Viðtal við Róbert Guðfinnsson á Vísi
Viðtal við Róbert Guðfinnsson um uppbyggingu, ferðaþjónustu og framtíðarhorfur á Siglufirði birtist í Fréttablaðinu og á www.visir.is í dag, miðvikudaginn 30. okt.
Hér er viðtalið við Róbert.
Smábátahöfnin hjarta verkefnisins

Róbert Guðfinnsson, athafnamaður og Siglfirðingur, á stóran
þátt í þeirri mikluu sem nú stendur yfir á Siglufirði í tengslum við ferðaþjónustu, afþreyingu og rannsóknir
í líftækni
Róbert hefur í gegnum félagið Rauðku ehf. breytt gömlum fiskvinnsluhúsum við smábátahöfnina á Siglufirði í
veitingahús, kaffihús, skemmtistað og gallerí.
Félagið ætlar einnig að opna nýtt 68 herbergja hótel í bænum og vinnur nú með sveitarfélaginu Fjallabyggð að uppbyggingu
níu holu golfvallar.
Líftæknifyrirtækið Genís hf.,sem er að mestu í eigu fjárfesta sem tengjast Róberti, er síðan að byggja nýja
líftækniverksmiðju í bænum við hliðina á veitingarekstri Rauðku.
Fjárfestingar í tengslum við þessi verkefni sem Róbert er aðili að nema að hans sögn meira en þremur milljörðum íslenskra
króna.
Vildi skapa nýjar tekjur og störf
„Þegar umræðan um Héðinsfjarðargöng fór af stað rétt eftir aldamótinsá maður fram á að hlutirnir gætu
breyst á Siglufirði en áratugina á undan hafði verið eilíf barátta við að halda fólki í samfélaginu,“ segir
Róbert, spurður um hvernig það kom til að hann fór að fjárfesta í ferðaþjónustu og líftækni á
Siglufirði.
„Ég var á þeim tíma einn af stjórnendum og eigendum sjávarútvegsfyrirtækisins Þormóðs Ramma oghorfði upp á
það hvernig tæknivæðing og hagræðing í sjávarútvegi leiddu til fækkunar starfa og einhæfs atvinnulífs. Þá
leituðu menn eftir nýjum tækifærum til uppbyggingar og hvernig hægt væri að skapa nýjar tekjur og störf,“ segir Róbert.
Hann segir að þessar vangaveltur hafi meðal annars leitt til þess að Þormóður Rammi ákvað að stofna fyrirtækið Primex sem vinnur
efnið kítín úr rækjuskel.
„Þegar ég lét af störfum og seldi minn hlut í Ramma árið 2005 þá keyptum við félagi minn, Vilhelm Már Guðmundsson,
ásamt Nýsköpunarsjóði, rannsóknar- og þróunardeildina út úr Primex. Sú eining heitir í dag Genís
hf.“
Í dag starfa fjórir starfsmenn Genís í lítilli þróunarverksmiðju fyrirtækisins á Siglufirði. Áform eru um byggingu
stærriverksmiðju á næstu árum.
„Við uppbyggingu Genís á Siglufirði mun störfum fyrir háskólamenntað fólk fjölga. Það er gríðarlega mikilvægt
fyrir bæinn því störf í svona samfélögum eiga til að vera einhæf.“
Keypti gömul fiskverkunarhús
Sex ár eru liðin frá því að Róbert fór fyrst að fjárfesta í verkefnum tengdum ferðaþjónustu á
Siglufirði. Þá ákvað hann að kaupa gömul fiskverkunarhús í kringum smábátahöfnina í bænum.
„Ég hef lengi unnið að verkefnum erlendis og á ferðum mínum hef ég skoðað mikið af smábátahöfnum sem áður voru
gamlar fiskihafnir en var breytt í ferðamannastaði. Því spurði ég sjálfan mig þeirrar spurningar hvort það væri ekki alveg eins
hægt að byggja upp slík verkefni á stað eins og Siglufirði. Við ákváðum því strax í byrjun að gera
smábátahöfnina í bænum að hjarta verkefnisins,“ segir Róbert.
Við norðanverða smábátahöfnina standa nú veitingahús, kaffihús, skemmtistaður og gallerí Rauðku og við austanverða
höfnina stendur áðurnefnd verksmiðjaGenís.
„Við sunnanverða höfnina ætlum við síðan að byggja 68 herbergja hótel sem verður þrjú þúsund fermetrar að
stærð og verður tekið í notkun vorið 2015. Hótelið hefur fengið nafnið Hótel Sunna, til heiðurs gamalli síldarverkunarstöð
sem stóð áður á þessum reit,“ segir Róbert og bætir því við að öll hús Rauðku, þar með talið
hótelið, séu hönnuð í gömlum stíl til að falla vel inn í umhverfið.
Helmingur hótelsins verður að sögn Róbers byggður á landfyllingu.
„Það var ekki gert vegna þess að það væri skortur á landi á Siglufirði. Ástæðan er sú að hótelið
verður byggt þannig að útsýni verður yfir bátahafnir úr öllum herbergjum þess.Landfyllingin er nú að síga og um leið og
hún verður tilbúin, og þegar veður leyfir, þá munum við hefja framkvæmdir við hótelið.“
Mikil tækifæri á landsbyggðinni
Sveitarfélagið Fjallabyggð og Rauðka stofnuðu á síðasta ári sjálfseignarfélagið Leyningsás sem stendur að uppbyggingu
á nýjum níu holu golfvelli og skíðasvæðinu á Siglufirði.
„Þessi verkefni eru nauðsynleg til að fá aukna breidd í ferðaþjónustuna og gera þetta samfélag meira aðlaðandi fyrir ungt
fólk sem velur Siglufjörð til framtíðarbúsetu. Við sömdum því við sveitarfélagið um að setja eignir
skíðasvæðisins inn í sjálfseignarfélag þar sem skíðasvæðið yrði byggt enn frekar upp og byggður yrði nýr
níu holu golfvöllur. Þessi verkefni voru sett inn í sjálfseignarfélag því við lögðum félaginu til loforð um 300
milljónir króna og þetta félag er að fullu í eigu samfélagsins,“ segir Róbert.
Hann segir það sína skoðun að tækifæri í fjárfestingum í tengslum við ferðaþjónustu á landsbyggðinni hafi
ekki fengið verðskuldaða athygli.
„Ég tel að fjölgun erlendra ferðamanna sé eitt af stærstu tækifærum landsbyggðarinnar til að ná vopnum sínum aftur.
Reykjavíkursvæðið og Gullfoss og Geysir taka ekki við einni og hálfri milljón ferðamanna á ári á næstu tíu árum
eins og nýjustu spár gera ráð fyrir. Því mega þessi samfélög úti á landi ekki vera íhaldssöm og blinduð af
fortíðarhyggju heldur verða þau að nýtatækifærin og einkafjármagnið verður einnig að skynja þessi tækifæri úti
á landi,“ segir Róbert að lokum.
Róbert Guðfinnsson segir mikilvægt að fjölga störfum fyrir háskólamenntað fólk á
Siglufirði. FRÉTTABLAÐIÐ/ARNÞÓR
Viðtal fengið hjá www.visir.is
Athugasemdir