17. júní í Fjallabyggð
Hefðbundin dagskrá verður haldin í báðum bæjarkjörnum á 17.júní og verða fánar dregnir að húni klukkan 9:00. Dagskráin hefst síðan klukkan 11:00 á Siglufirði með athöfn við minnisvarða sr. Bjarna Þorsteinssonar þar sem nýstúdent leggur blómsveig á leiðið og í kjölfar þess verður hátíðarræðan.
Þaðan verður hægt að halda í kaffi og kleinu á Kaffi Rauðku á sérstöku þjóðhátíðarverði milli klukkan 11-13 en Síldarhlaðborð verður á svæðinu frá klukkan 12:00.
Síldarminjasafnið opnar klukkan 10-18 og verður Þjóðlagasetrið opið milli klukkan 12-18 og krakkarnir geta skemmt sér á leiksvæði Rauðku milli klukkan 10-20 í minigolfi, sandkassa eða strandblaki.
Klukkan 13:00 verður formleg opnun á myndavélasafninu „Saga Fotografica“ sem stendur yfir til klukkan 15:00. Er það staðsett að Vetrarbraut 17, móti byggingavöruverslun SR. Þetta er nýtt og glæsilegt einkasafn með yfir 200 myndavélum. Myndlistasýning Bergþórs Morthens verður síðan opin milli klukkan 13-16 en þetta er lokadagur þessarar stórglæsilegu sýningar.
Á Ólafsfirði verða hin formlegu hátíðarhöld á vegum Fjallabyggðar og hefst það klukkan 13:00 með knattspyrnuleik KF 7. og 8. flokk. Hátíðin verður síðan sett formega við Tjarnarborg klukkan 14:00 með hátíðarræðu og ávarp Fjallkonu. Í kjölfarið fylgir síðan tónlistaratriði með Magnúsi Ólafssyni og félögum.
Hoppukastalar, geimsnerill, stauraklifur og stærsta vatnsrennibraut landsins verða þá á svæðinu fyrir krakkana til að njóta.
Athugasemdir