Siglfirðingar, síld og sakamálasögur í Fjällbacka

Siglfirðingar, síld og sakamálasögur í Fjällbacka Margir kannast við bæjarfélagið Fjällbacka úr sakamálasögum eftir Camillu Läckberg. Þetta fallega litla

Fréttir

Siglfirðingar, síld og sakamálasögur í Fjällbacka

Smábátahöfnin í Fjällbacka í vetrardvala.
Smábátahöfnin í Fjällbacka í vetrardvala.

Margir kannast við bæjarfélagið Fjällbacka úr sakamálasögum eftir Camillu Läckberg. Þetta fallega litla sjávarþorp á vesturströnd Svíþjóðar er reyndar frægt fyrir ýmislegt fleira og á sér rétt eins og Siglufjörður sína eigin síldarsögu.
Undirritaður fór nýlega og heimsótti Siglfirðinginn Birgir Eðvarðsson og konu hans Önnu Margréti Ólafsdóttur en þau er ákváðu að setjast að þarna í Fjällbacka yfir vetrarmánuðina.
Biggi Ölmu eins og hann er oft kallaður er sonur Ölmu Birgis og afi hans var Birgir Runólfsson, hinn mikli vöruflutninga frömuður Siglufjarðar. 

Biggi og Anna Margrét voru svo heppin að finna litla fína íbúð á leigu á besta stað í miðbæ Fjällbacka, þessar íbúðir eru ódýrar að leigja yfir vetrarmánuðina en margar íbúðir standa auðar hér í bæ og bíða túristanna sem koma í stóru magni á sumrin. Hér búa um 1.100 mans allt árið um kring en margir eiga hér sumarhús og aðrir koma hingað með bátana sína á vorin. Fjällbacka á sér langa sögu sem túristabær og margir ríkir og frægir karakterar eiga hér hús eða eitt stykki eyju úti í hinum stóra skerjagarði sem umlykur Fjällbacka. 

Biggi og Anna Margrét á aðalgötunni, það eru ekki nema rétt 200 metra gönguleið niður að höfninni.

Það er um klukkutíma keyrsla frá Gautaborg upp til Fjällbacka, á leiðinni er ég að reyna að minnast þess sem ég veit um þetta bæjarfélag og satt að segja kemur það mesta úr sakamálasögum Camillu Läckberg. Hef reyndar komið þarna áður fyrir 10 árum síðan um hásumar og það var allt fullt af túristum og flottum bátum í höfninni. Áður en mér er boðið í kótilettur förum við í göngutúr og það er greinilegt að Biggi og Anna Margrét  eru vel að sér um sögu bæjarins og hafa kynnst mörgu góðu fólki sem búa þarna. Þau tala góða sænsku, bjuggu hér í Svíþjóð 1985-89.
Meðal annars einum af örfáum nágrönnum sem eru þarna í þessu annars tóma húsi með stórum breiðum trésvölum þar sem gengið er inní íbúðirnar. "Þetta er eingin önnur en móðir Camillu Läckberg" segir Biggi mér þegar ég heilsaði eldri konu sem gekk þarna um hættulega sleipar tröppurnar á leiðinni út með ruslið. Við mættum ekki mikið af fólki í þessum fína göngutúr, verslanir og veitingastaðir eru lokaðir, Fjällbacka er í vetrardvala. Camilla er heima að skrifa nýja sakamálasögu og maður á bágt með að trúa því að hér í þessu fallega umhverfi hafi véfenglegir atburðir átt sér stað. 
Wikipedia: Camilla Läckberg

Biggi og Anna Margrét á svölunum þar sem ég hitti móður Camillu Läckberg. 

Á þessari stuttu göngu niður að hafnarsvæðinu getum við Biggi ekki gert að því að líkja þessum bæ við Siglufjörð, yfir húsunum í götunni gnæfir Vetteberget og hangir hreinlega yfir þökin sumstaðar.
( kannski ekki beinlínis fjall á Siglfirskan mælikvaða en virðulegur 76 metra hár klettaveggur) 
Þarna uppi á þessu kletti er frægt gljúfur sem heitir Kungsklyftan en þessi hrikalega klettagjá er nefnd í neinum að bókum Camillu og sést einnig í frægu atriði í kvikmynd um Ronju Ræningjadóttur eftir sögu Astrid Lindgren.
Vetteberget/Kungsklyftan, Fjällbacka: upplýsingar á ensku.

Höfninn er í miðjum bæ og stór og mikil steinhlaðin kirkja sést úr öllum áttum. Stór hús, magasín, verslanir og veitingastaðir kringum höfnina minna á velmegun sem kom frá þeim tíma þegar síldin kom "reglulega og óreglulega" inn í skerjagarðinn á árunum 1750 til aldamóta 1900.
Rétt eins og á Sigló var þetta bæjarfélag byggt vegna nálægðarinnar við síldina, húsin standa þétt vegna plássleysis á þessum nöktu klettasyllum kringum höfnina og hér gaf síldarsöltun og síldarbræðsla góðan aur í vasa bæjarbúa. Síldin skapaði verslunarmöguleika, fraktskipaflota og alkyns hliðarþjónustu. Fjällbacka var einnig um tíma frægt fyrir grjótnámur þar sem unnið var byggingarefni úr fínu rauðlituðu granítbergi sem er þarna út um allt og sjá má í öllum húsgrunnum bæjarins og ekki síst í kirkju byggingunni sem er alltof stór fyrir þennan litla bæ.
Meira um síldarsöguna og vesturströnd Svíþjóðar hér: Sillen gjorde Bohuslän till ett Kolnedyke

Séð yfir Fjällbacka frá smábátahöfninni, Vetteberget og kirkjan samlit klettunum gnæfa yfir bænum. 

Vetteberget hangir yfir húsþökunum.

Með svalirnar undir klettavegg. 

Húsin eru sambyggð klettinum.

Margt frægt og ríkt fólk á sumarhús og eyjur allt í kringum Fjällbacka.
Ingrid Bergman og fjölskylda eiga sumarhús á eyju sem heitir Dannholmen og var hún tíður sumargestur í bænum og lítil brjóstmynd og veggspjöld með sögu hennar eru þarna niður við höfnina þar sem gengið er upp tröppurnar sem leiða túristana upp á Vetteberget.
Sænska sjónvarpið sýndi nýlega heimildarmyndina "Jag är Ingrid"  en þar var í fyrsta skipti sýnt kvikmyndaefni úr einkasafni kvikmyndastjörnunnar frá sumarleyfum á Dannholmen. 

Ingrid Bergman horfir út í skerjagarðinn.

Everts Tapas bar var lokaður en þessi veitingastaður er nefndur eftir Evert Taube  hinum fræga trúbador Bohuslän. 

Humar og krabbagildrur lágu víða á bryggjum.

Grjóthlaðinn kjallari. 

 

Þröngt á milli húsa.

Teikning eftir Jacob Hägg af síldveiðum í skerjagarðinum við Fjällbacka 12 janúar 1878. "Myndin var birt í Fjällbacka Bladet 1971"

Meira um síldveiðar og sögu Fjällbacka hér: Modern historia/Fjällbacka 

Kirkjan í Fjällbacka. 

Klukkan er rétt að verða fimm þegar við ljúkum gönguferðinni og það er farið að skyggja verulega og komin tími á kótilettur á íslenskan máta hjá mínu fínu gestgjöfum. Saddur og ánægður og fullur af fróðleik um þennan merkilega stað keyri ég síðan heim í myrkri og helli rigningu, villist aðeins en kemst síðan á rétta leið út á E 6 hraðbrautina sem ber mig alla leið heim til Gautaborgar. 
Takk fyrir yndislegan dag Birgir og Anna Margrét.

 
Fjällbacka Tourist Information

Texti:
Jón Ólafur Börgvinsson
Myndir:
Jón Ólafur Björgvinsson og teikning úr Fjällbackabladet 1971. 

 


Athugasemdir

08.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst