Lúpína í landi Fjallabyggðar

Lúpína í landi Fjallabyggðar Uppgræðsla – jarðvegsbinding – landspjöll Ræktun lúpínu í bæjarlandi Siglufjarðar mun hafa hafist á árunum kringum 1970.

Fréttir

Lúpína í landi Fjallabyggðar

Héðinsfjörður fyrir nokkrum árum - greina má lúpínuna á Sandvöllum.
Héðinsfjörður fyrir nokkrum árum - greina má lúpínuna á Sandvöllum.
Uppgræðsla – jarðvegsbinding – landspjöll

Ræktun lúpínu í bæjarlandi Siglufjarðar mun hafa hafist á árunum kringum 1970. Var það fyrst í ógróna mela suður og upp af kirkjunni og svo skömmu síðar í leirskriðum undir Hvanneyrarskálarbrún. 

Ekki er vitað fyrir víst hver stóð að þessari ræktun en talið er að Garðyrkjufélag Siglufjarðar hafi komið þar að verki.

Á fundum umhverfisnefndar Siglufjarðar á árunum 1990-1994 var rætt um lúpínuræktun í firðinum og var gerð sú samþykkt að mæla með lúpínurækt ofan bæjarins í tvennum tilgangi. Að græða upp mela og skriður þar sem annar gróður ætti sér ekki vaxtar von og að lúpínan gæti bundið jarðveg þar sem ella væri hætta á skriðuföllum.
Síðan hefur borið nokkuð á því að einstaklingar hafi sáð eða plantað lúpínu á staði og svæði sem telja má mjög óæskilegt að þessi framandi uppgræðslujurt leggi undir sig.  Þetta framtak einstaklinga er vafalaust af góðum hug en það er afar mikilvægt að byggðaráð Fjallabyggðar marki sér stefnu í þessum efnum og stýri því hvort afdrifaríkar breytingar séu gerðar á landslagi og eðlilegu náttúrufari á láglendi eða til fjalla.
Hér skal bent á þrjá staði í Héðinsfirði og Siglufirði sem mikilvægir eru í jarðsögulegu tilliti og hvað fegurð snertir en eiga á hættu að hverfa undir lúpínu áður en langt um líður.
Mjög áríðandi er að sveitarstjórn Fjallabyggðar álykti um þetta mál þannig að sem fyrst verði hafist handa að stöðva útbreiðslu lúpínunnar á þessum stöðum. Þá vinnu mætti inna af hendi með unglinga- eða Veraldarvinavinnu í samráði við áhugamenn um náttúruvernd og landeigendur í Héðinsfirði.


1. Sandvellir í Héðinsfirði.
Þar eru sýnilegir fornir fjörukambar sem hafa orðið til eftir síðustu ísöld fyrir 10 þúsund árum og mynda nokkurs konar þúsaldarboga frá Héðinsfjarðarvatni og út að ysta og núverandi fjörukambi. Þessar einstöku jarðmyndanir sem minna á árhringi í trjástofni eru allvel vaxnar ýmsum mosategundum, lyngi og blómjurtum – en eru á góðri leið með að hverfa undir lúpínu sem plantað var fyrir mörgum árum við gangnamannakofann austast á Sandvöllum. Samþykkt sveitarfélagsins um mótvægisaðgerðir verður að vera með vitund og vilja landeigenda – t.d. Guðmundar Pálssonar og Guðlaugs Henriksen og þeirra fólks.

 

2. Blýkerlingarmelur í Hafnarfjalli, Siglufirði.
Í Blýkerlingarmel er eini fundarstaður grafíts á Íslandi. Steintegundin grafít var áður fyrr kallað ritblý og var og er enn notað til blýantsgerðar. Á átjándu öld var fundarstaður grafítsins mönnum ljós og gerðar voru tilraunir til að koma sýnishornum til rannsóknar í Kaupmannahöfn og stóðu vonir til námuvinnslu í melnum. En ekkert varð frekar úr ráðagerðum og fundarstaðurinn týndist þangað til fyrir u.þ.b. tuttugu árum.
Í kjölfar þess að snjóflóðaleiðigarðarnir Stóri-Boli og Litli-Boli voru gerðir neðan Blýkerlingarmels var lúpínu sáð neðst í melinn og færist hún óðfluga upp að sjálfu ,,grafítsvæðinu” þar sem allt mun færast á kaf í gróðurbendu innan nokkurra ára.

3. Melbungur undir Skollaskál, Siglufirði.
Undir myndarlegum Staðarhólshnjúkum í austanverðum Siglufirði er Skollaskál og framan við hana mikill og kúptur melur sem lúpínu hefur verið sáð í. Þarna er mikilúðlegt landslag, gráir klettar og bláir melar vaxnir viðkvæmum og smágerðum fjallagróðri. Yrði það sem þyrnir í augum að lúpínan færi þarna frekar um og myndaði dökkgræna gróðurbreiðu sem styngi algerlega í stúf við náttúrulega liti og landslag austurfjallanna. Þessi óboðna aðkomujurt er ekki lengra á veg komin á þessu svæði en það að auðvelt ætti að vera að stöðva hana og uppræta.

Örlygur Kristfinnsson

Már Örlygsson tók meðf. ljósmynd og er hún af heimasíðunni snokur.is


Athugasemdir

05.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst