Síðustu dúfurnar á Íslandi ?

Síðustu dúfurnar á Íslandi ? Dúfurnar í Bryggjuhúsi Njarðar hafa nú fluttt sig yfir í ný heimkynni í Ásgeirsskemmu, syðsta safnhús Síldarminjasafnsins.

Fréttir

Síðustu dúfurnar á Íslandi ?

myndin sýnir bræðurna Pétur og Ólaf Guðmundssyni flytja dúfurnar í kössum úr húsinu sem rífa skyldi og í ný heimkynni í Ásgeirsskemmu. – mynd ök
myndin sýnir bræðurna Pétur og Ólaf Guðmundssyni flytja dúfurnar í kössum úr húsinu sem rífa skyldi og í ný heimkynni í Ásgeirsskemmu. – mynd ök
Dúfurnar í Bryggjuhúsi Njarðar hafa nú fluttt sig yfir í ný heimkynni í Ásgeirsskemmu, syðsta safnhús Síldarminjasafnsins.

Dúfurnar á Siglufirði eru fyrir margra hluta sakir merkilegar og er Siglufjörður sennilega eini bærinn á landinu þar sem eitthvað er af dúfum.

Örlygur Kristfinnsson sendi siglo.is þessa góðu grein um dúfurnar á Siglufirði :



Þessar dúfur eru jafnmiklir Siglfirðingar eins og þú og ég - eða krummarnir og allir hinir fuglarnir sem hafa valið fjörðinn sem heimkynni sín. Margir gera sér grein fyrir þessu og þó nokkrir góðhjartaðir bæjarbúar færa þeim brauð daglega.

Ekki er vitað hvenær þær komu fyrst hingað en líklegt er að þær hafi verið fluttar á staðinn snemma á 20. öld til ræktunar eins og gerðist í flestum þorpum og bæjum.  Nú eru þær nálægt 50 að tölu, villtar en þurfa húsaskjól og eru háðar matargjöfum.

,,Dúfnaveislan”?

Fyrir allmörgum árum var verið að setja upp eitthvert leikrit hjá Leikfélagi Akureyrar. Einn ,,leikaranna" var dúfa. Þegar til átti að taka fannst engin slíkur fugl á Akureyri. Og ekki heldur í öðrum bæjum á Norðurlandi - nema á Siglufirði! Þannig að í það skiptið fór einn Siglfirðingur með hlutverk á fjölum gamla samkomuhússins á Akureyri.
 
Eins og logi yfir akur

Við athugun kom það í ljós að Árni nokkur Logi eigandi fyrirtækisins ,,Meindýravarnir Íslands ehf" hafði ekið um landið á jeppa hlöðnum byssum, gildrum og hverskyns eiturefnum og samið við sveitarstjóra um útrýmingu á öllum meindýrum þ.m.t. dúfum. Aðeins einn bæjarstjóri samþykkti ekki útrýmingaráætlunina - það var Björn Valdimarsson á Siglufirði - þökk sé honum!

Um áratugi hafa bræðurnir Pétur og Ólafur Guðmundssynir gætt dúfnanna í bryggjuhúsi gömlu Njarðarstöðvarinnar. Nú þegar húsið hefur verið rifið eiga þær nýtt aðsetur í Ásgeirsskemunni, syðst á lóð Síldarminjaafnsins.
 
Heilagur fugl

Bréfdúfur hafa gegnt mikilvægu hlutverki í samskiptum manna í stríði og friði samanber Palómu í sögunni Bróðir minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren. Fljúgandi dúfan með laufteinung í nefinu er friðartáknið góða – og hin hvíta dúfa er symbólið fyrir sjálfan heilagan anda.

Bæjarprýði

Þótt sumir amist við þessum blessaða fiðurfénaði og hafi trúað áróðrinum um að þetta séu ,,rottur himinsins" þá er full ástæða til að dúfurnar njóti áfram verndar okkar.
Og ekki eru nein vandræði að finna þeim nokkrar málsbætur: Fáir fuglar éta eins ,,hreint" fæði, þ.e. brauð og kornmeti. Þær eru fallegar í augum margra  og börnum þykir yfirleitt vænt um þær. Dúfur eru eitt helsta torgtákn margra borga útí heimi - og við sem erum stolt af torginu okkar – einu af fáum bæjartorgum landsins! - eigum náttúrlega að ala þær á torginu og undirstrika það að Siglufjörður var lengi kallaður höfuðborg (síldarinnar) og hefði enn nokkuð alþjóðlegt yfirbragð eins og áður.

- ök



Athugasemdir

21.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst