"Siginn fiskur í fjárhúsi"

"Siginn fiskur í fjárhúsi" "Hey, komdu og fáðu þér að éta siginn fisk í fjárhúsunum!!" Þetta var argað á mig út um glugga á bíl á ferð og þar var enginn

Fréttir

"Siginn fiskur í fjárhúsi"

Óli Jóns, Óli Guðbrands og Halli. Ljósmyndari: JHB
Óli Jóns, Óli Guðbrands og Halli. Ljósmyndari: JHB

"Hey, komdu og fáðu þér að éta siginn fisk í fjárhúsunum!!" Þetta var argað á mig út um glugga á bíl á ferð og þar var enginn annar en Haraldur Björnsson eða Halli bó eins og hann er stundum kallaður (hann stoppaði aldrei, bara hélt áfram).

Ég stoppaði í örugglega 5 mínútur og hugsaði með mér hvort ég hafi verið að heyra rétt. Koma og fá mér að éta siginn fisk í fjárhúsunum? Ég hef hingað til ekki verið lengi að hugsa mig um ef mér er boðið eitthvað í minn netta mallakút, en „siginn fisk í fjárhúsum“, þarna var ég alveg á línunni hvort ég ætti að fara eða vera. En ég ákvað að fara.

Ég keyri suðureftir , og hugsa með mér allan tíman "sagði hann virkilega komdu og fáðu þér að éta siginn fisk í fjárhúsunum?" og ég færist nær, svolítið óttablandin tilfinning. Að éta siginn fisk í fjárhúsi hefði mér aldrei dottið í hug að ég ætti eftir að gera. Í fyrsta lagi þá hef ég ekki verið neitt sérstaklega iðinn við að kíkja í fjárhús og í öðru lagi hef ég ekki heldur verið neitt sérstaklega iðinn við að éta "siginn fisk". En fjandinn, ég læt mig hafa það, þetta býðst örugglega ekkert allt of oft hugsaði ég.

Þegar ég kom suður í fjárhús, nánar tiltekið Bóhem (en Bóhem er, held ég, nafnið á fjárhúsunum) tók á móti mér fáni með mynd af rollu með krullum í sér. Svo þegar ég kom nær húsinu tók ég eftir því hversu snyrtilegt þetta var allt saman. Ég átti von á rolluskít, plasti utan af heyrúllunum og ull út um allt. En ó nei, maður minn, þetta var spikk and span bæði að utan og innan. Meira að segja allsérstakar veggskreytingar prýða þar veggi.

Þetta er svolítið flott græja, held að þetta listaverk sé eftir Öllu.

Ég rölti upp og þar eru Halli, Óli Jóns og Óli Guðbrands. Fyrsta sem ég heyri er frá Haraldi. Hvað ertu að gera hérna núna?? Klukkan 11 fyrir hádegi?

Ég varð hálf vandræðalegur og segi "var mér ekki boðið í mat hérna? Siginn fisk?" "Jú það er ekki fyrr en í kvöld, heyrðirðu ekki þegar ég sagði það eða hvað??" svarar Haraldur með sinni ljúfu og elskulegu rödd og mjúku blæbrigðin í röddinni og fögru orðin sem hann notaði þegar hann var að tala við mig minntu mig á ljúfan vorvind sem lék bókstaflega um mig allan. Ég viðurkenndi fyrir honum að ég hefði nú ekki alveg heyrt allt þegar hann keyrði fram hjá mér (hann nefnilega stoppaði ekkert) hann var örugglega kominn lengst suður í fjárhús og ég ennþá fyrir utan ráðhúsið þegar hann sagði "komdu bara klukkan 7 eða 8!!"

Ég fékk nú samt kaffi og fékk að heyra margar skemmtilega sögur og nokkur nöfn á rollum sem Óli Jóns fór sérstaklega lipurlega með að segja mér. "Hérna er "Drottning", þessi dökka þarna, ég gaf Rúnu hana í Jólagjöf" og ég horfði á örugglega 50 dökkar rollur og segi "ha já, einmitt, þessi þarna já" og bendi á einhverja af þessum 50, einhver sem var mér næst minnir mig svona nokkuð sveiflandi hendi svo ég næði að breiða sem allra bezt yfir fáfræði mína í "fjármálum" og næði sem flestum rollum inn í bendinguna. "Ha, nei þessi þarna, sem er ekki með nein horn, þú ert að benda á Ölfu eða Betu sem Gunni Júll á (held ég, það gæti samt vel verið að Alfa, Beta, Delta og Gamma séu allar ljósar, það var þá einhver önnur), þessi þarna er Drottning, þessi hornlausa" segir Óli Jóns.

siginn fiskur í fjárhúsi siginn fiskur í fjárhúsi

Ég get ekki neitað því að ég var ekki alveg viss hvort hann væri að grínast í mér að vita nöfnin á þeim. Fyrir mér var þetta eins og að horfa ofan í kókópuffspakka, mér finnst þetta allt saman eins. Ég svara "Jaaaaaaá, einmitt þessi já", og bendi aftur alveg eins og hálfviti (af hverju er ég að benda þetta alltaf, til að sýna fáfræði mína eða hvað, fjandinn). "Neinei þetta er Miss Dollý (eða eitthvað álíka), "þessi þarna" og þá sá ég loksins hverja hann var að meina þegar hann næstum því stóð ofan á henni og þá var ég fljótur að segja "JÁ AKKÚRAT ÞESSI JÁ!" Trúið mér, þeir þekkja þær allar með nöfnum.

Siginn fiskur í fjárhúsi Siginn fiskur í fjárhúsi

Svo var drukkið meira kaffi og ég fékk að vita ansi hreint skemmtilegar fréttir. Halli er kominn mjög ofarlega á lista yfir kjötmagn og gæði á rollum samkvæmt einhverjum lista frá einhverju rolluráðuneyti. Kominn fyrir ofan Fljótamenn til dæmis. (Ekki vera reiðir við mig Fjlótamenn, ég var vinsamlegast beðin um að sleppa því alls ekki að minnast á þetta og vinsamlegast beðin um að sýna þetta til sönnunar: http://bondi.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=6554. Halli er númer 80)

En svo fer ég og kem ekki aftur fyrr en klukkan 7 um kvöldið og þá var komið að því. Siginn fiskur. Þarna voru komnir eins og mér var tjáð að þeir væru kallaðir , Bófinn, Löggan og Féhirðirinn ásamt syni löggunnar og konu Fjárhirðisins +2. Ég kveið svolítið fyrir því að fá mér siginn fisk í fjárhúsinu þannig að ég fékk mér að éta áður en ég fór. En ég vildi óska þess að ég hefði ekki fengið mér að éta áður en ég fór (maður er stundum bara svo vitlaus). Hrikalega er siginn fiskur „A la Halli bó“ með hömsum góður. Ég átti bara ekki til orð, og það í fjárhúsi. Mér leið örugglega eins og einum af vitringunum þremur eftir að hafa gefið Jesúbarninu í jötunni í fjárhúsinu gjöfina hérna forðum. Þetta var alsæla.

siginn fiskur í fjárhúsi siginn fiskur í fjárhúsi

Svo er kannski vert, fyrst ég var beðinn um það, að taka það fram að rollurnar þeirra hafa ekki verið að plaga bæjarbúa, þeirra rollur eru allar austan megin í firðinum og Héðinsfirði og gera sér víst aldrei bæjarferð.

Svo þegar Rúna var búin að vaska upp (þetta var allt eins og það átti að vera, þeir halda í gömlu hefðirnar, hún sá um uppvaskið). Þá var mér sýnt hvernig ætti að rýja rollu með nýju klippunum og ég verð nú bara að viðurenna að þeir félagar báru sig ansi hreint fagmannlega að þessu en ég tók upp smá myndband af því sem kemur seinna á vefinn.

siginn fiskur í fjárhúsi

Óli Guðbrands sýndi mér líka rolluna sína sem hann hefur skírt svo listilega vel (og ber rollan það nafn með sóma alveg hreint) í höfuðið á Guðrúnu Sif systur sinni og Jóhönnu Þóris mágkonu sinni, og ber hún hið fróma nafn Jóhanna Guðrún (ég veit ekki hvort hann skrifar hana Ólafsdóttur). Nafnið Jóhanna Guðrún Ólafsdóttir á rollu er alls ekki slæmt nafn. Þær hljóta að vera alveg hreint að rifna úr stolti yfir þessari nafngift þær Jóhanna og Guðrún ef ég þekki þær rétt.

Jóhanna Guðrún hin frjósama Jóhanna Guðrún

Ég mæli sterklega með því, ef þú átt þess kost að fá að kíkja í fjárhúsið til þeirra fjélaga þá mundi ég ekki hika. Hrikaleg skemmtilegt að koma þarna og margar góðar sögur fá þar að fjúka sem ekki er leyfilegt, eða reyndar bara alls ekki löglegt, að setja á prent. Svo geti þið skoðað myndirnar hérna fyrir neðan. Og miklu fleiri í myndamöppunni hérna.


Óli ánægður með klippinguna frá Halla Óli ánægður með klippinguna frá Halla

Óli ánægður með klippinguna frá Halla

Halli er skíthræddur við þessa

Hérna er hani sem Halli er drulluhræddur við og haninn heitir Herra Haraldur

Þetta er hún Lóa, mesta frekjan í húsinu..., mamma Zorró

Þetta er hún Lóa, mesta frekjan í húsinu..., mamma Zorró

Halli að reyna að fá koss hjá Ólafi Ragnari

Halli að reyna að fá koss hjá Ólafi Ragnari

 

 

Miklu fleiri myndir hér. 


Athugasemdir

15.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst