins ?

Á vefsíðu Kanon Arkitektar stendur að verkkaupi að teikningum á nýjum kirkjugarði árin 2010 - 2011 sé sóknarnarnefnd Siglufjarðarkirkju með stuðningi kirkjugarðsráðs.

Spurning:
Í hverju fólst stuðningur Kirkjugarðsráðs?

Fyrsta slætti í suður-garði lauk nú 22 júlí.

Spurningar:
Er það forsvaranlegt að fyrsta slætti ljúki á miðju sumri ?

Hvenær verður norður garður sleginn ?

Hafa starfsmenn verið ráðnir til að sjá um umhirðu garðanna og hversu margir ?

Hafa umræddir starfmenn einhverja menntun til að sjá um umhirðu garðanna ?

Eru  þessir starfsmenn ráðnir  í gengum samvinnu við Atvinnumálastofnun ?

Margir bæjarbúar hafa rætt við fréttaritara um bágan  fjárhag kirkjunnar. Ég lít á þær spurningar sem staðfestingu um góðan hug til kirkjunnar og málefna hennar. Heildarskuldir kirkjunnar árið 2014 eru samtals 23.983.000 krónur.

Á fundi fréttaritara með sóknarnefnd kom skýrt fram að skuldastaðan tengist ekki kaupum á orgeli í kirkjuna.

Langtímaskuldir Siglufjarðarkirkju eru árið 2014, kr.18.700.000 og kirkjan á aðeins eina eign sem er orgel uppá kr.18.600.000

Samkvæmt upplýsingum frá þér eru afborganir af þessari skuld með vöxtum í dag rúmlega 50% af heildartekjum kirkjunnar.

Spurningar:
Er ekki augljóst að þessi skuld kom upprunalega vegna innkaupa á orgeli á sínum tíma ?

Ef ekki, hvers vegna er skuldastaðan eins og reikningarnir sýna ?

Sérðu fram á að fjárhagur kirkjunnar vænkist á þessu ári ?

Ég vona að þú bregðist skjótt og vel við þessum spurningum, enda þær bornar fram í samræmi við lög um upplýsingaskyldu stjórnvalda.

Ítreka enn og aftur að spurningarnar tengjast á engan hátt þér persónulega eða öðrum sem hafa tekið að sér mikilvæg störf í þágu bæjarbúa og samfélagsins alls.

Með vinsemd og virðingu,
Jón Ólafur Björgvinsson.
Fréttaritari Sigló.is

Svar frá gjaldkera:


Jón Ólafur Björgvinsson
Fréttaritari Sigló.is

Það er alveg sjálfsagt að upplýsa þig eins og ég get varðandi fjármál Siglufjarðarkirkju og Kirkjugarða.

Skuld kirkju við kirkjugarð var ekki afskrifuð hún var jöfnuð út á nokkrum árum. Svo háttar  til að útfarir eru alfarið á vegum kirkjugarða og greiða kirkjugarðarnir t.d. prestkostnað við útfarir, það hefur verið talið eðlilegt að kirkjugarðar leggi fé til útfararkirkju og er það nokkuð almett á landinu, t.d. reka kirkjugarðar Reykjavíkurprófastdæma kapellu og kirkju af sínu fé.  Það er aðallega í tengslum við  útfarir sem eiga sér stað greiðslur á milli kirkju og kirkjugarða. Siglufjarðarkirkja fær ekki fé frá kirkjugörðum, þessar upphæðir sem  verða til við útfarir ætti raunverulega að jafna út um áramót. Það hefur verið mottó hjá Sóknarnefnd að hafa fjárhaginn eins aðskilin og kostur er. Árið 2002 var skuld kirkju við kirkjugarð 1.104.000 frá þeim tíma hefur hún minkað.

Niðurstaða ársreiknings 2014 var jákvæður um kr. 546.043,- Það hefur verið markmið að auka ekki skuldir kirkjugarðsins.

Kirkjugarðarnir fengu ekki framlag frá Vinnumálastofnun árin 2013 og 2014.  Við sóttum um en það voru engir á atvinnuleysiskrá til að vinna í kirkjugörðunum. Þannig var líka í ár ég sótti um og fékk nafnalista og höfðum við samband við þá aðila sem virtust geta unnið þessa vinnu, ýmist höfðu þeir ekki áhug eða voru komin með aðra vinnu.

Það hefur ekki verið lögð fram fjárhagsáætlun fram að þessu. Það er mjög erfitt að segja til um kostnað t.d. vegna grafartöku hvað eru margar grafi í gamlagarði og hvað er mikill snjómokstur, við höfum ekki fastan kostnað að byggja á.

Þegar farið er í fjarfrekar aðgerðir er það lagt fyrir sóknarnefnd. Greiðsla reikninga hjá kirkju er því miður yfirleitt fastur kostnaður afborgun og vextir tryggingar laun 80% af mánaðarlegu ráðstöfunarfé kirkjunnar fer í fastan kostnað, þegar það er greitt er ekki mikið eftir.  Sóknarprestur stýrir safnaðarstarfi og kaupir það sem til þess þarf einnig kirkjuverðir til daglegs reksturs kirkju aðrir taka ekki út vörur í nafni kirkjunnar. Þannig er það einnig farið með rekstur kirkjugarða.

Á haustin í byrjun starfsárs er nú lagt fram sexmánaða uppgjör.  Nú er unnið að fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár og verður sú tillaga lögð fyrir sóknarnefnd í byrjun vetrarstarfs

Í sambandi við aðalfundinn get ég ekki sagt þér af hverju hann var ekki haldinn, þegar byrjað er að breyta dagsetningum fyrir fundinn varð þetta svona, ég veit ekki af hverju. Sóknarnefnd er kjörinn til fjögurra ára þannig að sóknarnefnd hafði umboð til setu.

Við fórum í hönnun á garðinum í þeirri von að við gætum framkvæmt í garðinum það sem okkur bar t.d. minnismerki fyrri horfna og þá sem hvíla annarstaðar hús þ.e. starfsaðstöðu og gróður og vildum með því leggja okkar á vogaskálarnar um að gera garðinn að fallegum kirkjugarði. Við fengum ekki fjárframlag frá  Kirkjugarðaráði en þeirra stuðningur var í ráðgjöf við hönnunina. Svo ætluðum við að sækja um fjárframlag til Kirkjugarðaráðs til áframhaldandi framkvæmda. Þá kom hrunið og allir sjóðir tæmdust.  Það fer mjög mikil vinna hjá Kirkjugarðaráði í að fá leiðréttingar á framlögum frá ríkinu til kirkjugarða.

Jón það hefur verið virkilegur vilji hjá Sóknarnefnd að hafa kirkjugarðsmál í góðu lagi. Þetta er minningarreitur um horfna ástvini og tengist mikið tilfinningarböndum fólks.

Við vitum báðir að það er enginn ánægður með það hversu seint sláttur fór af stað í ár, og verður sóknarnefnd að hugsa þetta dæmi upp á nýtt svo þetta endurtaki sig ekki.  Það hefur ekkert verið hægt að slá í gamlagarðinum í þessari viku vegna bleytu. Það verður haldið áfram með hann strax og þornar.

Formaður Sóknarnefndar Sigurður Hlöðversson samdi við starfsmennina þeir eru tveir sem sjá um slátt í syðri garðinum.

Ég veit ekki hvað menntun þeir hafa. Ég veit ekki til þess að á Siglufirði búi garðyrkju menntuð manneskja, veit ekki hvaða menntunar ætti að krefjast. Ein spurning.

Ert þú menntaður blaðamaður?

Þessi menn eru ekki ráðnir í gegnum Vinnumiðlun.

Fjárhagsstaða kirkjunnar er búin að vera mjög slæm mjög lengi. Helgast það af því að sóknargöld eru greidd af hverju sóknarbarni og voru sóknarbörn Siglufjarðarkirkju sem greitt var með 2014 929. Það verður ekki hægt að halda uppi öflugu kirkjustarfi  reka og viðhalda kirkju og safnaðarheimili  með sóknargjöldum einum þó engar skuldir hvíldu á kirkjunni.  Viðhald og rekstur svona húss er mjög mikill, og sóknargjöld lág.  Ekki hefur tekist að fá sóknargjöld hækkuð eftir miklar lækkanir síðast liðina ára.

Árið 2002 Var tekið lán til að skuldbreyta eldri skuldum þar með einhvern hluta af orgelkaupum. Lánið hljóðaði upp á kr. 16.000.000,- og er búið að borga af því um áramótin 146 afborganir yfir 12 ár og stendur þá lánið í 18,4 milljónum um áramótin síðustu.

Á árunum 2006 til 2009 Var framkvæmt við kirkjuna  fyrir  kr. 21.000.000,-

Suður og vestur hlið kirkjunnar voru einangraðar og múrhúðaðar, skipt um þak á kirkjunni kirkjan máluð að utan og innan og annað nauðsynlegt viðhald, og áttum við von á að fá hluta af þessum framkvæmdum út Jöfnunarsjóði Sókna, en eftir hrun var enga peninga þar að fá í þessar framkvæmdir.

Það vildi svo vel til að kirkjan á marga góða velgjörðarmenn sem voru búnir að safna fé í tilefni 75 ára afmælis kirkjunnar og átti að fara til að greiða niður skuldir kirkjunnar, en það fé nýttist til þessara framkvæmda, þannig að skuldir kirkjunnar jukust ekki við þessar framkvæmdir.

Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda hvernig ástand væri á kirkjunni í dag ef ekki hefði verið ráðist í þessar framkvæmdir þá. Hún var þá orðin lek rakataumar láku niður veggi kirkjunnar. Ekki er auðvelt að ná í fjármagn til svona framkvæmda í dag.

Vegna minnkandi tekna hefur Sóknarnefnd og Sóknarprestur þurft að skera mikið niður allan kostnað. Eins og ég hef áður sagt var ákveðið að halda uppi öflugu barnastarfi og skera sem minnst niður þar.  Öll sjálfboðaliðsvinna er á undahaldi, en það eru enn nokkrir  sem eru tilbúnir að leggja kirkjunni lið, þar vil ég helst nefna Systrafélag kirkjunnar, kirkjukórinn, sóknarnefnd og fleira gott fólk.

Eins og ég hef áður sagt þá er unnið hörðum höndum í skuldamálum kirkjunnar og vonast ég til þess að þau mál skýrist á þessu ári.

Þó að skuldamál kirkjunnar leysist þá verður áfram barátta við viðhald og rekstur þessa stóra Guðshúss.  Gjaldendur eru of fáir til að viðhalda og reka þetta stóra Guðshús.

Með vinsemd og virðingu

Hermann Jónasson


Í mörgum bæjarfélögum hefur verið tekið til þeirra ráða að stofnaðar hafa verið sérstakar kirkjugarðsnefndir sem eru algerlega aðskildar frá sóknarnefnd og hennar störfum.

Enda eru þetta tvö mjög ólík verkefndi.

Með þessu er líka komið í veg fyrir að eyrnamerktum ríkisfjármunum sé blandað saman og þar með útilokað að fé fari frá umhirðu kirkjugarða í skuldargrafir kirkjustarfsemi.

Sóknarnefnd Siglufjarðar meðhöndlar yfir 20.000.000 árlega. Ca 12.000.000 í kirkju og sóknarstarf og ca 8.000.000 í kirkjugarða.

Það er mikilvægt að vel sé farið með ríkisfé og að réttar ákvarðanir séu teknar vegna kröfu og reglugerða um hvernig á að nota þessa peninga.

Lifið heil. 

Mynd og Texti:
Jón Ólafur Björgvinsson
Fréttasími: 842 - 0089 


Athugasemdir

21.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst