Ljósmyndasögusafnið á Sigló vex og dafnar!

Ljósmyndasögusafnið á Sigló vex og dafnar! Í dag er hægt að eyða heilu dögunum í að skoða merkileg söfn og sýningar á Siglufirði. Margir ferðamenn verða

Fréttir

Ljósmyndasögusafnið á Sigló vex og dafnar!

Einar Björgvin Ómarsson stendur við stóra myndavél
Einar Björgvin Ómarsson stendur við stóra myndavél

Í dag er hægt að eyða heilu dögunum í að skoða merkileg söfn og sýningar á Siglufirði.
Margir ferðamenn verða oft hissa á að mörg af þessum söfnum séu akkúrat hér. 

Þetta hefur allt sprottið uppúr áhugamennsku og síðan vaxið og dafnað með stuðningi góð fólks sem tengist firðinum fagra á einn og annan hátt.

Saga fotografica er ljósmyndasögusafn sem er í nýlega uppgerðu gömlu húsi við Vetrarbraut 17, eiginlega undir stóra strompinum sem gnæfir yfir allt á eyrinni.

Þetta glæsilega safn skapaðist gegnum fólk sem féll kylliflatt fyrir fegurð og  sögu Siglufjarðar, þau heita Baldvin og Inga og þau komu hingað fyrst í heimsókn til systur Ingu sem var bæjarstjóra frú hér um tíma fyrir mörgum mörgum árum síðan. 


 Inga og Baldvin keyra um hverja helgi á milli Sigló og Reykjavíkur til að sinna safninu. Alltaf nóg að gera á lagernum á Saga Fotografica.

Inga og Baldvin keyptu fyrst litla íbúð og seinna gamalt slitið hús sem langafi greinarhöfundar byggði við Suðurgötu að því loknu var byrjað á að endurgera húsið við Vetrarbraut í þeim tilgangi að opna þar ljósmyndasögusafn.

Baldvin og Inga eiga og reka BECO ljósmyndavöru í Reykjavík og hafa einnig brennandi áhuga á öllu sem varðar ljósmyndun, vélum og búnaði sem notaður var hér áður fyrr á tíma “ANALOG” ljósmyndunar með filmum og framköllun og fl.

Til eru ca. 8.000 munir í Saga Fotografica.

Undirritaður er líka “ljósmyndadellukall” og safnar öllu mögulegu og hefur í gegnum árinn dottið niður á ótrúlegustu hluti á flóamörkuðum og á netuppboðum hér úti í Svíþjóð.  

Fyrir nokkrum árum kom ég við á Saga Fotografica og skrifaði stutta grein um kannski merkilegasta “muninn” sem tilheyrir þessu safni, en það er hin næstum 84 ára gamli Steingrímur Kristinsson safnvörður, fræðimaður og upphafsmaður af Ljósmyndasafni Siglufjarðar sem nú er komið í eigu Síldarminjasafn Íslands.

 Steingrímur hefur tekið myndir á Sigló í yfir 70  ár og veit allt um ljósmyndun, gömul tæki og tól.

Sjá grein hér: 

Snillingar bæjarins! Steingrímur

Greinarhöfundur var komin í vandræði vegna plássleysis í sinni tveggja herbergja íbúð með myndarvélar og dót upp um alla veggi......sumar mjög svo stórar...........

Þá kom upp hugmynd um að gefa Saga Fotografica skemmtilega og áhugaverða muni í sýningar og vörslu og þar með gat greinarhöfundur fengið fleiri ástæður til að koma heim á Sigló og ekki bara hitta vini og ættingja heldur lóka til að klappa dótinu sem hann sendi á safnið.

Hér fyrir neðan kemur lýsing á nokkrum af þessum munum sem nú er hægt að skoða ásamt fullt af öðrum stórmerkilegum ljósmyndasögu munum í þessu frábæra safni í litlum fallegum firði á norðurhjara veraldar.

Það skal tekið fram að þetta hefði aldrei tekist ef ekki hefðu komið til góðir styrktaraðilar eins og Bjarni Hjaltason hjá THORSHIP sem sá um ókeypis frakt á 200 kg af myndavéladóti frá Gautaborg til Siglufjarðar.

Þessi stóra mahóný myndavél á sér merkilega sögu. Tæknilegu söguna getur þú sem hefur áhuga lesið hér neðar en fyrst kemur stutt saga sem snýst um konur sem snemma í ljósmyndasögunni gerast atvinnu ljósmyndarar.

 Á efri hæð Saga Fotografia er ljósmyndasýningin "Fólkið á Sigló" (Björn Valdimarsson) og annað skemmtilegt. 

Þessi stóra og glæsilega atvinnumyndavél stóð lengi vel á frægri ljósmyndastofu í Uddevalla sem upprunalega var rekin af konu sem heitir Josefin Rydholm en hún kom inní atvinnugreinina gegnum bróður sinn Svante árið 1860 og var þetta fyrsta ljósmyndastofan í Uddevalla, Josefin rak stofuna sína í 20 ár og þar á eftir tók önnur stórmerkileg kona við og raka stofuna í nokkur ár undir nafni Josefinu áður en hún byggði eigin stofu í Uddevalla.

En hún hét María Lundbäck og hún var mjög svo fræg sem frábær ljósmyndari og hún stofnaði sína eigin ljósmyndastofu 1883 og byggði sér og sinni heitelskuðu Hildur Andersson veglegt hús og vann og lifði með henni allt sitt líf og þær eru grafnar hlið við hlið í fallegustu gröfinni í kirkjugarðinum í Uddevalla.  

 Maria Lundbäck. 
Mynd frá: www.digitalmusseum.se

Amalia Olsson var líka merkileg kona sem opnaði eigin stofu 1895 á Östergatan 10 í Uddevalla og á einhvern merkilega hátt eru það aðallega konur sem opna ljósmyndastofur á þessum tíma í og kringum Uddevalla. Þessi stofa var síðan flutt til Kungsgatan 37 árið 1919 og þar er hún enn ídag og þar stóð þessi stóra Hugo Svensson & Co myndavél í fjölmörg ár og var síðast í eigu Jan-Eric Johanssonar sem átti og rak stofuna frá 1978-2009. Hann tók þessa vél með sér þegar hann seldi starfsemina til Anette Julin sem rekur stofuna Porträttfotografen á samnefndum stað.

Jan-Eric gaf Bohuslän musseum vélina og var hún þar um tíma en síðan bað safnið hann að sækja vélina vegna plássleysis og þá var hún færð í reiðhjólageymslu í fjölbýlishúsi og hún stóð þar til undirritaður sótti hana þangað eftir lát Jan-Erics haustið 2016.

 Einar Björgvin Ómarsson og stóra Hugo Svensson & Co "Nýja Multiplex" rafmagnsdrifin einstök myndavél. Framleidd í Gautaborg 1945-46. p.s. það tók Baldvin 8 klukkutíma að pússa og hreinsa þessa fallegu Mahóný myndavél.

Á Saga Fotografica er hægt að fá lánaða bók sem heitir “Kvinnor bakom kameran í Bohuslän”

(Konur og ljósmyndun Bohussýslu) þar sem ýtarlega er sagt frá að óvenjulega margar konur komu snemma inní atvinnu ljósmyndarastarfið. Þetta var þeirra möguleiki til að starfa sjálfstætt og oft á tíðum sleppa við að þá ánauð að þurfa að gifta sig.

Hugo Svensson & Co og Hessco vörumerkið. 

Texti og myndir lánað frá vörulista Hugo Svensson & Co frá 1944 og úr
“Svensk kamerahistoria”eftir Per-Anders Westman.
 

“Stutt sögulegt yfirlit um Hugo Svensson & Co, stytt og þýtt úr vörulita frá 1944.”

“Framleiðsla okkar á ljósmyndavörum og myndavélum byrjaði kringum 1890.

Þ.e.a.s.  um það leyti sem að áhugaljósmyndum byrjar þegar að “þurrar glerplötufilmur” fyrir litlar myndavélar voru að koma á markaðinn. Í byrjun var mest framleiddar “amatör” myndavélar eins og t.d. Svenska Express, Nora og Stella.

Atvinnumyndavélar og annað eins og t.d Svea myndavélin sem var mikið notuð til að taka myndir utandyra og fyrir dagblöð. Þá voru framleiddar  vörur eins og stækkarar og annað sem var vinsælt í því stóra myndformati sem þá var notað (18 cm x 24 cm).

Í fyrri heimstyrjöldinni var skortur á linsum og öðru efni sem var erfitt að flytja inn þess valdandi að myndavéla og önnur framleiðsla var lögð niður.
Fall þýska marksins eftir stríð gerði það einnig ómögulegt að standa í samkeppni við ódýra útlenska framleiðslu.”

  Hessco Mod A. Stækkari frá Hugo Svensson & Co ca 1930-35.

Fyrirtækið snéri sér þá allfarið að innflutningi og viðgerðarþjónustu og það er fyrst eftir 1930 sem Hugo Svensson & Co tekur aftur upp eigin framleiðslu í Gautaborg.

HESSCO fyrir atvinnuljósmyndara og ljósmyndastofur.

  Hessco: Nýja Multiplex er dásamlega falleg “tvíeygð” Mahoný myndavél sem Hugo Svensson & Co þróar útfrá Hessco "Orginal Multiplex" (sem fyrst er kynnt 1936)  vélinni og þessi útgáfa kemur fyrst 1942.

Tvær samskonar linsur eru samtengdar og er önnur fyrir myndatöku og hin er til þess að ljósmyndarinn sjái það sama og það sem myndavélin sér og geti stillt fókus og annað.

Fyrir utan þær stillingar fyrir seríu myndatöku eins og hjá Orginal Multiplex vélinni er möguleiki að blanda ólíkum stærðum af myndum á sömu filmuna.

 Hessco Orginal Multiplex árgerð 1936. 

Þessi myndavél er eins og “analog” tölva og eru myndaseríurnar ákveðnar með spjöldum af ólíkum gerðum og stærðum sem eru settar í rásir bæði að framaverðu og aftan í vélina.

Myndavélin sem er á Saga Fotografica er flaggskip Hugo Svenssons & Co en hún er rafmagnsknúinn og kom á markaðinn 1946. Hún þótti vera tæknilegt undur og sú allra besta sem hægt var að kaupa fyrir atvinnuljósmyndar og þeirra ljósmyndastofur í Svíþjóð og þó víða væri leitað. Einu mistök fyrirtækisins er að þessar myndavélar eru af svo góðum gæðum að þær bila ekki og endast von úr viti.

Það væri örugglega hægt að setja blaðfilmu í og stinga henni í samband og hreinlega taka myndaseríu í dag. Allir fylgihlutir eru með og statívið sem hún stendur á er einnig hannað og framleitt hjá sama fyrirtæki og það er hægt að stilla og hreyfa vélina í allar mögulegar áttir.

Þessi rafknúna myndavél er til í örfáum eintökum í heiminum í dag.

Á safninu eru einnig aðrir munir úr atvinnumanna seríunni Hessco eins og t.d:

Hessco Mod. A. stækkari: Svartur með fjórum sterkum perum, stórum belg og stækkunarlinsu sem passar fyrir eftirvinnslu á myndum teknum á gler eða blaðfilmur með Hessco Nýja Multiplex.

 Hessco stækkari, Zeiss Ikon skylti og Hessco glerplötufjölritari við hliðina. Hessco fjölritari: Sér hannaður til að fjölfalda glerfilmur, sérstakir trérammar og verkfæri fylgja með.

Hugo Svensson & Co og “Hasselblad”
Þýtt og endursagt úr “Svensk kamrerahistoria” eftir Per Anders Westman.

John Hugo Svensson (1867-1942) var menntaður verkfræðingur og stofnaði sitt fyrsta fyrirtæki 1890 í Gautaborg. Fyrirtækið var vélaverkstæði sem hann stofnaði í samvinnu við vin sinn Carl Georg Dahlgren og það hét “C.G. Dahlgren & Co”. Þeir unnu vel saman og Hugo sá um hönnun og allskyns uppfinningar og Carl Georg sá um viðskiptahliðina.

Fyrirtækið var í nágrenni við “F.W. Hasselblad & Co” sem var á þessum tíma heildsölufyrirtæki sem meðal annars seldi myndavélar og annað til ljósmyndunarvinnslu. Þessi heildsala var í eigu afa hins heimsfræga “Viktors Hasselblads”.

Gegnum þessi tengsl við Hasselblad fyrirtækið fengu þeir félagar myndavélar til viðgerðar og við það skapaðist mikil áhugi hjá Hugo fyrir að hanna eigin myndavélar og framleiða kópíur af myndavélum.

1896 deyr Carl Georg og Hugo kaupir hlut ekkjunnar og bróðir hans Yngve Svensson (1974- 1960) kemur inní fyrirtækið sem hluthafi og eftir það er fyrirtækjanafnið Hugo Svensson & Co.

Fyrsta myndavélin sem fyrirtækið framleiddi var “Svenska Express”, framleiðsla byrjaði 1893. Þetta er líklega “kópía” af “Murers Express” sem var ensk felliplötu myndavél og var hún seld hjá F.W Hasselblad & Co.

 Þessi myndavél sem er hér til sýnis heitir Hugo Svensons “Svenska Express” er gerð ca 1896- 1897. Myndavélin við hliðina heitir Hasselblads “Svenska Express” og er að öllum líkindum eldri ca 1893-1895 og hún er fyrsta myndavélin sem heitir Hasselblad framleidd af Hugo Svensson & Co fyrir F.W. Hasselblad & Co.

Þessar vélar eru kallaðar “felliplötuvélar” og koma á þeim tíma þar sem “þurrar glerfilmur” eru að koma á markaðinn. Áður voru svokallaðar “blautar glerfilmur” notaðar og það krafðist undirbúningsvinnu og efnafræðikunnáttu sem ekki var á allar færi. Hér byrjar möguleikinn fyrir áhugaljósmyndara að geta sjálfir tekið ljósmyndir og framkallað.

Hleðsla og losun verður að fara fram í myrkraherbergi og það voru settar þurrar tilbúnar glerskífur í litlar málm kassettur sem var raðað aftan í myndavélina. Fjöður í lokinu þrýstir á 6-12 kassettur og þegar sú fremsta er notuð er litlu handfangi á hlið vélarinnar snúið og þá dettur kassettan niður í botn vélarinnar og næsta matast fram. 

 

Ticka-Watch vasaúr myndavél, Houghtons Ltd, England ca 1907

(lánsgripur til sýnis á Saga Fotografica, úr einkasafni Jóns Björgvinssonar, Gautaborg)

 

Árið 1903 hannaði sænski verkfræðingurinn Magnus Niéll (1872-1962) þessa heimsfrægu vasaúrs myndavél.
Magnus fékk einkaleyfi í Ameríku fyrir uppfinningu sína 1904 og seinna sama ár í Englandi og Þýskalandi.

Myndavélin kom á markað 1905 og í Englandi var vélin framleidd af fyrirtækinu Houghtons Ltd undir nafninu Ticka Watch Camera í Ameríku var hún seld undir nafninu Expo hjá fyrirtækinu Expo Camera Company.

Í Englandi var hún framleidd fram til 1914 en í USA til 1936.

Þetta er frábær uppfinning og myndavélin líkist þykku vasaúri og tilvalin sem “njósnamyndavél” á þessum tíma þar sem allir vorum með vasaúr á sér.

Í vélinni var lítið lokað filmuhylki með myndrömmum sem voru 1,5 cm. x 2,3 cm.

Tæknilegt undur á þessum tíma.

og að lokum..........

Hugo Svensson & Co og "Viktor Hasselblad. "

Texti og myndir lánað frá vörulista Hugo Svensson & Co frá 1944 og úr “Svensk kamerahistoria”eftir Per-Anders Westman og úr “Handbók sænska flughersins um HK 7” njósnamyndavél Viktors Hasselblad. 

Hugo Svensson & co er stofnað 1890 af John Hugo Svensson (1867-1942) í Gautaborg og var upprunalega vélaverkstæði með allskyns framleiðslu og viðgerðir.

Gegnum nálægð sína við F.W. Hasselblad heildsölufyrirtækið sem var rekið af afa hins fræga Viktors Hasselblad sem hannaði hinar heimsfrægu Hasselblad myndavélar fékk Hugo Svensson verkefni við að laga myndavélar sem F.W. Hasselblad seldu.
Fyrirtækið var með litla verksmiðju og þrjár ljósmyndvöruverslanir í Gautaborg og útbú í Stokkhólm. 

Þessi skemmtilega tenging til afa Viktor Hasselblads sem hann er skírður í höfuðið á er einmitt það sem veldur því að hin ungi Viktor fer sjálfur út í hönnun og framleiðslu á myndavélum.

Fyrst er vert að nefna að afi Viktors tók við fyrirtækinu af föður sínum Fritz W árið 1871 og Viktor eldri og hann verður snemma mikil ljósmyndaáhugamaður.
Þegar hann er í brúðkaupsferð í London 1885 hittir hann Georg Eastman stofnanda Kodaks sem seinna leiðir til að fyrirtækið G & H Hasselblad er stofnað gagngert til að geta selt áhugaljósmyndurum tæki og tól í umboðsölu frá Kodak.
F.W. Hasselblad & co var heildsala og það mátti ekki selja til almennings.

Hröð þróun í ljósmyndatækni og nýir möguleikar fyrir áhugaljósmyndun gerði það að verkum að 1908 var fyrirtækið Hasselblad fotografiska AB stofnað og hafði það einkaleyfi á öllum vörum Eastman Kodak Company í Svíþjóð.

Viktor yngri hreyfði sig í þessu ljósmynda umhverfi og varð snemma góður ljósmyndari og áhugamaður um að þróa myndavélar.

Vorið 1940 skutu Svíar niður Þýska njósnaflugvél sem var atburður sem næstum leiddi til þess að Þjóðverjar gerðu innrás í Svíþjóð.
Í þessari njósnaflugvél var merkileg sérhönnuð myndavél, framleidd af Fritz Völk í Berlín og var hún nefnd HK 12. (Hand kamera)
Sænski flugherinn vildi ólmur eignast svona njósnamyndavél sem var hægt að halda á og taka myndir með í öllum mögulegum flugvélatýpum.

Það kom fyrirspurn til Hugo Svensson & Co um hvort að þeir gætu gert svona vél en þeir vildu ekki gefa sig út í svona framleiðslu en nefndu nafn hins unga og klára Viktors Hasselblads og seinna þegar hann fékk sömu spurninguna svaraði hann.

Nei, það get ég ekki, en ég get gert aðra betri.”

 

Hasselblad frændur hans áttu skráð hlutafélag ( Ross AB) sem ekki var í notkun og var nafnið lánað til Viktors svo að hann gæti hafið framleiðslu á sinni fyrstu myndavél fyrir sænska flugherinn sem hann kallaði HK 7. 

Sína fyrstu starfsmenn fann Viktor í nágrenni við Hasselblad Fotografiska og voru það tveir bræður sem voru biðvélavirkjar og hófst framleiðsla í litlum skúr í apríl 1940.

Vonandi getið þið fengið að sjá eina svona uppgerða 5 kg.  HK7 myndavél frá 1941 No 75 í "orginal trékassa  No 87 frá Sænska flughernum á Saga Fotografica næsta sumar.

Hugo svensson & Co framleiddi einnig aðrar myndavélar fyrir atvinnu og áhugaljósmyndara og gaf einnig út tímarit sem hét “Kamerabilden” (Ljósmyndin) og kom það út í ca 10.000 eintökum. (1919-1944)

Fyrirtækið var mjög svo þekkt fyrir gæði og góða þjónustu, það var síðan selt 1966 og hét eftir það Ilford Foto AB.

Lifið Heil.
Texti og myndir:
Jón Ólafur Björgvinsson
Myndir og texti úr "Svensk kamerahistoria" er birt með leyfi höfundar.
(Nonni Björgvins 


Athugasemdir

21.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst