Menningarmál

Menningarmál Með tilkomu Héðinsfjararganga verða mikil tímamót í bæjarfélaginu okkar. Um leið og samfélagið stækkar er mikilvægt að efla bæjarbraginn með

Fréttir

Menningarmál

Bergþór Morthens
Bergþór Morthens
Með tilkomu Héðinsfjararganga verða mikil tímamót í bæjarfélaginu okkar. Um leið og samfélagið stækkar er mikilvægt að efla bæjarbraginn með því að hlúa að mannlífinu og þeim þáttum sem setja mark sitt á bæina. Menningarmál og menningartengd ferðaþjónusta eru stórt sóknarfæri og það má alls ekki vanmeta hagræn gildi menningar. Menning er vandmeðfarið hugtak, m.a. að því leyti að skilgreining þess er óljós og mjög víðtæk. Í Fjallabyggð hefur menningin staðið í miklum blóma og svo sannarlega er margt sem má skilgreina sem menningu.

Meginhluti þess menningarstarfs sem unnið er í samfélaginu er í höndum einstaklinga eða samtaka þeirra, án opinberrar íhlutunar um inntak og tilhögun starfseminnar. Þetta frumkvöðlaeðli þeirra sem starfað hafa að menningarmálum hefur skapað Fjallabyggð töluverða sérstöðu og leitun er að öðrum eins fjölda af söfnum, listamönnum, handverksfólki og ýmiskonar menningarstarfssemi.

Hlutverk bæjarfélagsins á þessu sviði hefur einkum verið að búa í haginn fyrir starf sem einstaklingar og félög eiga frumkvæði að og stuðla að því eftir föngum að slíkt frumkvæði fái notið sín. Það þarf semsagt að nýta þennann gríðarlega auð sem býr í samfélaginu og virkja kraftinn sem býr í skapandi menningarstarfssemi. Þetta getur bæjarfélagið gert með því að styðja við bakið á góðum hugmyndum. Þetta hefur verið gert ágætlega og er ný menningarstefna bæjarins gott dæmi um þessa viðleitni. Fráfarandi menningarnefnd og formaður hennar hafa unnið mikið og gott starf í þágu menningarmála og það verður að tryggja að það góða starf haldi áfram og verði  enn metnaðarfyllra.

Mikil vakning hefur orðið í þessum málum undanfarin ár og má í raun og veru segja að mikil bylting sé að eiga sér stað í menningarmálum. Almenningur er farinn að opna augun betur fyrir gildi menningar og þeim margföldunuraráhrifum sem listir og menning hafa fyrir nærumhverfi sitt. Það er ekki alltaf einfalt að halda uppi öflugu meningarlífi, þar sem menningin kallast oft á við pólitískan og stjórnsýslulegan veruleika. Listalífið getur á ýmsum tímum lent í andstöðu við viðteknar skoðanir og venjur í bæjarfélaginu. Það þarf því að sinna þessum málalið af fagmennsku og bæjarfélagið þarf að hafa kjark til þess að styðja við bakið á verkefnum sem mörgum þykja kanski ekki ýkja merkileg. Niðurstöður þjóðfunda sem haldnir hafa verið vítt og breitt um landið gefa skýr skilaboð þess efns að menningarmál eru fólki ofarlega í huga og horfa margir til þeirra sem eins helsta sókarfæris okkar.
   
Þátttakendur í menningarlífi bæjarfélagsins, bæði þeir sem flytja eða skapa menningu og þeir sem njóta hennar, eru mikilvægasti hluti þessarar stefnu, með þeim peningum og tíma sem þeir leggja til sem flytjendur, skapendur og neytendur. Þarna komum við að mikilvægum þætti, menningarmál eru ekki bara einhverjir hugarórar fámennrar listaklíku sem er að sleikja eigið Egó - þetta er stórmál fyrir bæjarfélagið. Menningarmál eru ætíð leið fólksins í landinu til að styrkja og tjá sjálfsmynd sína, þarfir og langanir. Fjölbreytt lista- og menningarlíf er mikilvæg stoð til þess að styðja við bæjarfélagið og höfum við einstakt tækifæri til þess að móta ákveðin bæjarbrag, stefnu sem nær til allra þátta mannlífsins.

Í allri umræðu um þessi mál á það til að gleymast að börn og ungmenni eru líka hluti af bænum og menningarmál snerta þau líka. Það þarf að tryggja að í bænum sé framsækið og metnaðarfullt menningarstarf í þágu barna og ungmenna. Stefna skal að því að öll börn og ungmenni í Fjallabyggð eigi kost á listrænni þátttöku með eigin framlagi og upplifun. Menning og listir barna og ungmenna eiga að vera sýnilegur hluti af dag legu lífi og umhverfi íbúa í Fjallabyggð.

Fjallabyggð hefur á undanförnum árum verið að marka sér sess sem ferðamannabær og við höfum uppá svo margt að bjóða. Síldarminjasafniðog Þjóðlagasetrið eru lýsandi dæmi um þetta og svo hefur Rauðka nú verið að fylgja í kjölfarið með sínar framkvæmdir, allt þetta hjálpast að við að skapa ákveðið andrúm í bænum sem gerir hann eftirsóknarverðann fyrir fólk til að búa í og sérstaklega til þess að sækja heim.

Eins og áður hefur komið fram þá er erfitt að skilgreina menningu og margt sem rúmast þar, skipulagsmál flokkast líka undir menningarmál og það verður að marka einhverja ákveðna stefnu í þeim málum til þess að koma í veg fyrir skipulagsslys sem eyðilagt geta þá heildarmynd og það andrúm sem við sækjumst eftir fyrir bæinn.

Menningarstefna er alltaf hluti af almennri stefnumótun í þjóðfélaginu og tekur mið af þeim möguleikum og fjárhagslegu forsendum sem þjóðfélagið hefur. Hætt er við að menningarstefna við ráðandi aðstæður sé í besta falli viðhaldsstefna. Hér er mikilvægt að hafa í huga hlutverk menningar í sjálfsmynd bæjarfélagsins, þegar fjárframlög  til menningarmála eru ákveðin. Ljóst er að ef fjárframlög til þessa málaflokks eru skorin verulega niður, hefur það áhrif á menningarlega sjálfsmynd bæjarins og getu bæjarbúa og vilja til frumkvæðis og athafna þegar til langs tíma er litið. Því er nauðsynlegt að forgangsraða vandlega við gerð fjárhagsáætlun þannig að burðarvirki menningar í bænum standi áfram og rými fyrir nýjungar skapist, þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður.
                                    
Bergþór Morthens





Athugasemdir

04.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst