Herrakvöld kótilettufélags Hafliðaguttanna

Herrakvöld kótilettufélags Hafliðaguttanna Á fimmtudagskvöldið þ. 4. des. sl. hélt Kótilettufélag togarajaxlanna af Hafliða sérlega vel heppnað herrakvöld

Fréttir

Herrakvöld kótilettufélags Hafliðaguttanna


 
Á fimmtudagskvöldið þ. 4. des. sl. hélt Kótilettufélag togarajaxlanna af Hafliða sérlega vel heppnað herrakvöld á 19. hæðinni í Turninum. Þar voru saman komnir fyrrum áhafnarmeðlimir, áhangendur og aðdáendur þeirra svo og ýmsir aðrir fylgifiskar, en alls munu hafa mætt til átfundarins um 60 manns.
 
 leó
Þessir mættu snemma og tóku spjall saman…
 
 leó
,..en menn tíndust inn einn af öðrum og fljótlega fjölgaði í salarkynnunum.
 
 
leó 
Smám saman jókst kliðurinn á svæðinu og það varð vel messufært
 
 
 leó
 Gunnar Trausti Guðbjörnsson stjórnaði samkundunni af miklum myndarbrag og naut dyggilegrar aðstoðar nokkurra valinkunnra jaxla. Einn þeirra var Ingvar Björns sem tók að sér hlutverk útkastara, en þar sem ekki kom til þess að hann þyrfti að kasta neinum út taldi hann að starfsheitið dyravörður væri frekar við hæfi. En samkoman fór annars að öllu leyti ákaflega vel fram, enda hafa þeir Hafliðaguttar alla tíð haft orð á sér fyrir að vera miklir rólyndis og friðsemdarmenn.
 
 
 leó
 Gamlar myndir rúlluðu á tjaldinu allt kvöldið og vöktu þær að vonum mikla kátínu. Menn lyftust í sætum sínum og rifjuðu upp atburði úr fortíðinni sem sumir tengdust myndunum sem voru flestar teknar af Jóa Matt og Hauki Óskars. Einhver hafði á orði að myndirnar frá Jóa væru flestar af togarasjómönnum við störf sín, en þær frá Hauki meira eins og “rómantískar gamanmyndir”. Sparigallanum var þar gjarnan flaggað, allir á leið á ball og oft voru ekki færri stelpur en strákar á myndunum.
 
 leó
 Sérstakur undirbúningsfundur var haldinn með Hauki yfirkokki, þar sem settar voru fram nokkuð fastmótaðar hugmyndir manna um matseðilinn. Jaxlarnir vildu fá heimilislegt sjóarafóður, kótilettur sem mátti alls ekki fituhreinsa hið minnsta en varð hins vegar að berja vel og lengi, brúnaðar karföflur, rauðkál, grænar baunir rabbarbarasultu og mikið af laukfeiti. Haukur skildi hugmyndafræðina vel því hann hafði verið á Akureyrartogurunum hér á árum áður.
 
 leó 
Og biðin eftir að maturinn hæfist var svolítið eins og biðin eftir jólunum.
 
 leó
 …eða að það yrði kallað “hífa” eins og í denn.
 
 leó
 En sumir hafa þroskað með sér mikið langlundargeð og eru ekkert nema þolinmæðin uppmáluð.
 
 leó
 Og þar kom að röðin myndaðist og menn mjökuðust skref fyrir skref í átt að gnægtaborðinu.
 
 leó
 “Hvað er laukfeiti” spurði einhver og svarið er einfalt, hæfilega smátt saxaður laukur steiktur í íslensku smjöri, - og miklu af því.
“Eru þessar kótilettur af nauti” heyrðist í öðrum.
“Góð hugmynd fyrir næsta ár” svaraði Gunnar Trausti.
 
 leó
 Og í aðeins meiri nærmynd af borðinu…
 
 leó
Og svo tóku menn hraustlega til matar síns…
 
 leó
 … þeir sem voru í sterkari drykkjum fengu sér appelsín og malt með matnum, en hinir blávatn.
 
 leó
 Kótilettur eru mikil kostafæða, en hafa orðið æ óalgengari á borðum landsmanna eftir því sem tímar hafa liðið.
 
 leó
 Svo var boðið upp á alveg hæfilega gamaldags eftirrétt sem átti vel við það sem á undan var, eða coktailávexti úr dós með ís og þeyttum rjóma.
 
 leó
 Það var skrafað og skeggrætt.
 
 leó
 Svo flugu auðvitað nokkrar óborganlegar sögur…
 
 leó
 …og sumar eflaust sannari en aðrar.
 
leó 
 Einn sem alltaf er mættur þar sem Siglfirðingar koma saman og ætti því skilið að fá sérstök mætingarverðlaun í kladdann sinn.
 
 leó
 Þarna voru líka nokkrir Brekkuguttar.
 
 leó
 Ásmundur Friðriksson þingmaður og fyrrum bæjarstjóri í Garðinum.(fyrir miðri mynd) var ræðumaður kvöldsins. Óhætt er að fullyrða að hann hafi náð bæði sjálfum sér og öðrum á verulega gott flug með nokkrum laufléttum “káetusögum” og fær hann eflaust fyrstu einkunn fyrir frammistöðu sína í pontu. Það var svo um tíuleytið að þeir sem máttu vera lengst úti fóru að tygja sig til brottferðar. Þetta var búið að vera aldeilis frábært kvöld og fátt líklegra en að ennþá fleiri mæti að ári. 
 
 leó
 
Texti Leó R. Ólason
Ljósmyndir Birgir Ingimarsson. 

Athugasemdir

24.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst