Lítilmannleg framkoma við Halldór Ásgrímsson
Stjórnin rýfur öll grið með því að ætla að kvarta undan því við vinaþjóðir okkar á Norðurlöndum, að Halldór skyldi vera endurráðinn framkvæmdastjóri Norræna ráðherraráðsins. Hefur Halldór ekki unnið starf sitt þar ágætlega? Ætlar stjórnin að flytja gamlar væringar innan lands austur um haf?
Er heift núverandi valdhafa og hefndarþorsta engin takmörk sett? Og ætlar Framsóknarflokkurinn að taka þessu þegjandi eins og Sjálfstæðisflokkurinn (með örfáum undantekningum) aðförinni að Davíð Oddssyni í Seðlabankann vorið 2009?
Bankahrunið 2008 átti sér ýmsar ástæður, ekki síst tregðu erlendra seðlabanka til að tryggja lánalínur til Íslands og ótrúlega fólsku Breta gagnvart Heritable Bank (en eigandi hans, Landsbankinn, var settur á lista yfir hryðjuverkasamtök) og Singer & Friedlander (sem var í eigu Kaupþings, en honum var ekki bjargað, einum breskra banka, hina örlagaríku daga í októberbyrjun 2008, að skipun fjármálaráðuneytisins breska, en ekki að ósk fjármálaeftirlitins þar í landi).
Sumar ástæður hrunsins voru vissulega innlendar, eins og rakið er með mörgum glöggum dæmum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Af henni má sjá, að innlenda meginástæðan var sú, að fámenn klíka í kringum Jón Ásgeir Jóhannesson hafði með yfirgangi og blekkingum tæmt íslensku bankana, svo að þeir voru vanbúnir fjármálakreppunni, sem jókst um allan helming haustið 2008.
Gagnrýna má íslenska ráðamenn eins og Halldór Ásgrímsson og Geir H. Haarde fyrir að hafa ekki veitt þessum yfirgangsseggjum viðnám, en þeim var vorkunn: Þeir sáu, hvernig þessi klíka hafði sigað öllum sínum álitsgjöfum og leigupennum á Davíð Oddsson, sem hafði leyft sér að reyna að takmarka hér völd hennar og áhrif. Enginn vafi er á því, að þessu liði tókst að grafa undan Davíð, sem hafði verið vinsælasti og áhrifamesti stjórnmálamaður þjóðarinnar.
Eini maðurinn í núverandi stjórnarliði, sem sýndi einhvern lit á að andæfa þessum þokkapiltum, var Ögmundur Jónasson, og var hann þó venslaður eiginkonu Jóns Ásgeirs. Ekkert heyrðist frá Steingrími J. Sigfússyni og Jóhönnu Sigurðardóttur. Raunar hafði Jóhanna aðeins áhyggjur af einu í Baugsmálinu svonefnda, þegar lögregla rannsakaði efnahagsbrot Jóns Ásgeirs og klíku hans. Það var kostnaðurinn!
Það er lítilmannlegt að reyna nú að bregða fæti fyrir gamlan andstæðing, þegar hann hefur getið sér gott orð erlendis. Þeir, sem beita slíkum brögðum, mega síðar eiga von á því, að þeir verði brögðum beittir. Þeir, sem rjúfa grið, geta ekki vænst griða.
Athugasemdir