Skattamál atvinnulífsins

Skattamál atvinnulífsins Ríkisstjórnin hefur nú kynnt útfærð áform sín um skattahækkanir vegna fjárlagagerðar fyrir árið 2010. Töluverðar breytingar hafa

Fréttir

Skattamál atvinnulífsins

Vilhjálmur Egilsson
Vilhjálmur Egilsson
Ríkisstjórnin hefur nú kynnt útfærð áform sín um skattahækkanir vegna fjárlagagerðar fyrir árið 2010. Töluverðar breytingar hafa orðið á þessum áformum frá því sem kynnt var í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í októberbyrjun. Á undanförnum vikum hafa viðræður verið í gangi milli Samtaka atvinnulífsins og stjórnvalda um það sem snýr að atvinnulífinu í þessum skattahækkunum. 

Ekki tókst að ljúka þessum viðræðum þegar kom að framlengingu kjarasamninga í lok október og framgangur stöðugleikasáttmálans frá því 25. júní var metinn. Ákveðið var að láta reyna áfram á hvort hægt væri að ná ásættanlegri niðurstöðu. Nú þegar hún liggur fyrir er ljóst að komið hefur verið til móts við óskir Samtaka atvinnulífsins en þó eru mikilvæg mál sem enn er ekki samstaða um.


Fjárfestingar gangi fram

Ríkisstjórnin hefur horfið frá áformum um 16 milljarða nýja varanlega orku-, kolefnis- og umhverfisskatta en heildartekjur af þeim eiga nú að nema 4,4 milljörðum á ári í þrjú ár þegar þessir skattar falla niður. Í stað þeirra munu að þeim tíma liðnum koma skattlagning sem verður í samræmi við alþjóðasamninga og þróun á alþjóðlegum vettvangi. Þar til viðbótar munu stóriðjufyrirtæki fyrirframgreiða 1,2 milljarða króna í tekjuskatt árlega á næstu þremur árum. Með þessum breytingum á upphaflegum áformum er reynt að tryggja að áform um fjárfestingar í stóriðju og virkjunum geti gengið eftir en upphaflegu tillögurnar settu allar nýjar fjárfestingar í uppnám.

 

Óhjákvæmilegur reikningur

Atvinnutryggingagjald verður hækkað um 1,6% sem skilar ríkissjóði um 12 milljörðum króna á næsta ári. Þessi reikningur er afleiðing af miklu atvinnuleysi en kostnaðurinn af því lendir á atvinnulífinu samkvæmt gildandi lögum. Samtök atvinnulífsins telja að það sé skynsamlegra við núverandi aðstæður að greiða þennan reikning strax frekar en að atvinnulífið þurfi að greiða hann síðar ásamt áföllnum íslenskum vöxtum.

 

Frumvarp þvert á fyrirheit

Það sem mest stendur útaf milli Samtaka atvinnulífsins og stjórnvalda varðandi þessa skatta er staða sjávarútvegsins. Sú atvinnugrein er að taka á sig rúmlega 3,5 milljarða hærri skatta með hækkun veiðigjalds, kolefnisgjaldi og hækkun atvinnutryggingagjalds. Á sama tíma er gróflega vegið að rekstrarskilyrðum greinarinnar með frumvarpi um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem er meira og minna hreint fúsk. Frumvarp þetta er sett fram þvert á fyrirheit sem gefin voru í tengslum við stöðugleikasáttmálann og þriggja vikna gamla yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna framlengingar kjarasamninga.

 

Sérkennileg umhverfisstefna

Framganga ríkisstjórnarinnar að undanförnu hefur leitt í ljós afar sérkennilega stefnu í umhverfismálum. Hún felst í því að takmarka nýtingu á þeim auðlindum sem nóg er af en ofnýta þær auðlindir sem eru takmarkaðar. T.d. er andstaða ríkisstjórnarinnar við virkjanir í neðri hluta Þjórsár vel kunn, þótt vatnið í ánni minnki ekkert við slíkar framkvæmdir, og nú hefur ríkisstjórnin lagt til við Alþingi að ofveiða skötusel í tvö ár. Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að veiða megi 2.500 tonn af skötuselnum sem er í samræmi við hámarks afrakstursgetu stofnsins en ríkisstjórnin vill að Alþingi samþykki sérstaklega 80% meiri veiði sem er ekkert annað en ákvörðun um að fiska niður skötuselsstofninn. (Leyfum til umframveiðinnar á síðan að mylgra út í 5 tonna skömmtum á 120 kr. kílóið og verður að fróðlegt að sjá hvernig kaupendur fara að við að gera upp við sjómenn eftir þær veiðar.)

 

Fúsk stórskaðar

Samtök atvinnulífsins geta ekki unað við svona framgöngu ríkisstjórnarinnar. Sjávarútvegurinn verður að geta treyst því að ríkisstjórnin stórskaði ekki rekstrarforsendur greinarinnar með fúski, sérstakri fyrirgreiðslu til pólitískra vina og vandamanna og áformum um innköllun aflaheimilda. Þessum árásum á sjávarútveginn verður að linna þannig að greinin hafi starfsfrið og geti á ný fjárfest og haldið áfram að byggja sig upp.

 

Mismunað með þrepahringli

Ríkisstjórnin hyggst taka upp nýtt 14% þrep í virðisaukaskatti þrátt fyrir eindregin mótmæli Samtaka atvinnulífsins og ábendingar um að nærtækara væri að hækka bæði efra og neðra þrepið í skattinum til þess að ná sömu tekjum og halda óbreyttri þrepaskiptingu. Eðlilegast væri að láta skattalækkunina vorið 2007, sem fólst í lækkun neðra þrepsins úr 14% í 7%, ganga til baka að hluta. Í hið nýja 14% þrep eiga að fara veitingar, drykkjarvörur, sælgæti og kex. Þessi leið er afar óheppileg þar sem skattar á sömu vöruflokka eru nú hækkaðir í tvígang á stuttum tíma, þar sem gamla og flókna vörugjaldakerfið var tekið upp á ný á þessu ári og það hefur mikla röskun á markaðnum í för með sér.

 

Samtökin hafa lagt til að vörugjöld á þessi matvæli og drykkjarvörur verði afnumin á ný og alvöru, almennur sykurskattur verði tekinn upp í staðinn. Drykkjarvörur, sælgæti og kex eru matvæli og óeðlilegt að mismuna neytendum og framleiðendum þessara vara með þeim hætti sem áformað er. Þá er á ný tekin upp óþolandi mismunun milli veitingasölu og sölu úr verslunum á sömu vöru en það var mikið framfaraspor að afnema þá mismunun fyrir tveimur árum. Þannig mun sala á tilbúnum mat í verslunum bera 7% skatt meðan sama vara afgreidd frá veitingastað ber 14% skatt. Samtök atvinnulífsins sætta sig ekki við svona vinnubrögð.

 

Ferðaþjónusta ber líka byrðar

Á tímabili voru hugmyndir á borðum ríkisstjórnarinnar um skattlagningu á ferðaþjónustuna allstórtækar en mun varlegar á nú að fara í sakirnar. Þannig hafa hugmyndir um að gisting færi í 14% virðisaukaskatt og 500 m.kr. nettótekjur af nýju komugjaldi á ferðamenn til landsins verið teknar útaf borðinu og kolefnisgjaldið er orðið mun lægra en áformað var. Flugreksturinn mun eftir sem áður þurfa að taka á sig meira en 500 m.kr. hækkanir vegna kolefnisgjalds, auk sérhækkunar á virðisaukaskatti á veitingar. Nú eru áformin um komugjaldið þau að ná samkomulagi við ferðaþjónustuna um málið samhliða uppbyggingu á ferðamannastöðum og sambærilegum verkefnum. Ferðaþjónusta mun einnig eins og allt annað atvinnulíf bera byrðar vegna hærri skatta á bensín og díselolíu.

 

Afturför í tekjuskatti einstaklinga

Þá hyggst ríkisstjórnin hækka tekjuskattshlutfall fyrirtækja úr 15% í 18%. Samtök atvinnulífsins hafa ekki gert athugasemdir við þau áform sem hluta af þeim skattahækkunum sem óhjákvæmilegar eru. Varðandi hækkun á tekjuskatti einstaklinga og innleiðingu á þriggja þrepa kerfi hafa Samtök atvinnulífsins lagt áherslu á að halda sem mest óbreyttu fyrirkomulagi. Þriggja þrepa kerfið mun stórauka eftirágreiðslur launamanna og hafa mikið umstang og kostnað í för með sér fyrir fyrirtæki og eykur hættuna á svartri vinnu og skattsvikum. Reynslan af þriggja þrepa kerfinu sem var við lýði fram til ársins 1986 var ekki góð og upptaka staðgreiðslukerfis með einu þrepi og háum persónuafslætti árið 1988 var mikið framfaraspor sem naut almennrar hylli á þeim tíma.

 

Skattahækkanir 45% af aðlögunarþörf

Samtök atvinnulífsins hafa ekki mælt gegn því að hækka þurfi skatta og bera víða niður í þeim efnum. Samkvæmt þeim tölum sem unnið var með snemmsumars var reiknað með að aðlögunarþörfin í ríkisfjármálunum, þ.e. nauðsynlegar aðgerðir til lækkunar útgjalda eða hækkunar skatta, væri 119 milljarðar króna á árunum 2009 - 2011. Samkvæmt stöðugleikasáttmálanum eiga 45% af þessari tölu eða 54 milljarðar króna að koma í skattahækkunum en afgangurinn, 65 milljarðar króna, að koma fram í lækkun útgjalda.

 

Skattahækkanapokinn tæmdur

Nú hefur ríkisstjórnin haldið því fram að aðlögunarþörfin væri a.m.k. 25 milljörðum meiri en talið var sl. sumar og því þörf fyrir frekari skattahækkanir um 11 milljarða króna. Skattar þyrftu þá að hækka um 65 milljarða króna á árunum 2009 - 2011. Áformin um skattahækkanir í fjárlagafrumvarpinu voru hins vegar langt umfram þetta eða langleiðina í 90 milljarða króna, einungis milli 2009 og 2010. Nú hefur ríkisstjórnin dregið mjög úr skattahækkunaráformunum og það kemur fram í minni hækkunum á tekjuskatti og fjármagnstekjuskatti en lagt var upp með. Það er í samræmi við afstöðu Samtaka atvinnulífsins. Engu að síður hefur ríkisstjórnin tæmt skattahækkunarpokann og er ekki hægt að fallast á neinar frekari skattahækkanir vegna fjárlaga fyrir árið 2011. Þá þarf að mæta allri aðlögunarþörfinni með lækkun útgjalda.

 

Hagvöxtur forsenda skattahækkana

Samtök atvinnulífsins hafa leitast við að sýna fulla ábyrgð í umfjöllun sinni um skattamál og í viðræðum við ríkisstjórnina. Áherslur SA hafa ekki beinst að því að lækka framlag atvinnulífsins til þess að leysa vanda ríkissjóðs. Hallarekstur af núverandi stærðargráðu er ekki kostur og þess vegna verður að taka á málinu. Meginatriði er að tryggja fjárfestingar í atvinnulífinu og hagvöxt á næsta ári þannig að skattahækkanir lendi ekki á minnkandi skattstofnum. Þá fer illa. Samtökin hafa fyrst og fremst verið að reyna að draga úr skaðsemi óhjákvæmilegra skattahækkana fyrir atvinnulífið eins og mögulegt hefur verið þannig að fjárfestingar og uppbygging í atvinnulífinu haldi áfram. Ekki er öllum verkum lokið. Ennþá standa mál útaf borðinu. Sjávarútvegurinn verður að fá starfsfrið, annars getur hann ekki tekið þátt í uppbyggingunni og virðisaukaskattinn verður að laga.  

 

Vilhjálmur Egilsson


Athugasemdir

05.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst