Orð í belg !

Orð í belg ! Í umræðu fjölmiðla, í viðtölum við meinta sérfræðinga og fólk á götunni sem fréttastofur hafa haft viðtöl við, hefur oftar en ekki brugðið

Fréttir

Orð í belg !

Í umræðu fjölmiðla, í viðtölum við meinta sérfræðinga og fólk á götunni sem fréttastofur hafa haft viðtöl við, hefur oftar en ekki brugðið við setningum eins og
“Þetta er vilji þjóðarinnar”  - “þetta er það sem þjóðin vill”  “Þjóðin hefur kveðið sér hljóðs” - “þjóðin heimtar þetta og hitt” og fleiri álíka fullyrðingar sem engin rök eru á bak við sem réttlæta fullyrðinguna “um vilja þjóðarinnar”.

Fréttastofur og jafnvel þáttagerðafólk hafa gert sig sekt um að  hafa viðtöl við grímuklædda hryðjuverkamenn og komið skoðunum þeirra á framfæri.
Nokkuð sem samsvarar því að réttlæta svívirðingar um fólk á blogg síðum undir dulnefni án nokkurra raka, aðeins blindri hefndarþrá, heimsku eða hatri.

Hvaða "fólk" er þetta sem lét öllum illum látum og hagaði sér svo illa að þeir vildu ekki fyrir nokkurn mun láta neinn vita hverjir þeir væru, svo þeir hugsanlega þyrftu ekki að skammast sín síðar fyrir tiltækin ?

Hvað var þetta stór hópur sem kallaði sig fulltrúa þjóðarinnar, að Herði Torfasyni meðtöldum, var þetta nema um 1- 2 % af þjóðinni sem gargaði án þess að vita um nein raunveruleg rök fyrir hegðun sinni, aðeins tilvitnanir einstakra misvitra trúða, og stjórnmálamanna.

Það var mikið og slæmt sem hefur gengið yfir þjóðina það vita allir. En hverjir vita fyrir víst hver eða hverjir eiga sökina?  Ekki nokkur maður með vissu og enn síður HT og gengi hans.

Við tókum jú öll þátt í þessu og trúðum ÖLL á þetta ímyndaða góðæri sem raunar komst aldrei út fyrir stór- Reykjavíkursvæðið.

Aðeins Davíð ! þóttist hafa varað við þessum ósköpum, og nokkrir fleiri ásamt frægum Dönskum bankamanni, sem ekkert af okkur trúði og héldum áfram að eyða peningunum sem við aldrei sáum, en héldum að væru til (?).

Og svo voru til pólitískir leiðtogar sem lögðu blessun sína yfir skrílslætin á Asturvelli, það er þeir töldu þau eðlileg viðbrögð þjóðarinnar við ástandinu ! og vildu jafnvel á þingi láta rannsaka aðgerðir lögreglu gagnvart þessum skríl sem kastaði öllu lauslegu í lögregluna, sem í raun sýndi einstaka stillingu.

Þeir hefðu átt að ganga á þessa grímuklæddu hryðjuverkamenn og stinga þeim í steininn sem slíkum, þar sem ólöglegt er að villa á sér heimildir, hvað þá í leiðinni að brjóta öll velsæmismörk að auki.

Þá tók ég eftir því að skríllinn ásamt fleirum sýndu þingmönnum á leið til vinnustaðar síns, fyrirlitningu og fleira ósæmilegt, að undanskyldum sjálfum “höfðingjunum” sem var hampað og fengu bros í staðinn frá sumum þeirra. “Svei skít,” sagði kerlingin.

Hvað þarf mikið af eggjum, grjóti og búsáhöldum ef einhverjum hálfvita dytti í hug að bæjarstjórn Fjallabyggðar væri ekki starfi sínu vaxinn og krefðist þess að bæjarstjórnin segði af sér.

Sennilega ef miðað er við mælikvarðann þarna fyrir sunnan, mundu 15-20 slíkir að nægja.

Einu vandræðin yrðu sennilega þau að slíkir hryðjuverkamenn eru ekki til í Fjallabyggð, hvað þá 15-20.

Eða mundi duga, svo annað dæmi sé nefnt að 2 % af þessum hryðjuverkamönnum heimtuðu með látum að flokksforusta þeirra segði af sér?
Mundi viðkomandi forusta hlýða slíkum kröfum?
 
Það skal skýrt tekið fram að ég skrifa þetta ekki fyrir hönd þjóðarinnar.

Það hefur enginn minnihluti leyfitil að  tala fyrir hönd þjóðarinnar nema að hafa sannarlegan, meirihluta þjóðarinnar á bak við sig og eða því máli sem hann flytur.

Þessi grímuklæddi skríll á  Austurvelli og víðar sem otaði sínum tota, og fólkið sem notaða búsáhöld til áherslu á kröfum sínum voru og eru ekki fulltrúar þjóðarinnar.

Mótmæli eiga rétt á sér en skrílslæti ekki.
Steingrímur Kristinsson



Athugasemdir

18.apríl 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst