Spjallað við burtfluttan Siglfirðing - Árdísi Þórðardóttur

Spjallað við burtfluttan Siglfirðing - Árdísi Þórðardóttur Skíðadrottningin Dísa Þórðar er fædd árið 1948 að Túngötu 26 sem er næsta hús norðan við

Fréttir

Spjallað við burtfluttan Siglfirðing - Árdísi Þórðardóttur

Árdís Þórðardóttir. Ljósmyndari; Birgir Ingimarsson
Árdís Þórðardóttir. Ljósmyndari; Birgir Ingimarsson

Skíðadrottningin Dísa Þórðar er fædd árið 1948 að Túngötu 26 sem er næsta hús norðan við Alþýðuhúsið, en flytur ung á Laugarveginn þar sem hún bjó allt þar til hún hleypti heimdraganum og hélt til náms. Við knúðum dyra hjá henni þar sem hún býr í Ártúnsholtinu í Reykjavík, okkur var boðið til stofu og spjallið hófst þar sem sögusviðið var Siglunesið fyrir meira en hundrað árum og þremur ættliðum síðan.



Langafi minn og amma komu úr Fljótunum, settust fyrst að á Hóli þar sem núna er Íþróttamiðstöð Siglfirðinga, en fluttu síðar út á Siglunes. Margrét Jónsdóttir föðuramma mín sem var ein fjögurra barna þeirra, hitti svo afa minn Þórð Þórðarson, þegar hann kom þangað til að vinna við byggingu Siglunesvita sumarið 1908. Hann hafði fram að því starfað við það sem kalla mætti vitavæðingu landsins, en um og upp úr aldamótunum 1900 voru byggðir allmargir vitar víða um land og hann kom einmitt norður eftir að hafa unnið við byggingu Reykjanesvita. Hann varð í framhaldinu fyrsti vitavörðurinn á Siglunesi og var valinn úr hópi 42ja umsækjenda.


Þórður Þórðarson fyrir framan Siglunesvita árið 1912. – Thorvald Krabbe/Ljósmyndasafn Siglufjarðar.


Þau bjuggu úti á Nesi rúman áratug eða þar til afi minn lést fyrir aldur fram árið 1923. Þá var Margrét amma mín aðeins 29 ára gömul og stóð uppi með sex börn á aldrinum eins til þrettán ára. En hún var dugleg og kjarkmikil kona og þótt aðstæður væru líklega erfiðari en orð fá lýst, kom hún öllum börnunum vel til manns. Þegar þetta gerðist höfðu þau hjónin eignast um helming landrýmis á Nesi. Hún flutti síðar inn á Siglufjörð, settist að á Túngötunni og hélt þar heimili, en var jafnframt útvegsbóndi á Siglunesi. Það er víst alveg óhætt að segja að sú kona hafi verið með stórt bein í nefinu. Pabbi og mamma hófu sinn búskap á neðri hæðinni hjá ömmu og við erum fædd þar fjögur elstu systkinin. Sigríður Anna, ég, Þórunn og svo Árni 1954, en það sumar flytjum við á Laugarveginn þar sem mamma mín elskuleg býr enn tæplega níræð og flottust af öllum. Fallegu peysurnar, sem ég er í á gömlum myndum, bera handbragði hennar fagurt vitni.

 

Það sem ég man helst eftir úr Villimannahverfinu er strákastóðið, sem átti heima þarna í næstu húsum m.a. þeir bræður Örn og Eiríkur Snorrasynir og Lýður og Gylfi Ægissynir, Siggi posi og svo Dóri hennar Siggu. Það var hún sem argaði á hann út um opinn gluggann hin fleygu orð, “í háskólann skaltu helv… þitt því nógar hefurðu gáfurnar.” Það var mikið sport hjá okkur litlu krökkunum að stelast undir girðinguna vestan við Mjölhúsið sem var þá stærsta hús á Íslandi. Þegar inn í portið kom lá leiðin auðvitað beinustu leið upp stigana sem lágu upp á tankana og mömmurnar í hverfinu urðu eðlilega frávita af hræðslu þegar þær sáu til okkar. En á þessum tíma vissum við ekkert hvað lofthræðsla var. Svo áttum við það líka til að nota okkur kaðlana sem voru þarna og spranga svolítið utan á tönkunum.  Tunnuverksmiðjan var næsta hús við Mjölhúsið og þar var Ástvaldur pabbi hans Heiðars danskennara. Hann var alveg ógurlega góður kall og mikill vinur minn og gaf mér marga spítuna og hún Sigrún konan hans Halla Þór var stórvinkona mín og óskaplega góð við mig. Ég átti þó nokkuð marga fullorðna vini þarna í hverfinu.

Ég man vel eftir því þegar mamma var að baða okkur systurnar í þvottabala úr blikki. Þá mátti ekkert vera að bruðla með heita vatnið því það var dýrt að kynda og auðvitað var ekkert um annað að ræða en við notuðum allar sama vatnið sem okkur fannst ósköp eðlilegt á þessum tíma.

Pabbi var yngstur systkina sinna og á rætur sínar út á Nesi en mamma inn í Svarfaðardal. Ég var alin upp við að sá dalur væri ekkert minna en himnaríki á jörðu og Stóllinn fallegasta fjall á Íslandi. Fólkið gerðist svo ekki betra í allri veröldinni.  Þegar ég var lítil fór ég einu sinni í Stólinn með mömmu í berjamó og í minningunni voru berin kannski ekki eins og appelsínur, en alla vega á við vínber að stærð. Þú sérð að meira að segja berin þar voru stærri og örugglega miklu betri en annars staðar! Mamma fékk pláss fyrir okkur Tótu í sveit í Svarfaðardalnum og Tóta fann sig þarna en mér leiddist hroðalega svo að ég strauk eftir nokkra daga og kom mér til Dalvíkur þar sem ég fékk að vera hjá afa og ömmu sælla minninga.  Móðurfólkið mitt er dásamlegt, glaðsinna og ærlegt.


Fjölskyldan á Laugarveginum við skírn Maddýar, en þarna er yngsti bróðirinn Jónas ekki fæddur. - Úr fjölskyldualbúmi.


Ég veit ekki hvað pabbi var að hugsa þegar hann byggði húsið á Laugarveginum því það var svo stórt, en kannski hefur hann reiknað með að eignast tuttugu börn, - hver veit? Það var upp á tvær hæðir með innréttuðu risi og svo var aukarými inni í sökklinum þar sem haldin voru bæði hænsni og kindur. Aldrei var flutt inn í neðri hæðina sem var að lokum seld. En á Laugarveginum fjölgaði þó í hópnum því þar fæddust Þórður, Maddý og Jónas.

Eins og þeir vita sem til þekkja, sker húsið sig verulega úr götumyndinni því það snýr einu horninu að götunni. Svona vildi pabbi hafa þetta því hann gerði sér grein fyrir snjóflóðahættunni úr fjallinu fyrir ofan. Ég veit ekkert hvernig þetta hefur farið saman við bæjarskipulagið en hann var nú ekki mikið fyrir að bakka með hugmyndir sínar ef hann var búinn að ákveða hvernig hlutirnir áttu að vera. Hann átti líka lóð ofan við götuna þar sem hann reisti fiskhjall án þess að spyrja nokkurn mann og ég man að það varð heilmikið vesen út af því. Nokkrar konur í nágrenninu óttuðust að nú yrði alveg ólíft þarna vegna flugu og löggan var talsvert á ferðinni út af hjallinum, en hann reis nú samt og stóð lengi.


Bræðurnir Þórður og Jón eignuðust sjö börn hvor. Hér eru þeir ásamt konum sínum og börnum. Á myndina vantar þó Þórð son Jóns og Soffíu og Jónas sonur Þórðar og Grétu er ekki fæddur. – Úr fjölskyldualbúmi.


Þegar ég fer að hugsa til baka og rifja upp þessi ár fyrir norðan, er nokkuð ljóst að ég hef bæði verið ofvirk og sennilega eitthvað fleira. Þá var ekki einu sinni búið að finna upp orðið og ritalinið ekki komið til sögunnar svo ég slapp til allrar hamingju við það. En að flytja af Túngötunni og suður á Laugarveg var eins og að komast langt út í sveit. Leiksvæðið stækkaði og varð bæði fjölbreyttara og skemmtilegra. Maður fékk eiginlega að ólmast úr sér þennan aukakraft og vera maður sjálfur í mun náttúrulegra umhverfi en innan um brotajárnið í Mjölhúsportinu.

Ég man vel eftir að ég fór einhverju sinni í heimsókn í Hlíðarhús, en þar bjuggu tvær ömmusystur mínar. Sigríður sem var kona Snorra framkvæmdastjóra Rauðku og Ólöf mamma Grétu konu Óla Blöndal í Aðalbúðinni og síðar á bókasafninu. Þar kom að mér var hleypt inn í stássstofuna í fyrsta skipti og þótti þá ekki hættandi á annað en mér yrði fylgt eftir hvert fótmál til að gæta þess að ég skemmdi ekkert eða bryti. Svo var fiktið, forvitnin og æðibunugangurinn í mér öllum vel kunnur og greinilega ekki að góðu einu.

 








Dísa á Landsmóti árið 1966. - Ljósmyndasafn Siglufjarðar.


Suðurbærinn var algjör Paradís. Það var mikið farið í fjallið á veturna og þá gjarnan með krossviðsplötu sem stundum hafði verið hituð einhvernveginn og beygð í endann. Á svona plötu gat setið heil hjörð af krökkum og þegar skriður var kominn á hana með krakkahópnum á, var hún auðvitað alveg óstöðvandi og algerlega stjórnlaus. Það varð því allt undan að láta sem fyrir okkur varð og við gátum þess vegna alveg eins endað ofan í fjöru. Við fórum stundum saman heill hópur af krökkum og fundum stórar snjóhengjur til að stökkva fram af. Leiðin lá þá oftast upp í gilin í fjallinu fyrir ofan suðurbæinn og þar á meðal hin stórhættulegu Strengsgil. Við gerðum okkur auðvitað enga grein fyrir hættunni því þetta var svo geðveikt gaman. Svo var mikið haldið til á ísnum á Leirunum og jakahlaupin voru gríðarlega spennandi þrátt fyrir að stundum yrðu slys og svo var skautasvellið á Langeyrartjörn ekki svo lítið vinsælt. Steinprammarnir frá stríðsárunum höfðu líka mikið aðdráttarafl. Þangað var oft róið á kajak og klifrað um borð. Ég tók að sjálfsögðu virkan þátt í kajakasmíðinni og útgerð slíkra farkosta ekkert síður en strákarnir. Þetta var svo sem ekkert flókin smíð, fyrst var fundin bárujárnsplata, hún var barin til og sléttuð, brotin saman til endanna og negld utan um spýtustubba sem urðu stefni og skutur og svo var brætt stálbik til að þétta göt og rifur. Það var líka gaman að vera úti við eftir að dimma tók og minningarnar frá síðkvöldunum fyrir norðan eru alveg ógleymanlegar. Þá var oft látið fallast á bakið ofan í mjöllina og búnir til englar meðan alstirndur himininn glitraði og norðurljósin fóru í stórfiskaleik um himinhvolfið.

 


Aftari röð frá vinstri: Dísa Þórðar, Jóhanna Helgadóttir, Tóta Þórðar, Ester Bergmann og Ingibjörg Dan.

Fremri röð frá vinstri: Erna Erlends, Hilla, Gurra Erlends, Kristbjörg Eðvalds og Dísa Júll.

Guðný Ósk Friðriksdóttir/Ljósmyndasafn Siglufjarðar.


Á sumrin var farið í þessa hefðbundnu leiki svo sem slábolta, yfir, fótbolta, alls konar eltingaleiki og fleira í þeim dúr, en við fórum líka mikið í fjallgöngur og þá var yfirleitt farið hátt upp. Það var líka sótt á Langeyrina þá á hornsílaveiðar með krukkum og stundum jafnvel silungaseyðaveiðar. Við reyndum að veiða með berum höndunum og það kom fyrir að það gekk. Stundum stífluðum við gömlu sundlaugina fyrir sunnan syðstu húsin við Laugarveginn og hún fylltist af vatni. Þá var mikið buslað og synt og alveg rosalegt stuð. Þarna voru oft að leik með okkur systrunum bræðurnir Tommi og Óli Hertivig, Kara Jóhannesar og Hjalli bróðir hennar, Jón Heimir flautuleikari, Guðbjörn Haralds og fleiri og fleiri. Það var líka mikið sport að fara niður á bryggjurnar og pilka, en sumir strákarnir mættu vopnaðir heimatilbúnum skutlum og skutluðu rauðmaga sem héldu sig við bryggjustaurana.

 

Við vorum auðvitað líka stundum svolitlir prakkarar, en allt svoleiðis var nú frekar saklaust og sætt. Það voru einu sinni framkvæmdir í gangi við húsið heima og því vinnupallar utan á því, en konan sem bjó þá á neðri hæðinni hafði nýlega hengt þvott út til þerris. Við tókum okkur stöðu fyrir ofan eldhúsgluggann hjá henni og sprautuðum vatni á rúðuna úr gulum sítrónubelgjum. Þar kom að hún sá að ekki var allt með felldu og hélt greinilega eins og við ætluðumst til að það væri farið að hellirigna. Hún kom þá hlaupandi út og reif þvottinn niður af snúrunni í snarhasti án þess að taka nokkuð eftir því hvað sólin skein skært á bláum himninum meðan hún athafnaði sig úti við. Þetta fannst okkur alveg hryllilega fyndið.

Svo vorum við alveg gríðarlega miklar harðfiskætur, en stundum var settur kvóti á okkur. Þá var gripið til þess ráðs að laumast í hjallinn hinum megin við götuna og krækja sér í fisk.  Svo læddumst við með fiskinn að húsveggnum. Síðan var slakað bandi niður úr kvistglugganum að norðaustanverðu og fengurinn hífður upp. Þá gat veislan hafist og ég er ekki frá því að fiskurinn sem kom í hús þessa leiðina hafi verið heldur betri á bragðið en sá sem kom hina hefðbundnu leið inn um dyrnar.

 

Saltað í Hrímni. - Gunnar Rúnar Ólafsson/Ljósmyndasafn Reykjavíkur.


Þegar ég var lítil fékk ég oft að stússast með pabba ef hann átti einhver erindi sem gátu hentað okkur báðum. Ég man að ég fór oft með honum að heimsækja marga bæði merkilega og skemmtilega karla svo sem Gústa guðsmann sem bjó þá í syðsta brakkanum, Skapta á Nöf, Jóhann Skagfjörð og Þórodd Guðmundsson. Það komu líka alls konar menn heim og aðallega einhverjir útlendir síldarkaupmenn. Ég man eftir rússa sem hafði greinilega slasast illa einhvern tíma, því hann var með gerfikjálka sem hann gat tekið af sér að hluta og það fannst mér svolítið svakalegt. Annar karl var svo feitur að fötin hans slitnuðu bara framan á ístrunni, en það mun hafa verið eftir stýrið á bílnum hans. Hann hefur víst ekki komist fyrir í honum með góðu móti karlgreyið.

Á þessum árum var pabbi búinn að reka Hrímnir í mörg ár þar sem síld var bæði söltuð og fryst til beitu. Auðvitað gekk reksturinn upp og niður eins og hjá öllum öðrum, því það veiddist misvel og markaðirnir voru sveiflukenndir. En mér finnst nú samt að þegar ég hugsa til baka, þá hafi allir hlutir átt vanda til að bjargast alltaf einhvern vegin. Á veturna voru leigð út frystihólf til bæjarbúa og drýgði það tekjurnar ábyggilega eitthvað og ýmislegt fleira var gert. Ég man að pabbi tók að sér gera við alls konar hluti fyrir sjálfan sig, en líka aðra og meðal annars gerði hann upp jeppa sem ég fékk svo að hjálpa til við að mála.

Reksturinn hefur líkast til gengið mjög vel að mig minnir árið 1963. Þá kaupir hann sér splunkunýjan Land Rover af lengri gerðinni og um svipað leyti kaupir hann líka spíttbát sem var einsdæmi á þessum árum. Það leið ekki á löngu þangað til það var farið að þeysa um allt á sjóskíði og ég gleymi ekki hvað það var spennandi að fara inn í bátadokkina og aftur út, því það mátti engu muna að beygjan næðist ekki og þá hefðum við endað með grútarborinn bryggjustaur í fanginu. Einu sinni var lagt upp í heljarinnar leiðangur og farið með bátinn inn á Miklavatn og sjóskíðið fylgdi auðvitað með. Það var auðvitað notað grimmt á vatninu, en ég er ekkert viss um að það hafi svo ýkja margir skíðað mikið þar.

Eftir að síldin var horfin var aftur farið út í útgerð en eftir það framleiðslu á handlaugum, porðplötum og sólbekkjum úr gerfimarmara.


Systurnar Tóta og Dísa í Ítölsku Ölpunum 40 árum eftir ferðina í Austurrísku Alpana 1965 og auðvitað í peysum prjónuðum af móður sinni. - Úr fjölskyldualbúmi.

 

Tilkoma bátsins varð til þess að áhugi á að vitja rótanna vaknaði hjá okkur krökkunum og við lögðum oft leið okkar út á Siglunes. Við komumst þá að því að húsið sem hann langafi hafði reist á sínum tíma var orðið að hænsnakofa. Það fannst okkur mikil óvirðing og við kjöftuðum pabba til að kaupa húsið. Það var gert í samvinnu við syni Siggu frænku systur hans.  Fyrst þurfti auðvitað að moka hænsnaskítnum út, en síðan var húsið gert upp smátt og smátt eins upprunalegt og okkur hefur verið unnt. Í dag er búið að nútímavæða Þormóðshús, komin olíukynding, rafmagnið er framleitt með vindmyllu og svo eru líka sólarsellur þarna.


Blaðaúrklippa úr Degi frá árinu 1964.

 








Ég hef ekki verið meira en átta eða níu ára gömul þegar ég keppti fyrst á skíðum. Það var í göngu einhvers staðar inni í firði og ég man að ég beinlínis hljóp alla leiðina í einum spretti. Ég var alveg þindarlaus þegar ég var lítil og ég man vel að það var síður en svo slæm tilfinning að vera langsamlega fyrst í mark. Svo var nú bara farið að renna sér og maður byrjaði í fjöllunum fyrir sunnan og ofan Laugarveginn. En ég átta mig alls ekki á því hvað varð til þess að ég fékk algjörlega ólæknandi dellu fyrir skíðaíþróttinni. Þetta varð ástríða.  Það gæti auðvitað verið vegna þess hvað mér fannst allt þetta skíðafólk flott og svo hafði ég líka ofboðslega gaman af miklum hraða og að príla. Það var auðvitað stutt í bæði Litla og Stórabola af Laugarveginum og þar voru líka alveg svakalega flottir karlar að stökkva eins og Jónas Ásgeirs, Jón Þorsteins, Heddi á Hólum, Svenni Sveins, Biggi Guðlaugs, Kiddi Rögg og Gunni Guðmunds blessaðir drengirnir. Þeir kepptu svo í norrænni tvíkeppni, þ.e.a.s. stökki og göngu. En konur keppa ekki í stökki, það er víst bara fyrir stráka.

 

Þessi rásnúmer frá landsmótunum 1966 og 1969 eru skemmtilegir minjagripir.

 

En það voru hins vegar alpagreinarnar sem ég lagði fyrir mig. Svig, stórsvig og saman mynduðu þær alpatvíkeppni. Aðstæður til æfinga þættu ekki boðlegar í dag, en voru held ég á þessum tíma ekkert síðri en annars staðar og nægur var snjórinn á Siglufirði. Það var komið upp upplýstri braut fyrir neðan Hvanneyrarskálina og lyftan var spil sem knúið var af traktor og svo var blökk uppi í hlíðinni. Þetta var auðvitað stórhættulegur búnaður, en hann var síðar betrumbættur. Fyrir ofan Hafnarhæðina var mjög skemmtilegt gil sem var kallað Langalaut, en þangað fórum við oft. Einnig upp í hlíðina fyrir sunnan Bolana tvo, en það var líka farið í Strengsgil. Þegar voraði og snjór minnkaði var gengið upp á Stráka og jafnvel upp á Illviðrishnjúk, en þá var ekki farið nema ein ferð niður þann daginn. Ég man óljóst eftir skálanum á Ásnum, en umhverfið þar var hálfgert leiðindasvæði fyrir alpafólkið en hentaði vel til göngu.

 

Siglfirsku skíðakonurnar Stína Þorgeirs, Dísa Júll og Dísa Þórðar. – Steingrímur Kristinsson/Ljósmyndasafn Siglufjarðar.

 

Árin upp úr 1960 voru algjör gullaldarár skíðaíþróttarinnar á Siglufirði. Sveitungar okkar höfðu vissulega oft náð frábærum árangri en nú var hreinlega eins og þeim héldu engin bönd. Mig minnir að það hafi verið á landsmótinu sem haldið var á Akureyri 1962 að við unnum í öllum greinum og Stína Þorgeirs varð fjórfaldur Íslandsmeistari  Ég var mjög ósátt við að fá ekki að keppa þegar ég var 14 ára eða svo því ég gerði mér grein fyrir því að ég væri orðin skrambi góð, en þá var16 ára aldurstakmark á landsmótum. Ég fékk þó að vera undanfari ef mótin voru haldin á Siglufirði og tíminn var tekinn en ég fékk ekki að vita hann, alla vega ekki svona opinberlega. En ég veit samt að ég hefði orðið mjög framarlega ef ég hefði fengið að keppa fyrr, því það kvisaðist nú eitthvað út hvað skeiðklukkan sló. En ég keppti svo í svigi, stórsvigi og alpatvíkeppni á öllum mótum á árunum 1964-69 og vann oftast. Líklega gerði þetta 15 eða 16 Íslandsmeistaratitla og svo vann ég yfirleitt Skarðsmótin líka, en þau voru haldin á Hvítasunnunni.

Ég verð alla tíð ævarandi þakklát foreldrum mínum fyrir að þola alla þessa þörf mína fyrir að losa um þessa miklu orku. Fara ekki með mig til læknis eða eitthvað svoleiðis eða setja mig á lyf.


Dísa Þórðar, Sibbi Jóhanns og Dísa Júll í Skarðinu. - Gestur H Fanndal/Ljósmyndasafn Siglufjarðar.


Eftir Gaggann fór ég í undirbúningsdeild fyrir Kennaraskólann, því ég ætlaði að verða íþróttakennari. En vegna þess að það var aldurslágmark á Laugarvatn lenti ég aftur í því að þurfa að hinkra aðeins eftir tímanum. Ég gerði það og lauk þessu undirbúningsdeildarnámi á tveim árum og fór svo á Laugarvatn í ÍKÍ og útskrifaðist þaðan 1968.  Haustið, sem ég hóf nám í Kennó fór ég til Austurríkis með nokkrum Íslendingum til að æfa í sjálfum Ölpunum. Sú sem aðstoðaði okkur og skipulagði ferðina hét Ellen Sighvatsson, mikill skörungur og í raun mikil velgjörðarkona mín.  Ellen var vel þekkt meðal skíðafólks á þessum tíma. Árið var 1965 og þetta var bókstaflega alveg geggjuð ferð. Í þá daga var ekki algengt að fólk færi í Alpana til skíðaæfinga svo það er rétt hægt að ímynda sér hvort sautján ára stelpa frá Siglufirði hefur ekki notið sín í þær rúmu þrjár vikur sem ferðin stóð. Þarna var bara æft og æft og æft og ég er alveg klár á því að þessi ferð var að nýtast mér í mörg ár á eftir. Ég kom ein frá Siglufirði, Ívar Sigmundsson frá Akureyri var þarna, Hrafnhildur Helgadóttir, Guðrún Björnsdóttir og Georg Guðjónsson úr Reykjavík og svo komu reykvíkingarnir Sigurður Einarsson, Hinrik Hermannsson og Leifur Gíslason nokkrum dögum seinna og slóust í hópinn.  


Merki skíðasvæðisins Enzingerboden í Austurríki.

 








Eftir Íþróttakennaraskólann kenndi ég í Ólafsvík 1968-69 en svo tekur Kennaraskólinn aftur við og ég tek kennarapróf 1971 og stúndentspróf sama ár. Ég fer síðan í Háskólann og lýk prófi í viðskiptafræði 1974, held þá til Chicago og lauk MBA gráðu 1976 frá Northwestern University í Evanston. Eftir það lá leiðin heim til Íslands þar sem ég hef fengist við ýmsan fyrirtækjarekstur ásamt með því að halda heimili og ala upp syni mína tvo Bjarna og Baldur.


Skíðapeysa sem Gréta mamma prjónaði fyrir einhverjum þó nokkuð mörgum áratugum. Tóta bjó til innsetningu úrhenni og gaf stóru systur í sextugsafmælisgjöf.


Í þessum gamla vindlakassa með brotna lokinu eru geymd býsnin öll af verðlaunapeningum og viðurkenningum.

Kassinn hefur í öndverðu geymt Havana vindla sem eru eins og allir vita fyrsti klassi, en nú hýsir hann verðlaunapeninga sem flestir eiga það sameiginlegt að vera veittir fyrir að hafa náð fyrsta sæti. Hlutverk kassans hefur því tiltölulega lítið breyst.

Önnur verðlaun! Þetta er ein af undantekningunum og það þurfti meira að segja að grafa svolítið ofan í kassann til að finna eina slíka medalíu sem var eiginlega svolítið fyndið.


Kvöldið hafði liðið hratt og mikill fróðleikur hafði verið fangaður með aðstoð myndavélarinnar og diktafónsins góða. Nú lá fyrir öðrum okkar að rýna í myndefnið, en hinum að setjast niður fyrir framan skjáinn og hamra lyklaborðið um hríð. Við félagarnir stóðum upp, þökkuðum fyrir frábært kvöld, stigum út í kvöldhúmið og vorum mun betur að okkur um hin margvíslegustu málefni heimabæjar okkar og skíðaíþróttarinnar en þegar við komum.

 

Ljósmyndir: Birgir Ingimarsson

Texti: Leó R. Ólason.


Athugasemdir

21.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst