Ævintýraóperan Baldursbrá frumflutt í Siglufjarðarkirkju!

Ævintýraóperan Baldursbrá frumflutt í Siglufjarðarkirkju! Laugardaginn 5. júlí var ævintýraóperan Baldursbrá eftir Gunnstein Ólafsson tónskáld og Böðvar

Fréttir

Ævintýraóperan Baldursbrá frumflutt í Siglufjarðarkirkju!

Baldursbrá, ævintýraópera í þremur þáttum
Baldursbrá, ævintýraópera í þremur þáttum

Laugardaginn 5. júlí var ævintýraóperan Baldursbrá eftir Gunnstein Ólafsson tónskáld og Böðvar Guðmundsson frumflutt í Siglufjarðarkirkju.

Um stórmerkilegan atburð var að ræða og trúði ég því varla að ég væri stödd á í kirkjunni okkar Siglufirði að hlusta á þessa fögru tóna sem voru á heimsmælikvarða.

Tilurð þess að óperan var frumflutt hér fræddi tónskáldið okkur um í upphafi. Hann fékk styrk frá Lista- og menningarráði Kópavogs árið 1987. Böðvar Guðmundsson tók að sér að semja óperutextann og skilaði honum af sér í byrjun árs 1988. Fyrsta gerð hennar var síðan tilbúin í október 1988 en ekkert varð úr flutningi hennar að sinni.

 Snemma árs 2012 dustaði Gunnsteinn rykið af verkinu og endurskrifaði hann verkið að stórum hluta. Vann hann að þessum breytingum að stórum hluta á Siglufirði. Akkúrat hér við píanóið í Siglufjarðarkirkju. Nefndi hann að ef píanóið væri tekið í DNA greiningu segði það sögu hans um blóð, svita og tár við fæðingu þessa verks.

Svein Einarsson leikstjóri gekk síðan í lið með Gunnsteini um sviðsetningu og söngvaraval. Kristín Bergmann teiknaði búninga, Katrín þorvaldsdóttir sá um grímur, Siglfirðingurinn Sigurjón Jóhannsson gerði skissur að leikmynd. Ingibjörg Björnsdóttir danskennari aðstoðaði með hreyfingar yrðlinga og Gunnar Júlíusson teiknaði mynd til kynningar á verkinu.

Flytjendur sögupersóna voru Fjóla Nikulásdóttir sópran, Eyjólfur Eyjólfsson tenór, Jón Svavar Jósefsson barítón og Davíð Ólafsson bassi. Hópur ungmenna fóru með hlutverk yrðlinga og undir lék hljómsveit með snilldar tónlistarmönnum.

Fjölmargir listamenn lögðu fram óeigingjarna vinnu til að tónleikarnir mættu verða að veruleika en ekki fengust neinir styrkir úr listasjóðum ríkisins til að setja hana á svið. Hún verður þrátt fyrir það sett upp á tvennum tónleikum.



Mikill fjöldi tónleikagesta á öllum aldri fylltu Siglufjarðarkirkju


Glæsilegir söngvarar fóru með hlutverk sögupersóna
ásamt hópi ungmenna sem fóru með hlutverk yrðlinga


Börn á öllum aldri lifðu sig inn í ævintýrið


Ásdís Gunnlaugsdóttir á tali við frænku sína Hallfríði Ólafsdóttur flautuleikara og höf­und­ bók­anna um mús­ina Maxímús Mús­íkús, sem nýverið fékk riddarakross fyrir frumkvæði að tónlistaruppeldi æskufólks.


Mikil leikræn tilþrif voru þegar hrúturinn rífur Baldursbrá upp með rótum


Sveinn Einarsson leikstjóri og fyrrverandi Þjóðleikhússtjóri fangnar stórkostlegum frumflutningi verksins ásamt öllum öðrum gestum. Vona svo sannarlega að landsmenn fái að njóta þessarar skemmtunar á fjölum Þjóðleikshússins.


Gunnsteinn Ólafsson tónskáld, kraftmikill á frumsýningu tónsmíðar sinnar

Myndir og texti: Kristín Sigurjónsdóttir


Athugasemdir

22.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst