Aðgát í Hólsdal
sksiglo.is | Almennt | 08.07.2014 | 15:30 | Jón Hrólfur Baldursson | Lestrar 359 | Athugasemdir ( )
Hlýindi, úrhellis rigning og óvenjulega mikill snjór í fjöllum olli miklum vatnavöxtum á dögunum. Sem betur fer
virðist ekki hafa orðið mikið tjón á mannvirkjum enda brugðust menn hratt við. Þeirra á meðal voru framkvæmdaaðilar golfvallarins, en
Hólsáin breyttist um tíma í stórfljót. Voru menn uggandi um þau dýru mannvirki sem þar eru komin. Með björgunaraðgerðum,
þar sem vinnuvélar breyttu farvegi árinnar, tókst að koma í veg fyrir alvarleg tjón. Það þykir hins vegar kaldhæðnislegt að
þær skemmdir sem mest eru sjáanlegar nú eru hófaför eftir golfstígnum meðfram Leyningsá að sunnanverðu og eftir endilangri 6. flöt
golfvallarins sem hafði verið sléttuð undir sáningu. Þar hefur t.d. nýlega verið komið fyrir vökvunarstút sem er mjög
viðkvæmur og dýr. Líklegt er að hér sé um að ræða einstakt tilvik sem stafar af hugsunarleysi. Hins vegar er rétt að benda á
að hið nýja golf- og útivistarsvæði er allt mjög viðkvæmt á þessu stigi þar sem verið er að sá í það.
Því getur hin minnsta umferð manna og dýra valdið miklu tjóni.
Upp er komið skilti við norðurenda framkvæmdasvæðisins, þar sem ljósi er varpað á þá margvíslegu
útivistarmöguleika sem þar eru og verða í boði. Eins og fram kemur á skiltinu, þá er almenn umferð vélknúinna
ökutækja um svæðið nú óheimil. Hið sama á við um lausa hunda. Við viljum hvetja bæjarbúa og aðra vegfarendur til að
virða þessar takmarkanir og hjálpa okkur þannig við að gera nýjan golfvöll og útivistarsvæði í Hólsdal sem
glæsilegast.
Edwin Roald
Athugasemdir