Samfylkingin stendur með stórfyrirtækjunum !

Samfylkingin stendur með stórfyrirtækjunum ! Undanfarna daga hefur öll þjóðin mátt horfa upp á "smjörklípu-herferð" (smear campaign) Samfylkingarinnar

Fréttir

Samfylkingin stendur með stórfyrirtækjunum !

Loftur Altice Þorsteinsson
Loftur Altice Þorsteinsson
Undanfarna daga hefur öll þjóðin mátt horfa upp á "smjörklípu-herferð" (smear campaign) Samfylkingarinnar gegn Sjálfstæðismönnum. Til að hylja fyrirlitlega afstöðu til fullveldis landsins og undirlægjuhátt við erlent vald, hefur Samfylkingin gripið til þess ráðs að beita velþekktri "smjörklípu-aðferð" (smear tactics) gegn Sjálfstæðisflokknum.
Því er haldið að fólki, að vegna þess að Sjálfstæðismenn voru öðrum duglegri við fjársöfnun á árinu 2006, hafi flokkurinn þegið mútur og fóstrað siðspillingu. Þótt ótrúlegt sé, fóru nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokks á taugum og hófu að básúna þessi viðhorf undir taktfastri stjórn Samfylkingar. Allt er þetta mál með ólíkindum, þar sem sannleikanum er snúið upp á andskotann.

Staðreyndin er sú að Sjálfstæðismenn hafa viljað ganga lengra en flestir aðrir, við að útiloka áhrif stórfyrirtækja á stjórnmálalíf í landinu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur árum saman lagt fram tillögur um að fjárveitingar fyrirtækja til stjórnmálsamtaka væru bannaðar. Þeir menn sem gleymnir eru, eða þeir menn sem ekki vilja muna einhverjar staðreyndir, eru stundum sagðir vera með gullfiska-minni. Í þessu máli hafa einmitt ótrúlega margir reynst vera með gullfiska-minni.

>>>><<<>>><<<<

Lög frá Alþingi nr.162/2006 um "fjármál stjórnmálasamtaka", tóku gildi 01.janúar 2007. Við setningu þessara laga var tekist á um tvö sjónarmið. Sjálfstæðisflokkurinn vildi "banna" fjárveitingar fyrirtækja til stjórnmálasamtaka, en Samfylkingin heimila þær. Þetta kemur skýrt fram í ræðu Björgvins G. Sigurðssonar frá 09.desember 2006:

    Hér mætast tvær leiðir sem lagðar voru til í upphafi í starfi nefndarinnar, sem var annars vegar baráttumál og þingmál hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að opna bókhald flokkanna og hins vegar tillaga frá Sjálfstæðisflokki sem Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hafði kynnt hér um að banna framlög til flokkanna frá fyrirtækjum.

Að "banna" fjárveitingar fyrirtækja til stjórnmálsamtaka, hefur lengi verið stefna Sjálfstæðisflokksins. Slíka reglu hefði átt að vera búið að setja fyrir löngu. Ef tekist hefði að neyða Samfylkinguna til að fallast á þessa leið, hefðu Sossarnir ekki haft tækifæri til að "þyrla upp moldviðri", eins og þeir hafa gert undanfarna daga. Líklega var staðföst andstaða þeirra við "banni" einmitt gerð í þeim tilgangi, að geta beitt "smjörklípu-aðferðinni".

Þegar Geir Haarde hélt framsögu um lagafrumvarpið um "fjármál stjórnmálasamtaka" 08.desember 2006, sagði hann meðal annars:

    Helsta álitamálið í starfi nefndarinnar var hvernig fara skyldi með takmarkanir á framlögum einstaklinga og lögaðila til stjórnmálastarfsemi. Komu þar fram ólík sjónarmið. Ein leið sem rædd var fólst í því að setja engin eða óveruleg bönn við framlögum en kveða þess í stað á um upplýsingaskyldu um framlög umfram tiltekna fjárhæð. Önnur leið sem rædd var fólst í að banna algerlega framlög lögaðila til stjórnmálastarfsemi og leyfa einungis félagsgjöld einstaklinga.

    >>>><<<>>><<<<

Til að undirstrika enn frekar andstöðu Sjálfstæðismanna við fjárveitingar fyrirtækja til stjórnmálasamtaka, ætla ég að taka tvö dæmi til viðbótar. Davíð Oddsson sagði í fyrirspurnartíma ráðherra á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2006:

    að flokkurinn væri tilbúinn að standa að tillögu sem bannaði fyrirtækjum að styðja stjórnmálaflokka ef aðrir væru tilbúnir til þess. Samfylkingin vildi ekki takmarka framlög heldur að upplýst væri um gefendur þeirra.

Þá má geta þess, að Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og varaformaður undirbúningsnefndar um lögin um "fjármál stjórnmálasamtaka", lýsti yfir eftirfarandi á blaðamannafundi 22. nóvember 2006:

    Það er mín skoðun að möguleikar fjársterkra fyrirtækja og einstaklinga til þess að hafa áhrif á stjórnmálalífið og stjórnmálastarfsemina séu margfaldir og allt aðrir í dag en þeir voru á þessum tíma og það er höfuðástæða þess t.d. að ég er mjög eindreginn talsmaður þessara tillagna og var eindreginn talsmaður þess að lögaðilum væri bannað að leggja fé í stjórnmálastarfsemi.

Framangreind ummæli Davíðs og Kjartans, eru þannig frekari staðfesting á því sem sagt var á Alþingi um málið. Sjálfstæðisflokkurinn er fylgjandi "banni" á framlögum fyrirtækja til stjórnmálsamtaka, en Samfylkingin er fylgjandi "opnun". Ég sjálfur hef verið fylgjandi "banni" áratugum saman.

Nú er Samfylkingin sakleysið uppmálað og beitir "smjörklípu-hernaði" (smear tactics) gegn Sjálfstæðisflokknum. Allt er þetta moldviðri með ólíkindum og bersýnilega gert í þeim tilgangi einum að beina athygli almennings frá fyrirlitlegri afstöðu Samfylkingarinnar til fullveldis landsins og breiða yfir undirlægjuhátt Sossanna við erlent vald Evrópusambandsins.

Höfundur Loftur Altice Þorsteinsson



Athugasemdir

18.apríl 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst