Dansinn dunaði í skóginum
Föstudaginn 14. ágúst var haldið upp á 75 ára afmæli Skógræktarfélags Siglufjarðar. Við það tilefni var skógurinn formlega gerður að opnum skógi.
Skógræktin á Siglufirði er yndisleg náttúruperla hvort sem er að vetri eða sumri. Hægt er að ganga um stíga og setjast niður við bekki víðsvegar um skóginn. Innst í skógræktinni má einnig finna Leyningsfoss, lítinn kröftugan foss sem ber einnig nafnið Kotafoss og úr honum rennur Leyningsá.
Markmiðið með verkefninu "Opinn skógur" er að opna skógræktarsvæði við alfaraleiðir, sem eru í umsjón skógræktarfélaga. Áhersla er lögð á að aðstaða og aðgengi verði til fyrirmyndar og á að miðla upplýsingum og fræðslu um lífríki, náttúru og sögu, svo að almenningur geti nýtt sér Opin skóg til áningar, útivistar og heilsubótar.
Beðið eftir athöfninni
Við þetta tilefni mætti fjöldi heimamanna og félagar úr Skógræktarfélagi Íslands sem hélt aðalfund sinn á Akureyri um helgina.
Hátíðarhöldin hófust þegar Kristrún Halldórsdóttir, formaður Skógræktarfélags Siglufjarðar bauð gesti velkomna. Síðan var Opinn skógur formlega opnaður þegar Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra, Páll Samúelsson og Elín Jóhannesdóttir klipptu á borðann. Hélt þá mannfjöldinn í Árhvamm þar sem haldnar voru hátíðarræður af þeim Magnúsi Gunnarssyni, formanni Skógræktarfélags Íslands, Gunnari I. Birgissyni bæjarstjóra, Sigrúnu Magnúsdóttur umhverfisráðherra. Kristrún Halldórsdóttir formaður Skógræktarfélags Siglufjarðar stýrði athöfninni með glæsibrag.
Mannfjöldinn á leið í Árhvamm
Páll Helgason fór síðan með ljóð sitt sem hann orti til afmælisskógarins sem er aðeins ári eldri en hann, Heldrimenn spiluðu undir eins og þeim einum er lagið, síldarstúlkur komu í heimsókn og spiluð þeir Sigurður Hlöðversson og Þorsteinn Sveinson á trompet lagið Siglufjörður svo undir tók í skóginum.
Mikil ánægja og gleði ríkti meðal veislugesta á öllum aldri og var vel tekið til matar síns á veisluborðinu frá Kobba bakara og starfsfólki enda svignaði borðið undan kræsingunum.
Tvær með græna fingur. Ásdís Magnea Gunnlaugsdóttir, fyrrverandi formaður Siglufjarðardeildar Garðyrkjufélags Íslands og Kristrún Halldórsdóttir, formaður Skógræktarfélags Siglufjarðar
Siglfirðingar geta svo sannarlega verið stoltir af þessari 75 ára náttúruperlu og hugsað með hlýju og þaklæti til hugsjónarmannsins, Jóhanns Þorvaldsonar sem var upphafsmaðurinn að þessum sælureit og því óeigingjarna starfi sem hann og síðan þeir sem við starfinu tóku hafa unnið undanfarna áratugi.
Þar sem myndefni var óþrjótandi læt ég fylgja með fremur margar myndir og vona að lesendur hafi gaman að.
Örlygur Kristfinnsson mætti að sjálfsögðu þótt lemstraður væri eftir að hafa lagst á sveif með gömlum Willis
Staldrað við í lundinum og skrifað í gestabókina
Heldrimenn spiluðu svo undir tók í skóginum á meðan aðrir tóku myndir af sér og sínum
Kristrún Halldórsdóttir, formaður Skógræktarfélags Siglufjarðar
Þeir sómamenn. Sigurður Hafliðason og Bjarni Þorgeirsson ánægðir með daginn
Gestirnir komu víðsvegar að. Hér má sjá þau hjón, Ásu Baldursdóttur og Svein Hálfdánarson frá Borganesi
Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri í Fjallabyggð
Börn að leik
Sigurður Hlöðversson og Þorsteinn Sveinson að spila lagið Siglufjörður eftir Bjarka Árnason
Dansað af hjartans innlifun
Skýr skilaboð frá Erlu Svanbergsdóttur
Veisluborðið svignaði undan gómsætum kræsingum úr Aðal Bakarí
Páll Helgason fór með frumsamið ljóð
Það fannst meira að segja blómálfur að nafni Hrólfur Baldursson í skóginum
Mannfjöldinn í Árhvammi
Kristján L. Möller var auðvitað mættur með myndavélina
Fagnaðarfundir voru með heimafólki og brottfluttum Siglfirðingum. Hér má sjá þær Lenu Möller, Rannveigu Pálsdóttir, Halldóru Pétursdóttir og Kristínu Baldursdóttir
Að sjálfsögðu vann Guðbjörg Friðriksdóttir þennan fallega Purpurabrodd í happadrættinu sem dregið var út meðal veislugesta
Jón Dýrfjörð tók ræðuhöldin upp á vídeo
Það sannast á þessum tveim að hollusta og hreyfing auka lífsgæðin. Þórarinn Hannesson og okkar ástkæra Regína Guðlaugsdóttir hafa í gegnum árin kennt okkur leikfimi og holla lífshætti og hafi þau þakkir fyrir. Það má geta þess að hin síunga Regína er mun eldri en skógurinn eða 87 ára gömul
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir
Texti: Kristín Sigurjónsdóttir
Athugasemdir