Göngutúr um heimahaga. 9 hluti. ÍÞRÓTTIR OG SKÓLI. (50 MYNDIR)

Göngutúr um heimahaga. 9 hluti. ÍÞRÓTTIR OG SKÓLI. (50 MYNDIR) Manstu þegar við....... segjum við oft við hvort annað þegar við hittumst á árgangsmótum og

Fréttir

Göngutúr um heimahaga. 9 hluti. ÍÞRÓTTIR OG SKÓLI. (50 MYNDIR)

Boddi Gunnars, hnefaleikari.
Boddi Gunnars, hnefaleikari.

Manstu þegar við....... segjum við oft við hvort annað þegar við hittumst á árgangsmótum og í öðru samhengi þegar við hittum gamla skólabræður og systur. Á þessum árum bindumst við oft ævilöngum vináttuböndum, fylgjum hvort öðru í gengnum lífið og þrátt fyrir að maður hafi ekki hitt sumar persónur í 20 ár eða meira, líða bara nokkrar mínútur þar til að allir hafa dottið inní það hlutverk sem maður hafði í skólanum og sá persónuleiki sem formaðist á þessum árum kemur fram í gleði og sorg sem við deilum og eigum saman um alla ævi.

Það sama má segja um gamla íþróttafélaga og eilífðarvini sem maður eignaðist í gegnum þátttöku í íþróttum og allskyns félagsskap sem maður tók þátt í.

Þarna eru líka minningar um fólk sem var okkur fyrirmyndir í lífinu. 
Kennarar, þjálfarar og aðrir sem trúðu á okkur, studdu okkur og hvöttu okkur til dáða í launuðum og ólaunuðum störfum. Fólk sem formaði okkur, gerði okkur að manneskjum og formuðu okkar persónuleika miklu miklu meira en við kannski gerum okkur grein fyrir.

Ég er öllu þessu fólki óendalega þakklátur fyrir að hafa aldrei gefist upp og fyrir að hafa  trúað því statt og stöðugt að það væri til von um að ég yrði að manneskju einhvern tímann seinna í lífinu.

Sumir muna mikið og aðrir minna, einn gamall félagi sem ég hitti óvænt fyrir nokkrum árum man ekki neitt og að lokum greip mig sú tilfinning að hann vildi ekki muna eftir þeim tíma ævinnar þar sem hann var barnalegur og vitlaus. Nú þegar hann var orðinn svo vel menntaður, fullorðinn og í virðulegri stöðu, þá gat það bara ekki verið að hann hefði tekið þátt í prakkarastrikum og fíflagangi sem ég mundi svo vel eftir.
Þetta “minnisleysi” fór að lokum alveg ótrúlega í taugarnar á mér að ég æpti til hans:

HVAÐ ??? ER LÍFIÐ BÚIÐ AÐ BERJA ÚR ÞÉR BARNÆSKUNA ???

Hélt síðan einhverskonar ræðu yfir mann greyinu um hvað mér fyndist það ömurlegt að skólakerfið sem stanslaust þvingar í mann staðreynir og gerir allt til að við hættum að vera barnaleg og rekur úr okkur ímyndunaraflið og hefur sem sitt eina markmið að að búa til ábyrga og duglega samfélagsborgara sem koma landinu til gagns í framleiðslu verðmæta og svo gleymum við að búa til almennilegar manneskjur............. Já.... og svo.... hmm.

Áttaði mig síðan á því að við erum líklega jafn ólík eins og við erum mörg, reddaði mér fyrir horn og spurði hann bara um hvað hann væri að gera í vinnunni, því það var greinilega staðreynd að allur hans persónuleiki var byggður á menntun og starfsheiti.
Hann fæddist greinilega 30 ára, fullorðinn og fullkominn. 

 Barnaskóli með gamalli viðbyggingu      

  • Carl Jóhann Lilliendahl sendi inn upplýsingar 28. júlí 2009

Barnaskólinn á Sigló. Sambyggða byggingin lengst til hægri á myndinni er leikfimisalurinn. Hann brann árið 1957 eða 1958. Hann var síðar endurbyggður og einni hæð bætt ofan á og skólastofum fjölgað eins og skólinn lítur út í dag.

Þegar foreldrar mínir gengu í þennan barnaskóla fóru allir í bekkjabiðraðir úti og síðan fengu allir fljótandi lýsi úr tunnu sem stóð þarna við innganginn. Guði sé lof þá var búið að leggja þennan ósið niður þegar ég byrjaði þarna, við fengum lýsispillur með gulri húð sem var góð á bragðið, restinni stakk maður í vasann og henti í næstu frímínútum. 

Minn fyrsti skóladagur byrjaði ekki beinlínis glæsilega, lenti í slag við verðandi bekkjabróðir sem rétt eins og ég var alls ekki til í að láta aðra segja sér að standa í röð, sitja þegjandi og hlusta á fullorðna sem vildu  manni vel. Beit mig fastan á vinstra eyrað á honum eins og Mike Tyson og sleppti ekki fyrr en Benidikt Sigurðsson sleit mig af eyranu. Mamma þurfti svo að sitja með þessu brjálaða barni í skólanum í heila viku.

Hér á eftir koma 50 ljósmyndir úr okkar óendanlega minningarfjársjóði sem til er í Ljósmyndasafni Siglufjarðar, myndir hef ég valið af handahófi í þema um íþróttir og skóla. Sumar af þeirri einni ástæðu að mér finnst myndin skemmtileg eða flott og aðrar vegna þess að þær sýna okkur fólk sem hefur verið mér og mörgum öðrum fyrirmyndir og stórir áhrifavaldar í hvernig maður hugsar og hvað manni finnst mikilvægt í lífinu.

Munið að þessar myndir eru EIGN Ljósmyndasafns Siglufjarðar og það má alls EKKI bara taka þessar myndir í leyfisleysi og birta hvar sem er.

Hafið samband við Síldarminjasafnið: sild@sild.is eða í síma 467 16 04.

Og eins og áður eru textar við sumar af myndunum lánaðir frá Steingrími og öðrum sem hafa sent inn upplýsingar um myndirnar. Ég hef einnig lagfært allar myndirnar til þess að þær geri sig betur í birtingu á skjá.

 ATH:
Gott tækifæri fyrir alla brottflutta Siglfirðinga að hittast og ræða gamlar minningar kemur núna á sunnudaginn 21 maí í Grafarvogskirkju.  

  Gamli leikskólinn. Ljósmyndari: Jóhann Örn Matthíasson

  Jóhann Þorvaldsson Skólastjóri Barnaskólans.

Þessi merkilegi maður er mér og mörgum minnistæður, ekki bara  sem kennari og skólastjórinn sem tók við af Hlöðver heldur líka frá stúkufundum hjá Eyrarrós og úr sumarvinnu í skólagörðunum og skógræktinni.  

 Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Valey Jónasdóttir handavinnukennari. 

Ég var svo heppinn að eiga bæði Valey og Hauk sem nágranna til fjölda ára en þau bjuggu lengi á sitthvorri hæðinni á Hafnartúni 4.
Lék mér mikið við börn þeirra sem voru á svipuðum aldri og ég. Yndislegar persónur og góðir kennarar.

 Ljósmyndari: Steingrimur K.
Haukur Magnússon kennari. 

 Ljósmyndari: Steingrímur K.

Gagnfræðiskóli Siglufjarðar.

 Ljósmyndari: Kristfinnur G. 
Gunnar Rafn Sigurbjörnsson Skólastjóri Gagnfræðiskólans. 

Þetta er ákaflega skemmtileg mynd af Gunnari Rafn með slaufu, nýfermdur og líklega að spá í sína eigin framtíð með glott á vör. Man ekki eftir honum öðruvísi en í jakkafötum með slaufu í hvert skiptið sem hann tók mig á beinið inná skrifstofunni sinni. Hann talaði alltaf hægt og virðulega við mig og ég er honum óendalega þakklátur fyrir að hafa hvorki rekið mig úr skólanum eða gefist upp á mér á þessum árum sem ég hafi hann sem kennara og skólastjóra.

Oftast sagði hann bara: "Þú getur þetta alveg Jón......þú ert bara latur og þreyttur unglingur."
Já og það var alveg rétt hjá Gunnari, skil hann betur núna þegar ég er sjálfur að vinna með lata hormónastýrða unglinga. 

 Ljósmyndari: Ókunnur. Guðbrandur Magnússon kennari.  
Sigurður Fanndal sendi inn upplýsingar 13. mars 2009:

Þarna er Guðbrandur Magnússon kennari og skólastjóri. Myndin er tekin í brekkunni framan við hús hans. Hann vann í nokkur sumur við afgreiðslu og útkeyrslu hjá Birgi Runólfssyni, vöruflutningum. Þarna situr hann á 3ja hjóla ,, útkeyrslu - vespu " Birgis. Mjög merkilegt farartæki.

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson

Hafliði Guðmundsson stærðfræðikennari.

  Ljósmyndari: Ókunnur.

Hinrik Aðalsteinsson kennari.

  Ljósmyndari: Hinrik Andrésson

Til vinstri Gránugata 14, þar bjó Friðrik Guðjónsson, síðar var verkalýðsfélagið Vaka þarna með skrifstofu, einnig var Tónskóli Siglufjarðar þarna til húsa. Til hægri er Kaupfélagsbrakkinn.

  Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson

Gerhard Schmidt, ísl nafn: Geirharður Valtýsson, f.v. söngstjóri Karlakórsins Vísis og skólastjóri Tónskóla Siglufjarðar.

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson

Elías Þorvaldsson skólastjóri Tónskóla Siglufjarðar.

 Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson

Helgi Sveinsson leikfimiskennari og íþróttafrömuður.

Sem einhverskonar millistig frá skólamyndum og yfir í íþrótta myndir og minningar er mjög svo við hæfði að nefna Helga Sveins og Regínu Guðlaugs sem kenndu okkur leikfimi og voru einnig viðloðinn allt mögulegt varðandi uppbyggilega starfsemi fyrir fólk á öllum aldri.
Fimleikasýningar FF voru frægar um allt land og hver man ekki eftir glæsilegum sýningum á skólabalanum á 17 júní hátíðum bæjarins.

Minnist þess einnig hversu mikið var lagt í leikfimi og fimleikasýningar á hverju vori út í Sundhöll. Allir í hvítum leikfimisfötum, hoppandi í takt.

  Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson

Regína Guðlaugsdóttir leikfimiskennari og íþróttafrömuður.

 Fimleikasýning á 17 júní.

 Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson

Efri röð (frá vinstri) Reynir Árnason, Helgi Sveinsson, Jósef Flóventsson, fremri röð: Jeppen Erikson. Til gamans má geta að merkið þýðir: Frískur, frægur, frækinn,frjáls.

 Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson

Frá vinstri- Svava Gunnlaugsdóttir, Ásta Þorvarðardóttir, Dorothea Einarsdóttir, Regína Guðlaugsdóttir, Steinunn Rögnvaldsdóttir, Halldóra Hermannsdóttir (Dodda) Ásdís Jónasdóttir, Hjördís Stefánsdóttir. (þær eru eitthvað í kringum 15 ára þarna) GS (Gagnfræðiskóli Siglufjarðar)

 ljósmyndari: Steingrímur K
leikfimissýning í Sundhöllinni. 

 ljósmyndari: Kristfinnur G.
Einar Hermannsson fimleikakappi með gríðarlega flott bindi. Það verður að segjast eins og það er: SUMIR ELDAST EKKI....

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson

Árdís Þórðardóttir (Dísa Þórðar skíðadrottning)

  Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson

Jóhann Vilbergsson skíðakóngur.

 Ljósmyndari:Steingrímur Kristinsson

Birgir Guðlaugsson íþróttakappi.

 Ljósmyndari: Steingrímur K.

Mundína Bjarna og Brynja Óla gönguskíða og sunddrottningar Siglufjarðar.

 Ljósmynd: Steingrímur K.
Gönguskíðapar. Maggi Eiríks og Gunn-Óla.

 ljósmynd: Steingrímur K

Skíðamót í vitlausu verðri. Takið eftir dráttavélinni á beltum og aftan á henni er skíðalyfta bæjarins. 

 Dráttarvélarskíðalyfta.

 Ljósmynd: Steingrímur K.
Kristín Þorgeirsdóttir skíðadrottning í svakalegri flottri peysu. 

 ljósmyndari: Steingrímur K.

Birgir Gunnarsson gönguskíðakappi. Í sumum ættum eru til fleiri ættliðir af frægum íþróttakörlum og konum.

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson

Steingrímur Garðarsson skíðakappi.

Minnist þess að hvað ég dáðist að þessum manni og ég man einnig eftir að hafa séð hann keppa í skíðastökki upp í Hvanneyrarskál í harðri samkeppni við Björn þór Ólafsson. Mig minnir að Steingrímur hafi slasast illa í þessari keppni.

 Ljósmyndari:Steingrímur Kristinsson

Helgi Magnússon, Sverrir Sveinsson, Freyr Sigurðsson og Hilmar Ágústsson, alltaf tilbúnir í sjálfboðavinnu í öllum mögulegum íþróttum.

  Ljósmyndari:Steingrímur Kristinsson

Fleiri sjálfboðaliðar.

Frá vinstri: Ómar Möller, Hannes Olgeir Helgason, Helgi Antonsson, Birgir Vilhelmsson, Erlingur Jónsson, Páll Helgason, Jón Dýrfjörð, Þórður Jónsson og Friðrik Hannesson.

 Ljósmyndari:Steingrímur Kristinsson

Kristinn Georgsson og Hanna Stella Sigurðardóttir skátafrömuður.

  Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson

Jónas Ásgeirsson Skíðakóngur.

 Ljósmyndari: Guðný Ósk Fririksdóttir

 Eggert Ólafsson ( Eggert í Bakka ) Þess má til gamans geta að Friðrik í Bakka smíðaði skíðastafina.

Þessi yndislegi maður var svo sem ekki frægur fyrir íþróttir en ég kynnist honum vel þegar hann vann með föður mínu í Sigló síld. fannst þetta bara svo skemmtileg skíðamynd og svolítið svona að það þurfa ekki allir flottar græjur til að fara á skíði.

 Ljósmynd: Steingrímur K.

Sjóskíðastúlka. Þetta er örugglega ein af dætrum Þórðar í Hrímni.

 ljósmynd: Steingrímur K.

KS leikur á gamla malarvellinum.

 Ljósmynd: Steingrímur K.

Ég veit að þetta er líklega sameiginleg æfing hjá þriðja og öðrum flokki í lok 1970. Svona leit malarvöllurinn oft út á voræfingum þegar búið var að taka gólfið af sundlauginni og við hættir að geta æft inni. Völlurinn grafinn upp, við gengum með haka og járnkarla og brutum ís í fleiri daga. 
Síðan bráðnaði allt saman og vatnið komst ekki neitt og úr þessu varð snjóblandaður drullugrautur sem við æfðum í fleiri vikur áður en það varð fótboltavöllur úr þessu. En eingin var svo sem að klaga. Þetta var bara svona og við þekktum ekkert annað.

  Ljósmyndari:Ókunnur

Ottó Jörgensen "markvörður", í gamansömum fótboltaleik. 

 Ljósmyndari:Kristfinnur Guðjónsson

Knattspyrnufélag Siglufjarðar -- Myndin er sennilega tekin árið 1950 - vantar nöfn ?

 Ljósmyndari: Erla Svanbergsdóttir Berg: Erla sendi inn upplýsingar 28. apríl 2010

Fyrirtækjakeppni: Þarna var keppt í knattspynu,fyrirtækjakeppni,slíkt var gert í nokkur ár. Efri röð:Þorsteinn Haraldsson,Birgir Guðlaugsson,Ágúst Stefánsson,Þorsteinn Jóhannsson,Guðmundur Ragnarsson,Hjálmar Jóhannesson,Rafn Elíasson Neðri röð:Skúli Jónsson,Hallgrímur Vilhelmsson,Birgir Eðvaldsson,Þorleifur Haraldsson,Birgir Óla (Óla Geirs)

 ljósmynd: Steingrímur K.

Mark Duffield knattspyrnukappi tekur við viðurkenningu frá Sigurjóni Erlends frægur þjálfari og íþróttafrömuður og Guðmundur Skarphéðinsson sem lengi vel hefur verið allt í öllu í félagsmálum Siglufjarðar. Í bakgrunninum er líklega sonur Bjarna Harðar og Möggu.

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson

Babningtonleikur í Síldarþró SR-30.

Ég var einu sinni þjálfari fyrir kvennahandboltalið og við æfðum handbolta í þessari þró eitt eða tvö sumur.

 ljósmynd: Steingrímur K.

Þórður Björnsson.

 Ljósmyndari: Guðný Ósk Friðriksdóttir

 

Stúlkurnar okkar í handbolta aftari röð frá vinstri: Árdís Þórðardóttir, Jóhanna Helgadóttir, Þórunn Þórðardóttir, Ester Bergmann, Ingibjörg Daníelsdóttir. Fremri röð frá vinstri: Erna Erlendsdóttir, Hilla, Gurra Erlendsdóttir, Kristbjörg Eðvaldsdóttir, Sigríður Þórdís Júlíusdóttir. Myndin er líklega tekin í kringum 1964-1965.

 ljósmynd: Steingrímur K.

Fjær: Kristján Kristjánssson og Eyþór Haraldsson spila borðtennis í kjallaranum í Æskó.

 Ljósmyndari: Guðný Ósk Friðriksdóttir

Hestamennska er íþrótt líka. Guðbjörg Friðriksdóttir (Gugga) á gamla Grána.

 Ljósmyndari: Margrét Steingrímsdóttir

Guðni Þór Sveinsson kraftakarl.
p.s. allir í eins peysum nema Leó Óla sem er með annað munstur sem var í tísku hjá Brekkuguttum. 

 Ljósmynd: Steingrímur K.
Og þeir sem nenna ekki að elta bolta og renna sér á skíðum stunda sínar íþrótt sitjandi.

Lifið heil 
Nonni Björgvins

Texti: Jón Ólafur Björgvinsson

Myndir: JÓB, og aðrar myndir eru birtar með leyfi frá Steingrími Kristinnsyni, Ljósmyndasafni Siglufjarðar og fleirum.
P.s. Ég tók mér það bessaleyfi að " laga og tjúnna aðeins upp " allar myndirnar svo að þær  geri sig betur við birtingu á skjá. 

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA / Stövtåg i hembyggden 1.hluti

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 2 hluti, KONUR

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 3 hluti, ÖMMUR

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 4 hluti. Ljósmyndir (50 st) og LEIKIR

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 5 hluti. SKEMMTANALÍF ! Myndasyrpa.   

Göngutúr um heimahaga 6 hluti. LITRÍKIR KARAKTERAR !

Göngutúr um heimahaga, 7 hluti, SIGLFIRSKT ! 80 myndir

Göngutúr um heimahaga, 8 hluti, NIÐURNÍÐSLA. (35 myndir)


Athugasemdir

21.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst