Álftirnar og fleiri álftir

Álftirnar og fleiri álftir Ljósmyndarinn varð vitni af óvenjulegu álftaævintýri á Siglufirði og inni á firði í dag. Það fyrsta hófst er honum var sagt frá

Fréttir

Álftirnar og fleiri álftir

Á Siglufirði, á móts við Bakkatjörn
Á Siglufirði, á móts við Bakkatjörn
Ljósmyndarinn varð vitni af óvenjulegu álftaævintýri á Siglufirði og inni á firði í dag. Það fyrsta hófst er honum var sagt frá 14 álftum sem voru á firðinum rétt norðan við heimil hans.

Myndavélin var auðvitað tekin með á hlaupum og staður valinn til myndatökunnar, sem var við rolluhliðið á veginum út að Gati. Ein af þeim myndum sem þar voru teknar er hér til hliðar á síðunni.

Fylgst var með álftunum um stund, en þær færðu sig rólega suður í átt að Hvanneyrarkrók og dvöldu þar góða stund.

Siggi prestur sem einnig hafði komið þar á vettvang ásamt Sveini Þorsteins (og auðvitað með myndavélar sínar) sagði að sennilega væri Siglufjörður áningastaður álftanna á leið þeirra eitthvað lengra, og væru sennilega að hvíla sig eftir langt flug.

Siggi hafði á orði að búast mætti við einhverjum hamagangi ef þessar 14 færu innar í fjörðinn, til dæmis í nánd við Langeyrartjörn.
En þar var álftaparið OKKAR farið að reita gras í hólmanum til undirbúnings að hreiðurgerð og aðrar álftir ekki þangað  velkomnar.

Orð Sigga reyndust á traustum grunni, því klukkan 14:55 er ljósmyndarinn mætti fram á Langeyrarveg, eftir að hafa séð álftirnar 14 hefja sig til flugs og stefna suður, þá sá hann er þangað kom með sjónauka mikla baráttu þriggja álfta við vesturkant flugvallarins, sú barátta endaði með því að einn fuglinn lá hreyfingarlaus í fjöruborðinu, annar hinna „flúði“ af vettvangi með þriðju álftina á eftir sér.

Sá fugl snéri fljótlega við og fór að stumra yfir hreyfingarlausri álftinni í fjöruborðinu, stugga við henni án árangurs.
 En sigurvegarinn snéri við svona til að skoða vettvanginn eftir orrustuna og láta vita að betra væri að vera ekki með neinn yfirgang.  Þessu öllu fylgdi mikill hávaði og gagg sem greinilega heyrðist yfir á Langeyrarveg.

Hinar aðkomuálftirnar voru í hóp talsvert norðar og létu sig lætin engu skipta.

Álftin sem legið hafði hreyfingarlaus  í fjörunni um nokkra stund, rankaði við sér og maki hennar (sennilega) lét óspart í ljós ánægju sína.

Af hinni álftinni sem sigrað hafði í baráttunni, flaug í nokkra hringi með gaggi sem féll maka hans vel  í eyru, makinn var rétt við hólmann í Langeyrartjörn, og hóf flugið til bónda síns, en þarna á þessu augnabliki kom einmitt í ljós að þetta var OKKAR álftapar og hafði karlinn hennar verið að verja svæði þeirra með góðum árangri, þó svo að vígvöllurinn hafi greinilega orðið á öðru svæði, en þau hjón fögnuðu ákaft eftir lendingu á miðjum Leirunum. 
Þau færðu sig síðan að fjöruborðinu við flugvöllinn um 100 metrum sunnan við álftahópinn sem nú var ekki nema 11 fuglar sem höfðu komið sér í svefnstellingar, eða hvíldarstöðu.

Hvar hinir þrír fuglarnir voru vakti forvitni ljósmyndarans sem ákvað að huga af þeim ef þeir væru austan flugbrautar.
Þar sást til eins þeirra nánast upp við veginn, en í sama mund tóku álftirnar OKKAR sig til flugs til suðurs og síðan sveig til norðurs í átt til álftahópsins.
Ljósmyndarinn tók skyndiákvörðun og þrýsti  fast á bensínpinna bifreiðar sinnar og hélt inn á flugvöllinn því álftirnar okkar settust í um 50 metra fjarlægð frá hópnum og byrjuðu að ögra þeim.

Hópurinn stuggaðist og tók flugið og lenti á tjörninni rétt framan við heimili Örlygs og Guðnýjar.
Þangað eltu OKKAR álftir og héldu áfram ögrun sinni sem endaði með því að hópurinn tók flugið enn á ný og hélt langt út á fjörð þar sem þær settust.

OKKAR álftir tóku flugið stuttu seinna og lentu á heimavelli, það er við Langeyrarhólma og tóku að næra sig á botngróðri tjarnarinnar  eins og ekkert hefði í skorist.
Óvinurinn hafði verið hrakinn á brott.
 
Vel á annað hundrað ljósmynda voru teknar frá þessu álftaævintýri í dag og nokkrar þeirra valdar til birtingar, en þær myndir má sjá HÉR 


Athugasemdir

27.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst