SAGAN UM SVANINN! Síldveiðar, landlega og slagsmál o.fl. á Sigló 1935

SAGAN UM SVANINN! Síldveiðar, landlega og slagsmál o.fl. á Sigló 1935 Það voru verðir í síldarbrökkunum en við ýttum þeim nú bara til hliðar og ég man að

Fréttir

SAGAN UM SVANINN! Síldveiðar, landlega og slagsmál o.fl. á Sigló 1935

Fraktskútan Svanurinn frá Kläderholmen
Fraktskútan Svanurinn frá Kläderholmen

 Fyrir löngu síðan sat ég undritaður “Edmond Bäck” bátaáhugamaður og faðir minn Johan Bäck fyrir framan sjónvarpið í stofunni á æskuheimili mínu og töluðum um liðinn tíma. Samtalið í þetta skiptið snerist um frásögn föður míns af miklum ævintýratúr sem hann fór í sumarið 1935 með fjögra mastra fraktskútunni Svaninum á síldveiðar við Íslandsstrendur.

Við munstruðum um borð á fraktskipið Svaninn 15 apríl í Kalmar sem var fjögra mastra skúta sem var skráð í Klädersholmen.
Eigendur voru Hr.  Larsson frá Smögen og Albert Eriksson frá Klädersholmen sem var jafnframt skipstjóri. Við vorum þá 6 í áhöfninni.

 Við sigldum með allskyns vörur upp og niður með austurströnd Svíþjóðar og vorum meðal annars norður í Härnösand. En svo fengum við allt í einu fréttir um að útgerðin væri búinn að ákveða að skútan skildi fara á síldveiðar við Ísland.

Við vorum skráðir af skútunni sem fraktsjómenn og síðan ráðnir aftur sem síldveiði og “söltunarmenn” undir öðrum skilmálum og núna sem hluti af 25 manna áhöfn.

(Sjá þýðingu á ráðningarsamningi í lok greinarinnar.)

 

Sagan er vélrituð á gamlan heiðarlega máta. 

Okkur var síðan safnað saman í Kalvesund en þar var Svaninum breytt i fljótandi söltunarplan og allt sem til þarf sett um borð.  8 júlí sigldum við af stað og ferðin á miðinn tók 7 sólahringa. Við ræddum mikið um hvað við myndum þéna í þessum túr og þeir gömlu sögðu að við gætum reiknað með ca 800 – 1500 skr. Þeir sögðu okkur einnig að þegar við sæjum fjallgarð sem líktist hesti að þá værum við að nálgast síldina sem var norðvestur af “Kap Langanes”.

Ýmsar staðreyndir um Svaninn. 200 hestafla vél var sett í skútuna 1935. Byggð 1919, sökk 1956.

Við sem tilheyrðum Öckerö síldarsöltunar félaginu vorum með bækistöð í Ingólfsfirði til að byrja með. Við vorum í síldarleit í fyrstu 14 dagana án þess að sjá eina einustu síld......en svo eitt kvöldið þegar við vorum á leið inn á Ingólfsfjörð þá birtist hún allt í einu. Kom upp að yfirborðinu og það var glitrandi síld út um allan sjó. Sá sem sá torfuna fyrst þorði ekki að kalla hátt af hræðslu við að fæla síldina í burtu, svo hann hífði upp fána sem merki til þriggja minni snurpunóta báta sem veiddu síldina fyrir okkur.
Þessir snurpunóta bátar voru frá allir frá Donsö og þetta voru hörku sjómenn á mjög svo vel útbúnum litlum bátum og þeir gátu siglt á 8 -9  hnúta hraða.

Við fengum mest af öllum ca 450 tunnur í einu kasti. Við unnum stanslaust í 1 og ½ sólarhring, fengum bara 10 mínútna pásur til að borða svo að eingin myndi nú sofna en þessir gömlu sofnuðu samt smástund.

Myndirnar sem sýna söltun um borð eru allar teknar út um gluggan á stýrishúsinu á skútunni EROS, en Johan sem segir söguna eignaðist þá skútu seinna.

Af þeim 25 manns sem voru um borð voru 11 valdir út sem síldarsaltarar sem var vægast sagt hræðilega erfið vinna. Hinir þessir reyndustu voru “kverkarar” þ.e.a.s. þeir gátu setið í grunnri síldarlestinni sem var uppi á dekkinu og “kverkuðu” síldina með stórum sérstökum skærum þar sem hausinn var klipptur af og innyflin dregin út í einu og sama handtakinu.

Við sem vorum saltarar vorum að drepast í bakinu og þar var mjög erfitt att standa bogin í baki og salta ofan í tunnur dag og nótt í veltingi og vindi.

Við þurftum að raða síldinni í tunnurnar, lag eftir lag með magann upp og sletta salti yfir í hvert skipti, þetta var sko ekki létt í sjógangi og skítaverði. Við reiknuðum stundum af gamni okkar hversu margar síldar sem fóru í hverja tunnu, oftast var það í kringum 350 st.
Í hvert skipti sem við byrjuðum á salta í nýja tunnu þá þurftum við að opna tunnuna með því að nota “díxil” í byrjun tók það mig 25 til 30 slög með díxlinum á efstu gjörðina til þess að getað opnað tunnuna. Þeir gömlu gerðu þetta í 2-3 slögum og  lok túrsins gat ég það líka.

Áður en tunnunni var lokað þurfti að fylla á með laka (Saltlegi) og hún var síðan sett niður í lestina og geymd þar. Það komu Norsk vöruflutningaskip og hittu okkur út á opnu hafi, þetta gerðist nokkrum sinnum, þá sérstaklega í byrjun veiðitímabilsins en þá var mikilvægt að fersk nýsöltuð Íslandssíld kæmist fljótt á markað sem gaf gott verð í t.d. Gautaborg.

Man að þegar þeir komu í fyrsta skiptið þá tóku þeir 180 tunnur af því sem við fengum í fyrsta kastinu góða.  

Síldarsöltun um borð i Eros, þeir sitja í lestinni og "kverka" síld.

Þegar við vorum að salta þá héldum við okkur oftast utan við 3 mílna landhelgina en þegar það var vont í sjóinn þá stálumst við inn fyrir til þess að fá smá skjól og minni velting en stundum birtist Íslenska landhelgisgæslan og þeir sigldu vanalega í nokkra hringi í kringum okkur og horfðu á okkur með kíkir en skipstjórinn varaði okkur alltaf við áður en þeir komu og þá var okkur skipað að fela okkur niðri í lúkar og bíða þangað til íslendingarnir væru farnir.

Þá héldum við áfram að salta, en auðvitað vissu þeir mikið vel hvað var í gangi.  

Það var að mestu leiti ágætis veður í þessum langa túr, en einu sinni skall óvænt á okkur  ofsaveður og í byrjun stóðum við með olíulampa sem ljós því það var ekkert rafmagnsljós uppi á dekki. Það dimmi snögglega þegar þessi stormur skall á. 

Við reyndum eftir bestu getu að klára að salta en það gekk ekki og allt laust efni, fullar tunnur og tómar hentust út um allt dekk og það fót- og handleggsbrotnu 4 úr áhöfninni. Þeir vor sendir heim í sjúkraleyfi. Síldarlestin með ferskri síld brotnaði og allt rann útbyrðis, við þurftum að kasta okkur upp í rjáfra og setja upp segl og forða okkur í land.

Þegar það var lítið um síld létum við reka og þá pilkuðum við þorsk, fengum marga sem voru 7-8 kíló og við hefðum geta veitt fleiri hundruð kíló á dag og þess vegna komum við heim með slatta að saltfiski sem aukalaun úr þessum túr.

En það var náttúrulega leiðinlegt að hanga alltaf þarna utan við 3 sjómílna landhelgina og stundum skruppum við í land og þá varð nú “tjo & tjim” og dans á bryggjunni.

Eins og sjá má á þessari mynd var mjög lítið athafnapláss um borð.

Já og auðvitað var brennivín með í för, þ.e.a.s. smygl brennavín sem við földum vel. 

Þarna voru allra þjóða kvikindi og fullt af “síldarstúlkum” sem bjuggu í “brökkum”  yfir síldarsumarið.  Við kynnumst nokkrum á Ingólfsfirði en á Siglufirði var mun skemmtilegra þar voru þær um og yfir 1500. Og auðvitað vildu við strákarnir frá Bohuslän skemmta okkur og hafa gaman af því litla úrvali af afþreyingum sem til var á þessum stöðum.

Það voru verðir í síldarbrökkunum en við ýttum þeim nú bara til hliðar og ég man að einu sinni sátum við inni í einum af þessum dimmu brökkum í bjartri sumarnóttinni og þá slökkti einhver ljósið og þá urðu mikil læti og bræðurnir frá Smögen sem voru með okkur á Svaninum slógust eins og hundur og köttur við hvorn annan í myrkrinu því þeir héldu að þeir væru að slást við íslendinga. Einhvern hótaði með því að hringja á lögregluna og þá létum við okkur hverfa.

Það kom líka fyrir að Það komu stúlkur um borð til okkar og þær voru sérstaklega hrifnar af einum skipsfélaga sem við kölluðum “Sjarmörinn” en hann hafði góða söngrödd og gat sjarmað hvaða dömu sem var upp úr skónum og úr öðrum fatnaði líka.

Man að það komu stundum um borð stelpur sem við kölluðum Lúlú, Lóla og Víóla, þá síðastnefndu kölluðum við fyrir “Fjolla” því hún var eitthvað svo feimin og ræfilsleg.

Annars var þarna allt frekar fátæklegt á okkar mælikvarða á þessum tíma og verðlagið var alveg hræðilegt. T.d. kostaði ein flaska af gosdrykk 75 sænska aura.

Íslendingarnir sáu þessar veiðar okkar ekki með blíðum augum. Þeir voru reyndar alltaf á undan okkur að sjá síldartorfurnar, þeir mega eiga það það, en við vorum líka með nokkra sem voru með arnaraugu. Það var  auðvitað sárt fyrir þá að við vorum með miklu hraðskreiðari og betur búna veiðibáta en þeir á þessum tíma, það var ekki fyrr en eftir stríð sem þeir slóu okkur á því sviðinu. 

Við komum alltaf fyrstir að torfunum og vorum oftast búnir að taka meira en helminginn um borð þegar þeir komu á sínum gömlu bátum.

Fyrir utan okkur Svíana þá voru þarna floti frá Eistlandi og svo Rússar og Pólverjar sem voru með sín risastóru verksmiðjuskip með fullt af kvenfólki um borð.

 Áhöfnin á Svaninum í öðrum túr við Ísland 1947. Myndin er tekin á Siglufirði.

Stundum þurftum við vegna plássleysis um borð að fara inná einhvern fjörðinn og skilja þar eftir vistir og annað. Það var sýslumaðurinn í firðinum sem sá um geymsluna. En einu sinni höfðum við skilið eftir slatta af olíutunnum og þegar við komum tilbaka til að sækja þær þá voru þær á einhvern óskiljanlegan hátt allar tómar. Birgðaskipið sem kom með vistir og annað til okkar hét Ingolf og mér var sagt að skipið hefði heitið Casablanca hér áður fyrr.

Í lok túrsins var samt skortur á öllu, enginn sykur til og maturinn var frekar lélegur, sumir voru farnir að dreyma um hitt og þetta sem þeim langaði að kaupa þegar við kæmum til Gautaborgar en það fannst mér fáránlegir draumórar og tímasóun að vera velta sér upp úr slíkum hugsunum þegar það var hellingstími eftir af þessum túr.

Ágóðinn úr þessum túr varð nú ekki alveg eins og við reiknuðum með. Við vorum á tryggingarlaunum uppá 25 skr á viku og tilviðbótar fengum við aukalaun fyrir hverja saltaða tunnu. Ef ég man rétt þá fékk ég ca 350-360 skr fyrir þessa þrælavikur en það þótti nú reyndar skítssæmilegt á þessum tíma.

Annars var þetta skemmtileg reynsla fyrir 24 ára strák og margir eftirminnilegir karakterar um borð, eins og ein af þessum gömlu sem var kallaður “Drumburinn” en hann var frá Smögen. Svo var þarna Egnelbrektson frá Hunnebostrand, Person frá Smögen, og Línus frá Klädersholmen og vinur hans frá Kornö. Þessi vinur hans var eftirminnilegur en ég man ekki hvað hann hét en hann var með eldrautt mikið skegg sem stóð út í allar áttir eins og broddar á broddgelti. Línus var reyndur ferðamaður og hafði meðal annars verið í Mexíkó á þeim tíma sem þeir gerðu byltingu þar aðra hverja viku. Sá eini sem var frá mínum heimaslóðum var Torvald karlsson en hann var ekki með okkur í síldarsöltuninni, hann var vélstjóri.

Þegar við komum loksins til Gautaborgar þá kom Konrad frá Smögen og sigldi norður með okkur strákana heim til Malmön á sínum litla fiskibát. Við drukkum eins og svín á heimleiðinni og bræðurnir frá Smögen byrjuðu að slást eins og venjulega í þröngum lúkarnum. Þegar við sama kvöld sigldum inn í höfnina í Malmön þá sá ég bróðir minn Valdimar á Gufuskipabryggjunni og fjöldann allan af vinum og ættingjum og forvitnum bæjarbúum. Það var sungið og húrrað fyrir okkur og ég var mjög svo stoltur þegar ég gekk frá borði með aukalaunin mín sem voru, ½ tunnu af síld og stórt knippi af saltfisk en þetta fengu allir  að taka með sér heim.

Ég var síðan heima í nokkra daga og svo munstraði ég aftur um borð í Svaninn 24 september en hann var þá aftur orðin fraktskúta og við fórum norður í land og sóttum timbur sem við sigldum með til Danmörku, ég var háseti á Svaninum í samanlagt 8 mánuði og það var skemmtilegur og lærdómsríkur tími fyrir mig 24 ára gamlan ungling.

 Ég sem hlustaði á og krotaði niður þessa sögu 1974 heiti Edmond Bäck.”

Svo merkilega vill til að ég sat með þessum Edmond sem sýndi mér hvernig maður bleytti upp harðar skipaskökur í kaffi í Skerjahöfn fyrir nokkrum vikum síðan, ég vissi það ekki þá að þetta væri sonur Johans sem segir þessa ævintýrasögu.

Sjá grein og myndir hér:

De seglade från Tjörn.......Til SIGLÓ. (50 myndir)

Ég á eftir að þýða smá úrdrátt úr tveimur sögum til viðbótar, sú fyrri er líka skrá af Edmond og fjallar um veiðitúra með skútinni Soffíu við Íslandsstrendur 1945-1948 og svo kemur skemmtileg saga um Dagný sem er líka bátur sem ég hef minnst á áður og kynni mín af hinum fræga skipstjóra “Elsku John” sem var söguhetjan i frægri bók og seinna kvikmynd sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna 1964.

Sjá myndir og stutt skrif um Elsku John hér: 

SIGLUFJORDUR er nafli alheimsins og SILLENS CLONDYKE

Svanurinn með fullfermi af timbri  

RÁÐNINGARSAMNINGUR: Þýðing.

Milli Síldveiðifélagsins Öckerö, staðsett í Gautaborg, héðan eftir kallaður “atvinnuveitandi” og Johans Bäck sem er með lögheimili í Malmön hér eftir nefndur sem atvinnutakandi og staðfestir þessi samningur skilmála vegna þátttöku í síldveiði við með söltun, kryddun og geymslu á tunnum um borð við norðurströnd Íslands á tímabilinu 5 júlí til 30 september 1935.

Hin ráðni atvinnutakandi skuldbindur sig til að í einu og öllu hlíða skipunum ráðamanna um borð í þessari veiðiferð.

Unnið verður dag sem nótt á meðan nægilegt magn af ferskri síld er um borð. Ákvarðanir varðandi pásur fyrir mat og hvíld er alfarið í höndum vinnuveitenda og það er ekki greitt sérstaklega fyrir næturvinnu.

Hin ráðni á sjálfur að taka með sér dýnu, sængurbúnað, vinnufatnað, hnífapör, disk og könnu og atvinnutakandi lofar einnig að ekki taka með áfengi um borð.

Atvinnuveitandinn greiðir tryggingarlaun uppá 25 kr. í vikulaun. Óháð því hverskonar vinnu verður krafist í veiðiferðinni.

Þar fyrir utan greiðir vinnuveitandi 1 kr á hverja tunnu með hausaðri og handsaltaðri síld í tunnur með ca 85 kg síld í hverja tunnu. Fyrir síld sem er “kverkuð” (hausuð og magadregin) er greitt kr 1.50. Ef hinn ráðni er staðin að verki við að svindla og svíkjast undan gæðakröfum þá verður dregið af launum hins ráðna sem refsing.

Hin ráðni er ábyrgur fyrir öllum verkfærum sem honum er trúað fyrir við sína vinnu og lofar einnig að gæta varkárni og bera virðingu fyrir öðrum eigum útgerðarinnar um borð.

Vikulaun uppá kr 25 getur hin ráðni látið taka út í peningum í heimahöfn af fjölskyldu ef svo er óskað að öðru leyti fær hinn ráðni lokauppgjör í síðasta lagi 8 dögum eftir heimkomu.

Matur og annað til daglegrar notkunar er ókeypis um borð frá fyrsta degi og til lok ferðarinnar.

Ef upp kemur ágreiningur á meðan á veiðum stendur skal það lagt til hliðar og gert upp í dómstól við heimkomu. Hin ráðni getur ekki farið frá borði án gildra ástæðna. Ef að hin ráðni ekki hlýðir fyrirmælum stjórnenda um borð á hann á hættu að verða sendur heim á eiginn kostnað.

Með undirskrif staðfesta báðir aðilar innihald þessa samnings. 

Gautaborg 25 júní  1935.

 

Lifið heil, kær kveðja
Nonni B.

Texti g þýðing:
Jón Ólafur Björgvinsson
Þýðing og myndir birtar með leyfi félagsins “De seglade för Tjörn” sem einnig eiga skilið mikið þakklæti fyrir frábærar mótökur og hjálp við birtingu á þessum greinum.
Aðrar heimildir eru sóttar í skipa og bátaháhugamanna tímaritið “Länspumpen”.

Aðrar heimildir um síldveiðar Svía og Norðmanna við Ísland:

Drivgarnsfisket vid Island på 1900-talet

Bohuslän var landets sillcentrum

SILDEFISKET VED ISLAND (Del 1) Norsk síða.

SILDEFISKET VED ISLAND (Del 2)

Aðrar greinar um Siglufjörð og vesturströnd Svíþjóðar:

 

De seglade från Tjörn.......Til SIGLÓ. (50 myndir)

PÅ VÄG MOT ISLAND…. á heimaslóðum sænskra síldveiðimanna! 

Siglfirðingar, síld og sakamálasögur í Fjällbacka

Stórkostleg kvikmynd frá 1954 fundin

SILLSTULKOR I SIGLUFJORD / Sænsk myndasyrpa frá 1945

SIGLUFJORDUR er nafli alheimsins og SILLENS CLONDYKE (Myndir og myndband)


Athugasemdir

21.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst