Strandveiðar

Strandveiðar Eru strandveiðar þjóðhagslega hagkvæmar?  Varla getur það verið þjóðhagslega hagkvæmt að auka við sóknargetu veiðiflotans. 

Fréttir

Strandveiðar

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson
Eru strandveiðar þjóðhagslega hagkvæmar? 

Varla getur það verið þjóðhagslega hagkvæmt að auka við sóknargetu veiðiflotans.  Kvótakerfinu var komið á til að draga úr sóknarþunga til að bregðast við gegndarlausu tapi útgerðarinnar.  Tapi sem skapaðist meðal annars af óstjórn og afskiptum stjórnmálamanna.  Innflutningi á togurum og úthlutun þeirra til valinkunnra manna allt í kringum landið.  En er þá hægt að auka hagkvæmni með því að auka sóknarþunga og bæta við skipaflotann?

 Til eru þeir aðilar sem hafa reiknað út að trillur, sem stunda strandveiðar, séu miklu hagkvæmari en önnur veiðiskip.  Einn stjórnmála- og fræðimaður hefur haldið því fram að fyrirtæki eins og H.G. ætti að selja alla sína togara og kaupa 30 til 50 trillur í staðinn, enda sé það miklu hagkvæmari kostur.  Hann hefur reiknað þetta allt út og birt opinberlega.  Getur verið að hann hafi eitthvað til síns máls? Það er rétt að gera sér grein fyrir því að hér er um hreinan og ómengaðan kommúnisma að ræða.  Að yfirvöld eigi að skipuleggja atvinnugreinar og reikna út hvað sé best að framleiða, hvenær og hvernig.  Bloggari taldi að slíkar aðferðir heyrðu sögunni til og hefðu verið fleygt á ruslahauga sögunnar.

smabatahofn2.jpgAuðvitað veit útgerðarmaðurinn hvað er hagkvæmast og hvernig best er að reka sína útgerð.  Hvorki menntamenn né pólitíkusar eiga að blanda sér í slíkt, enda engar líkur á að þeir geti gefið góð ráð.  Ekki frekar en að koma við hjá bókabúðinni, flugfélaginu eða prjónabúðinni með útreikninga og tillögur um hvað skuli framleitt, hvernig og hvenær.  Í rauninni er þetta svo augljóst að óþarfi er að taka þátt í þessari umræðu.

H.G. þarf að tryggja rétt gæði afla og bjóða upp á afhendingaröryggi til að geta selt ferskan unnin fisk á erlendan markað.  Stjórnendur fyrirtækisins vita þetta og skilja að ferlinum lýkur ekki á fiskmarkaðinum við Sindragötu enda nær virðiskeðjan til neytandans í Bretlandi.  Miklar kröfur um gæði og afhendingu kalla á öflug skip sem eru sérstaklega útbúin fyrir þessa virðiskeðju ferskfisks.  Fiskurinn er kældur í niður fyrir -1°C staks eftir slægingu.  Líftíminn þarf að vera nægjanlegur fyrir flutning og dreifingu til neytandans.  Öflug skip skapa öryggi um afhendingu og gæði.

En eru þá strandveiðar réttlátar? 

Hver sér réttlætið með sínum augum.  Bloggara finnst það ekkert sérstaklega réttlátt að þeir sem gefist hafa upp á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og selt sig úr því, fá á ný tækifæri til að byrja upp á nýtt.  Það er morgunljóst að þegar um endurnýjanlega auðlind er að ræða eins og fiskimið, að ekki er hægt að afhenda einum án þess að taka af öðrum.  Þau 6.000 tonn sem fyrirhugað er að veiða í strandveiðikerfi á þessu ári eru þannig tekin að þeim sem stunda atvinnugreinina í dag.  Miðað við nýlega skýrslu Sjávarútvegsráðuneytisins um strandveiðar kemur fram að um þriðjungur þeirra sem stunduðu þessar veiðar á nýloknu ári höfðu selt sig út úr kerfinu áður.  Margir komu úr öðrum starfsgreinum og notuðu sumarfríið sitt til að veiða.  Minnst af þessum afla kom til vinnslu hér á svæðinu og því var atvinnusköpun í lágmarki.  Reyndar var ekkert talað um þjóðhagslegan ávinning af veiðunum í skýrslunni, en slíkt verður ekki mælt nema taka alla virðiskeðjuna til kaupandi í Bretlandi.

Mikið er talað um að strandveiðar stuðli að nýliðun í greininni.  Varla þarf strandveiðar til þess þar sem nýliðun hefur verið mikil, t.d. hér á norðarnverðum Vestfjörðum, en nánast engin sem hélt um útgerð upp úr 1990 er enn við lýði.  Nýir menn hafa tekið við og enn eru ungir dugandi menn að koma sér í útgerð og kaupa skip og veiðiheimildir.  Það þarf engin ríkisafskipti til að hagkvæmni finni sér bestu leiðir og menn uppgötvi nýjar arðbærar aðferðir í útgerð og fiskvinnslu.  Og reyndar ekki ráð frá menntamönnum eða pólitíkusum.

Þjóðhagslegur ávinningur

Hvernig sem þessu máli er velt upp verður ekki séð að þessar veiðar séu þjóðhagslega hagkvæmar né réttlátar.  Ef til vill þjónar þetta allt saman einhverjum pólitískum hagsmunum, en það gerir það ekki réttlátt.  Hinsvegar ef menn gera sér ekki grein fyrir að fiskveiðar þurfa að vera sjálfbærar og nauðsynlegt að takmarka aðganginn að auðlindinni, er erfitt að ræða þessi mál við þá.  Sá skilningur er grundvallaratriði til skynsamlegra umræðu um fiskveiðimál og nauðsynlegur til að hægt sé að taka vitrænar ákvarðanir um sátt í þessum umdeildu málum.  Sátt sem leiði til þjóðhagslegs ávinnings.





Athugasemdir

05.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst