Útrásarvíkingar óskast

Útrásarvíkingar óskast Ég hlustaði nýlega á Eric Lofkofsky, farsælan raðfrumkvöðul og stjórnarformann og stofnanda Groupon, halda erindi. Groupon er ein

Fréttir

Útrásarvíkingar óskast

Björgvin Ingi Ólafsson
Björgvin Ingi Ólafsson
Ég hlustaði nýlega á Eric Lofkofsky, farsælan raðfrumkvöðul og stjórnarformann og stofnanda Groupon, halda erindi. Groupon er ein helsta stjarnan í netbólu Bandaríkjanna um þessar mundir og er af mörgum talið a.m.k. 10 milljarða Bandaríkjadala virði. Eric hefur alið manninn í frumkvöðlaumhverfi Chicago-borgar í áratugi, stofnað fjölda fyrirtækja og kennt fjölda stúdenta sem hafa stofnað enn fleiri fyrirtæki. Hann er maður sem vert er að hlusta á.

Í ræðu sinni lagði hann áherslu á mikilvægi frumlegrar hugsunar og þess að leita lausna utan hins hefðbundna. Hann lagði áherslu á áhættusækni, hraða ákvörðunartöku, framsækni og að fylgja hjartanu frekar en þeim hefðum sem samfélagið hefur mótað. Hann lagði áherslu á virði þess að hafa rangt fyrir sér og gera mistök. Ef þú hættir að gera mistök þá er það einfaldlega vegna þess að þú gerir ekki neitt. Þú munt alltaf gera mistök – ef þú gerir eitthvað.

Enginn má græða

Er þetta ræða sem færi vel í Íslendinga í dag? Yrði hlustað á Eric kæmi hann á klakann? Þetta hljómar eins og Eric sé bölvaður útrásarvíkingur! Að mínum dómi eru svona útrásarvíkingar akkúrat það sem Ísland þarf á að halda. Við þurfum fólk sem er óhrætt við að leggja sitt undir, sækja fram af metnaði með von um árangur í brjósti.

Á Íslandi er nú alið á meðalmennsku. Enginn skal skara fram úr. Það má enginn græða. Það má enginn tapa. Ef þú tapaðir fé á fyrirtækjarekstri áttu helst að flýja land og alls ekki kaupa önnur fyrirtæki eða byggja upp ný. Þú átt einfaldlega að gera það sama og allir hinir gera. Mæta í vinnu, stimpla þig inn og út og fara svo heim og grilla.

Lært á gjaldþrotum

Ef frumkvöðull stofnar fyrirtæki, tekur áhættu, fær lán og fyrirtækið fer á hausinn þá er frumkvöðullinn ekki glæpamaður. Kjörin á láninu báru með sér áhættuna á því að fyrirtækið gæti ekki greitt til baka. Bankinn og aðrir fjárfestar vissu af þessari áhættu. Á meðan frumkvöðullinn falsaði ekki gögn eða svindlaði með öðrum hætti þá er hann ekki glæpamaður, þó planið hafi ekki gengið upp. Hann ber ekki persónulega ábyrgð á láni til fyrirtækis hans og það vissi lánveitandinn.

Ísland græðir ekkert því að þessi frumkvöðull sé barinn niður í blöðunum, úthrópaður óreiðumaður, stórskuldari, eða það allra versta; útrásarvíkingur. Ísland græðir hins vegar á því að frumkvöðullinn reyni aftur, sannfæri hluthafa og lánveitendur um að nýja hugmyndin hans sé alveg frábær, miklu betri en sú fyrri, og líkleg til frægðar og frama. Frumkvöðullinn mun jafnvel segja að hann hafi lært á fyrri fyrirtækjagjaldþrotum og þau geri hann betri í því sem hann tekst nú á hendur. Við þurfum að hvetja frumkvöðla sem hafa farið með fyrirtæki á hausinn til að reyna aftur. Við viljum að reynslan nýtist okkur og alls ekki flæma þessa reynslubolta til útlanda.

Kjarkaðir, hugaðir og framsæknir

Á Íslandi er nú fullt af sniðugum litlum frumkvöðlafyrirtækjum. Við eigum Meniga, Clara, Grapewire, Mobilitus, Datamarket, Transmit, Gogogic, GogoYoko og svo frv. Flest þessara fyrirtækja munu ekki meika það. Sum þeirra munu fara á hausinn. Hluthafar og lánveitendur munu tapa peningum. Eina sem fyrirtækin munu eiga sameiginlegt að því loknu er að frumkvöðlarnir verða reynslunni ríkari. Þá reynslu þurfum við að nýta til að auka líkurnar á því að næsta fyrirtæki þessara frumkvöðla verði farsælla en hið fyrra.

Við eigum ekki að kalla þessa frumkvöðla óreiðumenn eða útrásarvíkinga. Við eigum að kalla þá kjarkaða, hugaða og framsækna. Þeir eru lykilinn að farsæld og framförum á Íslandi. Við þurfum fólk sem skapar. Við þurfum fólk sem reynir. Það munu enginn raunveruleg verðmæti skapast á Íslandi ef allir „vinna bara sína vinnu“. Við þurfum fólk sem tekur áhættu með fjármagn sitt og vinnuframlag. Við þurfum að fagna þessum hetjum sem tóku sénsinn og töpuðu í stað þess að úthrópa þær sem óreiðumenn og útrásarvíkinga. Við þurfum að líta á frumkvöðlana sem töpuðu sem afreksíþróttamenn sem komu heim með silfrið. Við vitum að þeir sem komu núna með silfrið eru líklegir til að vinna úrslitaleikinn næst – miklu líklegri en þeir sem aldrei hafa keppt áður.

Björgvin Ingi Ólafsson er hagfræðingur.


Athugasemdir

04.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst