"Með ólíkindum“ að ráðherrar sitji heima
Það er sennilega einsdæmi að æðstu kjörnu fulltrúar þjóðarinnar virði þjóðaratkvæðagreiðslu að vettugi. Sagnfræðingur segir það með ólíkindum.
Bæði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra lýstu því yfir í gær að þau hygðust ekki greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, segir að það sé vægast sagt mjög sérstakt.
„Að öllu jöfnu ættu æðstu kjörnu fulltrúar að hvetja fólk til að nýta sér rétt sinn til að kjósa. Ég veit að forsætisráðherra sagði að hún hafi ekki verið að gefa neinum skilaboð, þetta væri bara það sem hún ætlaði að gera, en forsætisráðherra er auðvitað í dálítið sérstakri stöðu. Þetta er í það minnsta óvenjulegt," segir Guðni.
En hvað með önnur ríki, þekkjast einhver dæmi þess að æðstu kjörnu fulltrúar þjóðarinnarhafi virt þjóðaratkvæðagreiðslur að vettugi? „Ég get ekki fullyrt um það, en það verður að ætla að æðstu ráðamenn gangi nú á undan með góðu fordæmi og haldi á kjörstað. Mér þykir nánast hægt að slá því föstu að það séu skilaboðin sem menn vilja koma til fjöldans, að menn noti atkvæðisréttinn. Þetta er eins og annað með ólíkindum, þegar þessi atkvæðisgreiðsla er annars vegar," segir Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur.
Athugasemdir