Svartur almúginn vill tengjast Noregi
Það hefur vakið athygli mína í viðræðum við hinn „hefðbundna“Íslending undanfarna mánuði að hugmyndin um að taka hér upp norska krónu og mynda nánari tengsl við Noreg á mjög upp á pallborðið. Satt að segja hef ég hitt mjög fáa íslendinga sem finnst þessi hugmynd ekki skynsöm og mjög margir eru jafnvel tilbúnir að fórna hluta af sjálfstæði þjóðarinnar í skiptum fyrir öryggi um mannsæmandi líf í framtíðinni. Þeir kostir sem ég hef helst heyrt hinn hefðbundna Íslending tala um í þessu sambandi eru eftirfarandi:
1. Hægt væri að taka hér upp mjög fljótlega mynt sem hefur gildi í alþjóðasamfélaginu með tilheyrandi kostum fyrir íslenskt atvinnulíf.
2. Hagsmunir okkar og Noregs að standa utan ESB yrðu betur tryggðir með meiri stuðningi við EES samninginn.
3. Hægt væri betur að stýra veiði og verðmyndun á fiskafurðum í þeirri matarkreppu sem spáð er í framtíðinni.
4. Tækniþekking Norðmanna við olíuleit yrði okkur mikils virði við okkar leit og vinnslu.
5. Tækniþekking Íslands á sviði endurnýjanlegra orkugjafa með samstarfi við Noreg getur hraðað því að jarðboranir eftir heitu vatni verði almennari í heiminum.
6. Hægt væri að draga úr ríkisútgjöldum með meiri samvinnu í utanríkismálum.
7. Gjaldeyrishöft yrðu afnumin fljótt.
8. Við gætum sagt upp samstarfinu við AGS sem er ekkert annað en innheimtubatterý fyrir hin sterkari ríki.
9. Lægri vextir og stöðugleiki verðlags myndi fylgja samstarfi við Noreg.
10. Aðgangur áfram að heilbrigðu velferðarkerfi sem stendur tæpt hjá okkur núna.
11. Varnarsamstarf væri betur tryggt og svo mætti lengi telja.
Að sjálfsögðu má segja á móti að við myndum líklega gefa eftir einhverja tegund af fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar í slíkum samningi við Noreg en hvers virði er fullveldi þegar nánast er búið að gera fjárnám í fullveldinu og nauðungasala blasir við eignum þjóðarinnar með óvönduðum vinnubrögðum við Icesave málið.
Staðan er þannig í dag að við erum stórskuldug þjóð með fyrirtæki , sveitarfélög og einstaklinga sem skulda mögulega um 5000-8000 milljarða í erlendum gjaldeyri. Marínó G. Pálsson skrifaði góða grein á bloggi sínum um raunverulega skuldastöðu þjóðarinnar sem ég hvet alla til að kynna sér.
Þeir aðilar sem skulda þessa fjármuni munu á næstu 10 árum keppa um gjaldeyri til að standa við sínar skuldbindingar en gera má ráð fyrir að til þess að sinna þessum skuldum þurfi 300 milljarða af gjaldeyri á hverju ári m.v. 5% vexti og er þá ekki búið að taka tillit til afborgana. Til að setja þessa stærð í samhengi má sjá að vöruskiptajöfnuður okkar er í kring um 10 milljarðar í plús á mánuði eða um 120 milljarðar á ári. Það sér hver heilvita maður að þetta mun ekki ganga upp nema aðgangur okkar að erlendum gjaldeyri aukist til muna eða þá að stór hluti þessara skulda verði afskrifaður. Afleiðingin af þessu kapphlaupi skuldara í erlendri mynt verður enn hærra gengi með tilheyrandi vandamálum fyrir okkur öll. Ég hef haldið því fram að nýju bankarnir séu gjaldþrota og einnig mörg af okkar stóru fyrirtæki , í kjölfar þess uppgjörs gæti þessi tala lækkað eitthvað en önnur vandamál munu svo sannarlega koma upp í staðinn.
Það kemur mér á óvart að enginn stjórnmálaflokkur skuli hafa það á stefnuskrá sinni að horfa til Noregs eftir frekari samstarfi. Slíkur flokkur myndi strax fá mikið fylgi almennings sem grætur eftir lausnum á okkar málum til frambúðar og er tilbúinn að fórna miklu fyrir vissuna um góð lífskjör áfram. Við erum á krossgötum sem þjóð og fyrir liggur að afsala hluta af okkar sjálfstæði í hendurnar á Evrópusambandinu með ófyrirséðum afleiðingum fyrir okkur. Ólíklegt verður þó að telja að hinn „venjulegi“ Íslendingur velji ESB framar Noregi ef val stæði um þær leiðir.
Að mínu mati á að kanna frekar með hvort hægt sé að ná samningnum við Noreg t.a.m. með tengingu íslensku krónunnar við þá norsku og yfirlýsingu Seðlabanka Noregs um að hann muni styðja við krónuna okkar a.m.k. í tiltekinn tíma.
Þá væri einnig möguleiki á því í kjölfarið eða áður að Noregur myndi lýsa því yfir að landið myndi tryggja allar fjárhagslegar skuldbindingar íslenska ríkisins ef á reyndi í stað þess að veita okkur stórt lán eins og einn þingmaður miðjuflokks í Noregi hefur stungið upp á. Slík yfirlýsing væri gulls í gildi fyrir okkur og þá væri tryggt að engir vextir yrðu greiddir nema á þessa yfirlýsingu myndi reyna. Slík tenging myndi róa kröfuhafa okkar nær og fjær og veita fyrirtækjum okkar möguleika á því að taka ný lán til að endurfjármagna eldri lán og gera ríkinu kleift að gera gjaldmiðlasamninga við Seðlabanka annarra ríkja. Það sem mestu máli skiptir er hins vegar að geta losað okkur við AGS og þurfa ekki að taka stór kúlulán hjá AGS og hinum mismunandi ríkjum til að fjármagna gjaldeyrisforða okkar með tilheyrandi vaxtabyrði á næstu kynslóðir.
Því miður held ég að núverandi stjórnvöld séu á rangri leið með okkar mál en þó er enn von um að Steingrímur J. Sigfússon sé maður í sér til þess að taka sveig yfir til Noregs til að kanna þá möguleika sem þar gætu leynst áður en skrifað verður undir kúlulánið við AGS.
Athugasemdir