Minningar um síldveiðar við Ísland 1946-48.

Minningar um síldveiðar við Ísland 1946-48. Þessi grein er þýdd og stytt úr grein sem birtist í sænska tímaritinu Länspumpen 2006. Hennrik Henriksson

Fréttir

Minningar um síldveiðar við Ísland 1946-48.

Þessi grein er þýdd og stytt úr grein sem birtist í sænska tímaritinu Länspumpen 2006.
Hennrik Henriksson segir Edmond Bäck frá þremur síldveiðitúrum með skútunum Sofia, Mathilda og Diamant. H
ér kemur skýrt fram hversu erfiðir og áhættusamir þessir yfir þriggja mánaða síldveiðitúrar á “fraktskútum” voru í rauninni.

Skútan Sofía LL 771 sumarið 1946

Sumarið 1946 hafði ég munstrað mig um borð á skútuna Soffíu frá Malmön. Við sigldum af stað í lok júní rétt eftir “Middsommarafton” (Jónsmessu) og leiðin lá til Siglufjord.

Við vorum fimm karlar frá Bohussýslu og eftir að við tókum salt og tunnur um borð í Lysekil þá sigldum upp til Vegavåg á Karmöy Í Noregi og tókum þar um borð reknet sem við leigðum af þremur eldri norðmönnum. Þeir þrír og fimm til viðbótar fórum síðan með okkur í þennan síldveiðitúr til Íslands.
Ég man sérstaklega eftir einum af þeim en hann hét Varmond Dahl en hann var 26 ára og jafngamall mér og rétt eins og ég hafði hann líka stýrimannaréttindi.

Veiðarnar fóru þannig fram að við lögðum út reknetið út frá annarri hliðinni á skútunni og rann það nokkuð létt út, svo var það látið liggja í um nóttina og svo dregið inn í morgunsárið.

Það var oft þoka og vont í sjóinn við norðurströnd Íslands, einu sinni fórum við í var inná Ólafsfjörð í skítaveðri til þess að ganga frá aflanum í ró og næði en þá kom Íslenska landhelgisgæslan og rak okkur út fyrir landhelgina aftur.



Það var stranglega bannað fyrir útlenska báta að salta um borð innan við landhelgina og við máttum bara fara í land á Siglufirði til þess að sækja vistir, vatn og til að sinna viðgerðum.

Yfirleitt vorum við úti í eina viku í einu og síðan smá hvíld í landi.

Við “kverkuðum” síldina og síðan var hún sykursöltuð og krydduð og að lokum var fyllt á tunnurnar með “laka” sem var sykur og salt sem var leyst upp í vatni. Þetta var stór og feit Íslandssíld sem við fengum þetta sumar og eftir þrjá mánuði vorum við komnir með fullfermi, 850 tunnur af síld.

 Síldarsöltun um borð í sænskri fraktskútu. Ljósmyndari: óþekktur. Mynd úr safni "De seglade från Tjörn"

730 tunnur fengu pláss í lestinni og 120 tunnur uppá þilfarinu, plús 6 tunnur af söltuðum þorski. Heimferðin byrjaði um miðjan september og eftir að við sigldum fyrir Langanes þá tók það okkur um sólahring að nálgast Færeyjar. Þar fengum við á okkur brotsjó og ofsaveður í þrjá sólahringa.

Fyrsti brotsjórinn sem reið yfir okkur setti alla skútuna á bólakaf og rúðurnar á stýrishúsinu brotnuðu, skútan reisti sig hægt vegna þess að hún var svo þung og sjórinn sem venjulega átti að renna aftur úr út um göt sem voru þar en þau voru nú lokuð vegna fullfermis á dekkinu.

Í hvert skipti sem að brotsjór reið yfir okkur þá rann sjór aftur í skutinn og þrátt fyrir að við reyndum að loka öllu með tvöföldum segldúk var að lokum yfir fimm tonn af sjó í skutnum.

Allt sem var á þilfarinu fór fyrir borð, 120 tunnur af síld, 6 tunnur af þorski og lítill árabátur líka, en guði sé lof töpuðuð við engum peningum því allt var tryggt  í bak og fyrir hjá útgerðinni.

Sofia byrjaði líka að leka og við þurftum að nota handdælu stanslaust í þrjá sólahringa, voru alltaf tveir saman á dæluvakt og skiptumst á að pumpa með dælunni í hálftíma í einu.

Í alvöru talað þá hélt ég að þetta væri mitt síðasta en við komust að lokum í land í Klockarevík í Noregi, en þar tókst okkur að þétta lekan nokkuð með sagspón.

Á heimleiðinni vorum við í samfloti með skútu sem heitir Pallas frá Fisketången og hún sigldi fyrir fullum seglum þegar stormurinn mikli skall á okkur. Hún var oftast bara í 300 metra fjarlægð frá okkur og það síðasta sem við sáum var að “bommen” brottnaði hjá þeim og seglið fauk út í veður og vind.

En sem betur fer sáum við þegar við komum loksins tilbaka til Vegavåg í Noregi að Pallas lá þar við bryggjuna. Þegar við hittum einn af hásetunum þá sagði hann: ”Ég hélt ég myndi nú ekki sjá ykkur aftur strákar!”

Við lönduðum síðan 730 tunnum hjá þekktum síldarkaupanda í Gautaborg sem ég man ekki nafnið á en ég man að við fengum 72 skr fyrir tunnuna.  Við fengum 2700 skr hver fyrir túrinn og það þótti okkur bara nokkuð gott.
Þegar búið var að landa öllu og ganga frá fór ég heim og var komin í heimahús í byrjun október.

Mathilda frá Malmön 1947.

Sumarið eftir var ég á þriggja mastra skútunni Mathilda. Eigandi hennar var Valdimar Johansson, meira þekktur sem “Valdimar í Kálfinum”. Hann hafði með sér syni sína Oskar og Nils og við vorum fjórir frá Malmön í þessum túr til Íslands og hinir sex komu frá hinum og þessum plássum við vesturströndina.

Við tókum 1000 tómar tunnur og salt um borð í Lysekil og sigldum síðan út á Norðursjó og lentum þar í aftaka veðri og stýrið datt úr sambandi. Við fengum síðan hjálp frá annarri skútu og komum í land í þorpi sem heitir Spjelkavík rétt sunnan við Ålesund í Noregi.

Þar fengum við hjálp frá selveiðimönnum sem voru að vinna við að frysta skinnin sín vegna þess að það var svo lélegt verð á selskinnum á þessum árum.

Þeir hjálpuðu okkur að skera út stálfestingar til að setja á stýrisbúnaðinn en það var bölvað vesen vegna þess að stýrisstokkurinn var svo rotinn og lélegur að norðmennirnir voru alveg stórhneykslaðir á þessu og spurðu:

“Hvað ? Eruð þið ekki með skipaeftirlitsmenn í Svíþjóð eða hvað ?

En þetta hafðist en ég verð að segja að hefðum við lent í brotsjó þá hefði þetta getað endað illa, þessi skúta var almennt í freka slæmu ástandi.

Í þessum túr fengum við ekki fullfermi, 800 tunnur af saltaðri síld, við fengum 100 skr fyrir tunnuna og ég fékk 2500 skr fyrir allan túrinn.

Diamant frá Grundsund 1948.

Þriðja túrinn til Íslands fór ég með glæsilegri nýbyggðri skútu sem hét Diamant en hún var smíðuð í Bovallsstrand slippnum og lestarrýmið var rúm 250 tonn.

þegar við vorum að nálgast Langanes spurði ég skipsstjórann hvort það væri langt á síldveiði miðin og svo var ekki, því um kvöldið sama dag lögðum við út rekneta línuna og morguninn eftir var síld í hverjum einasta maska.

Reknetið var svo þungt að tannhjólin í spilinu brotnuðu og við þurftum að “vinsa” netið um borð og handhreinsa síldina úr netinu.

 Tilbúinn á síldveiðar við Ísland. ljósmyndari: Óþekktur. Mynd úr safni "De seglade från Tjörn"

Næstum öll reknetalengjan var ónýt eftir þessi ósköp, (60 net) og skipstjórinn varð að lána reknet héðan og þaðan, eitt hér og tvö þar en þetta hafðist að lokum og við gátum klárað túrinn.

Við fengum bara á milli 700-800 tunnur sem voru seldar í Svíþjóð fyrir 100 skr tunnan.
Við fengum 2400 skr hver fyrir þennan túr.

Lifið heil og gleðilegt ár.
Nonni B.

Texti og þýðing:
Jón Ólafur Björgvinsson
Þýðing og myndir birtar með leyfi frá “Länspumpen” og félagsins “De seglade för Tjörn” sem einnig eiga skilið mikið þakklæti fyrir frábærar mótökur og hjálp við birtingu á þessum greinum.
Aðrar heimildir um síldveiðar Svía og Norðmanna við Ísland:

Drivgarnsfisket vid Island på 1900-talet

Bohuslän var landets sillcentrum

SILDEFISKET VED ISLAND (Del 1) Norsk síða.

SILDEFISKET VED ISLAND (Del 2)

Aðrar greinar um Siglufjörð og vesturströnd Svíþjóðar:

De seglade från Tjörn.......Til SIGLÓ. (50 myndir)

PÅ VÄG MOT ISLAND…. á heimaslóðum sænskra síldveiðimanna! 

Siglfirðingar, síld og sakamálasögur í Fjällbacka

Stórkostleg kvikmynd frá 1954 fundin

SILLSTULKOR I SIGLUFJORD / Sænsk myndasyrpa frá 1945

SIGLUFJORDUR er nafli alheimsins og SILLENS CLONDYKE (Myndir og myndband)


Athugasemdir

21.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst