Aðalatriði og aukaatriði.
Allt þetta getur komið til baka að einhverju leyti ef okkur tekst að reisa atvinnulífið við. Það tekur hinsvegar tíma. Að því þyrfti þó að vinna með öllum árum. Útvega fólki vinnu. En raunverulegt atvinnuleysi hérna er hið skráða atvinnuleysi plús þeir brottfluttu, fjögurþúsund manns. En að þessum málum er ekki verið að vinna sem aðaltriðum heldur er tímanum sóað í karp um aukaatriðin.Það er kannski þessvegna sem fólkið saknar Davíðs. Það saknar einhvers ráðamanns sem tekur af skarið og segir sannleikann og skilur hvar eldurinn brennur.
Steingrímur J. eða Jóhanna eru ekki slíkt fólk. Endurreisnin tekst mun seinna með þeirra ríkisstjórn sem hér er við völd og ekki sér fyrir endann á. Fólk sem heldur að skattheimta sé leiðin sem lækni atvinnuleysi og fjandskapast við alla erlenda fjárfestingu er svo arfavitlaust að engu tali tekur. Fyrst eftir að slíkt fólk er farið frá völdum og öðruvísi hugsandi fólk komið til valda er von til þess að hlutirnir geti farið að lagast á Íslandi. Það fólk þarf ekki endilega að koma úr Sjálfstæðisflokknum, það gæti alveg eins verið að finna innan Samfylkingar eða Vinstri Grænna. Fólk sem þar er nú hugsanlega kveðið niður með aðrar skoðanir en forystufólkið. Auðvitað finnast mér heldur minni líkur á því, að slíkt fólk komi úr þessum flokkum en útiloka það als ekki.
Óskiljanleg áhersla ríkistjóranrinnar á að láta samþykkja Icesave samningana í stað þess að fara dómstólaleiðina setur allar batahorfur þjóðfélagsins aftur um mörg ár. Það er mörgum sinnum betra að láta lögsækja okkur til greiðslu innistæðutrygginganna heldur en að borga eftir samningunum. Ef við töpuðum málinu þá yrði greiðslan væntanlega vaxtalaus eins og skaðabætur eru og svo í íslenzkum krónum en ekki erlendri mynt. Og væntanlega þá bara bætur til einstaklinga en ekki lögaðila eins og lögreglukórsins í Skotlandi, sveitarsjóðs einhvers skírisins eða þessháttar.
Þessi andategund, sem kallast kjósendur fyrir kosningar, bítur höfuðið af skömminni með því að þegja um þessi aðalatriði og láta stjórnmálaskúmana í ríkisstjórnarflokkunum afvegaleiða umræðuna með Evrópusambandstali og löngum ræðum um önnur smámál eins og tímabundna lækkun barnabóta, sem skipta engu máli til lengri tíma samanborið við aðalatriðin. En þau eru ATVINNA og FRAMKVÆMDIR. Það eru þau mál sem munu skilja milli feigs og ófeigs, hvort hér verður landflótti eða landsbjörg.
Fólk þarf að greina milli aðalatriða og aukaatriða.
Athugasemdir