Minning: Geirrún Jóhanna Viktorsdóttir

Minning: Geirrún Jóhanna Viktorsdóttir Í dag fer fram frá Siglufjarðarkirkju útför Geirrúnar Jóhönnu Viktorsdóttur sem lést á

Fréttir

Minning: Geirrún Jóhanna Viktorsdóttir

Geirrún Jóhanna Viktorsdóttir
Geirrún Jóhanna Viktorsdóttir

Í dag fer fram frá Siglufjarðarkirkju útför Geirrúnar Jóhönnu Viktorsdóttur

sem lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri þann 17 febr. sl.  Geirrún var á sjötugasta og áttunda aldursári.

Það er alltaf sárt að kveðja vini síðasta sinni.  Það koma svo mörg minningabrot upp í kollinn á manni og erfitt að sætta sig við að viðkomandi sé farinn yfir móðuna miklu.

Vinátta okkar Rúnu  nær aftur til sumarsins 1972. Ég þá fimmtán ára baldinn unglingur var lagður inn á Sjúkrahúsið á Siglufirði með berkla.  Það var ekki auðvelt fyrir ungling að vera lokaður inni á sjúkrahúsi yfir hásumarið. Sólin skein úti og allir vinirnir að vinna eða í ferðalögum.

 

Þetta sumar eignaðist ég eina af mínum bestu vinkonum.  Rúna dvaldi um nokkra vikna skeið á sjúkrahúsinu þar sem hun barðist við að ná af sér aukakílóum.

Með sinni háværu rödd skammaðist hún út í sjálfsvorkunn og væl. Hún átti svo auðvelt með að hrífa mann með og létta manni lund.  Hún gerði dvöl mína léttbærari og kenndi mér margt.

Veikindin höfðu gengið nokkuð á mína þyngd og var ég því settur á kjarnmikla næringu. Feitan og orkumikinn íslenskan mat.  Ég fékk fljótt leið á þessari fæðu en girntist meir grænmetið og ávextina hennar Rúnu.  Það tók ekki langann tíma að semja við þessa nýju vinkonu mína. Hún fékk það sem henni þótti best af mínum mat og ég það sem mér þótti best af hennar. Bæði alsæl með samkomulagið.

Fljótlega fann Rúna út dálæti mitt á hákarl.  Samið var við Sigga Jóns eiginmann hennar um að smygla einni beitu inn á sjúkrahúsið. Beitan hékk i spotta út um gluggann á stofu Rúnu og var dreginn inn á hverju kvöldi.

Ég veit ekki hvernig árangurinn af  dvöl Rúnu á sjúkrahúsinu var mældur. Fyrir mig var hann stórkostlegur. Þarna eignaðist ég æskuvinkonu á aldur við móður mína.

Eitt helsta einkenni Rúnu var hreinskilni hennar. Alltaf óhrædd við að segja meiningu sína. Sama við hvern var talað. Það fór ekkert á milli mála þegar hún mætti á svæðið.  Hún hafði sterka skoðun á hlutunum hún Rúna. Jafnt á stjórnmálamönnum sem og á samferðamönnum sínum.

Í síðustu heimsókn minni til Íslands kom ég þrisvar sinnum til Siglufjarðar.  Ég reyndi ávallt að koma við hjá vinkonu minni upp á Skálahlíð á ferðum mínum norður. Eitthvað hafði ég verið á hraðferð í fyrstu tveimur heimsóknunum. Ég hafði ekki gefið mér tíma til að líta við hjá Rúnu.  Það fór ekkert framhjá vinkonu minni. Hún hafði frétt af dvöl minni í bænum. Hún tilkynnti móður minni að ég væri svikari. Ég hefði lofað að koma alltaf við hjá henni þegar ég kæmi til Siglufjarðar. Þegar ég mætti svo í heimsókn í minni þriðju ferð þá féllumst við í faðma eins og góðum æskuvinum sæmir.

Með Rúnu er fallin frá alþýðukona sem sárt verður saknað. Kona sem lifði miklar sveiflur í litlu samfélagi. Horfði upp á mikil verðmæti skapast á síldarárunum og síðan erfið ár eftir hrun síldarstofnanna.  Það hvarflaði aldrei af Rúnu að hopa. Mótlæti var eitthvað sem menn yrðu að vinna á.  Það er minningin um fólk eins og Rúnu sem á að vera okkur hvati til að láta ekki tímabundna erfiðleika draga úr okkur kjarkinn. Við höfum skyldur við þá arfleið sem Rúna skilur eftir sig og við þá sem eftir lifa.

Ég votta ættingjum Rúnu samúð mína og bið þá að varðveita vel minningu um góða konu.

 

Farðu í friði kæra vinkona.

Guadalajara Mexíkó  27 febrúar 2010.

Róbert Guðfinnsson



 

 


 

 


 

 


 


 

 


 

 

 


 

 

  

 

        

 

 

 

 

Athugasemdir

05.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst