Magnaðir tónleikar með Hymnodiu. Myndir og myndband
sksiglo.is | Almennt | 13.11.2013 | 06:00 | Jón Hrólfur Baldursson | Lestrar 456 | Athugasemdir ( )
Ég var bókstaflega dreginn á tónleika miðvikudaginn 6. nóv.
Þar var söng og skemmtihópurinn Hymnodia á ferð og tónleikarnir fóru fram í Siglufjarðarkirkju.
Ég verð að segja alveg eins og er að ég var nú ekkert sérstaklega
spenntur yfir því að vera dregin á einhverja klassíska (eins og ég hélt) tónleika með frúnni, eldri dótturinni og
tengdamömmu. Ég er reyndar alæta á tónlist og get líklega hlustað á flest allt, en þó ekki alveg allt.
Fimlega reyndi ég að koma mér hjá því að fara á
tónleikana og hljómaði líklega eins og þreytt eiginkona í sambúð með ofvirkum eiginmanni sem langar til að gera eitthvað allt annað en
að fara að sofa . "Ég held bara að ég sé með hausverk ég er líka eitthvað svo slæmur í bakinu og ég á bara eftir
að gera svo margt fyrir morgundaginn". Meira að segja spurði ég " á ég ekki bara að vaska upp fyrir þig Ólöf mín og jafnvel setja
í þvottvél eða eitthvað?" Já og " Ég skal bara passa í kvöld svo þú getir farið með mömmu þinni á
tónleikana".
En allt kom fyrir ekki. Svona sæmilega gekk mér að skrölta út í
bíl og keyra á tónleikana sem voru reyndar einungis í 50 metra göngufæri en það var vegna þess að ég var að eigin sögn, bara
aaalveg að drepast í hnénu.
Ég sagði við hugsanlega verðandi frú mína áður en
við fórum inn, "ég ætla að vera aftast í kirkjunni ef ég skildi allt í einu fá í magann eða hausverk og þurfa að hlaupa
út". Og án gríns þá ætlaði ég að vera í korter og fá svo skelfilega í magann eða dúndrandi hausverk.
Þetta byrjaði á því að þau koma inn syngjandi, berjandi á
ferðatösku og eitthvað verkfæri sem ég man ekki hvað heitir. Og þá strax voru þau búin að vinna mig á sitt band. Ég
hugsaðið með mér að þetta gæti nú alveg verið spennandi.
Hausverkurinn og magakveisan var gleymd, hnéð komið í lag og ég vissi ekki
hvað það þýddi að "vaska upp" og "setja í þvottavél", ég hafði bara aldrei heyrt þessi orð áður. Og svo bara
batnaði þetta þangað til þetta varð bara alveg frábært.
Spjallið við áhorfendur sem flest allir í Hymnodiu tóku þátt
í var stórskemmtilegt. Hljóðfærin, dansinn, sögurnar, grínið, léttleikinn, lögin og svo dansinn við einn úr
áhorfendahópnum var meiriháttar.
Það eina sem ég hafði út á þetta að setja var að
Ólöf hefði mátt draga mig á tónleika með þeim miklu fyrr.
Takk fyrir meiriháttar skemmtilegt kvöld Hymnodia.
Og á myndunum og myndbandinu hér fyrir neðan geti þið séð að
það var alls engin lognmolla yfir þessu hjá þeim.






Og svo ör-myndband af stemmingunni á tónleikum Hymnodiu í Siglufjarðarkirkju
6. nóvember
Athugasemdir