Alvarleg skilaboð til Sjálfstæðisflokksins
Aðeins ríflega
16% landsmanna eru ánægð með störf stjórnarandstöðunnar og hefur
ánægjan með störf hennar minnkað umtalsvert frá því í vor, að því er
kemur fram í þjóðarpúlsi Gallup. Í vor voru 22% ánægð. Óánægja með störf
stjórnarandstöðunnar eykst því. Sex af hverjum tíu eru óánægðir með
störf hennar nú samanborið við 54% í vor.
Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að endurheimta stöðu sína sem kjölfesta í íslenskum stjórnmálum verður hann að endurnýja traust og trúnað við launþega og atvinnurekendur. Sú endurnýjun verður ekki nema forystumenn flokksins viðurkenni af einlægni að þeir misstu stjórn á útþenslu ríkisins og sofnuðu á verðinum. Sjálfstæðisflokkurinn verður að játa að á meðan hann stóð vaktina náði fámennur hópur viðskiptajöfra að sölsa undir sig stóran hluta fjölmiðla, verslunar og fjármála. Til urðu öflugar viðskiptasamsteypur vegna þess að eigendur þeirra nutu óeðlilegrar fyrirgreiðslu. Með því tókst að kæfa eða lama keppinauta. Margir hæfileikaríkir stjórnendur fyrirtækja hafa lotið í lægra haldi fyrir ójafnri og óeðlilegri samkeppni.
Sjálfstæðisflokkurinn gaf Íslendingum ákveðin loforð og flokkurinn verður að viðurkenna í fullkominni hreinskilni, að í hraða nýrrar aldar og í sjálfumgleði velgengninnar, misstu menn á stundum sjónar á því sem mestu skiptir og er rist í steintöflur sjálfstæðisstefnunnar.
Þegar sjálfstæðismenn segja: Gjör rétt, þol ei órétt, má það ekki vera innantómt loforð. Í orðunum felst djúpstæð sannfæring fyrir því hvers konar þjóðfélagi flokkurinn berst fyrir. Sjálfstæðisflokkurinn á að standa fyrir sjálfstæðu íslensku samfélagi sem byggir á krafti allra og sanngirni í garð hvers annars og að þeim sem hjálpar er þurfi verði komið til hjálpar. Gjör rétt, þol ei órétt, vísar til þess að sanngirni og virðing sé í öllum samskiptum – tekin sé staða með kaupmanninum á horninu sem berst ójafnri baráttu gegn öflugu viðskiptaveldi, sem allt ætlar að gleypa, að barist sé fyrir dugnaðarforkinn sem setti allt sitt undir við rekstur hjólbarðaverkstæðis og berst nú fyrir lífi sínu gegn ofvöxnum risa. Gjör rétt, þol ei órétt, vísar til þess að sjálfstæðismenn vilja byggja upp frjálst viðskiptalíf þar sem heiðarleg og sanngjörn samkeppni fært að njóta sín.
Gjör rétt, þol ei órétt, vísar ekki aðeins til þess loforðs sjálfstæðismanna að tryggja hér heilbrigt og kraftmikið atvinnulíf. Þetta er loforð um að tryggja samfélag samhjálpar og náungakærleika. Samfélag þar sem þeir sem minnst mega sín eigi öfluga talsmenn – harða baráttumenn fyrir velferðarþjóðfélagi sem Sjálfstæðisflokkurinn átti öðrum fremur þátt í að byggja upp. En um leið verður að koma böndum á ríkið og hið opinbera. Sjálfstæðisflokkurinn verður að standa gegn því að ríkið seilist æ dýpra í vasa skattborgarana. Og engir gera sér betur grein fyrir þeirri einföldu staðreynd að ekkert þjóðfélag fær þrifist án öflugrar millistéttar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei gegnt mikilvægara hlutverki en einmitt nú þegar skipulega er reynt að útrýma millistéttinni. Ríkisstjórn hinnar norrænu velferðar telur það sérstaklega eftirsóknarvert að kæfa millistéttina – kæfa hinn venjulega Íslending – sjómanninn, kennarann, bóndann, iðnaðarmanninn og verslunarmanninn. Millistéttin – bakbeinið í íslensku samfélagi – á undir högg að sækja og lítur til Sjálfstæðisflokksins. Hið inngreypta loforð að gjöra rétt og þola ei órétt, er krafa millistéttarinnar til Sjálfstæðisflokksins. Þeirri kröfu verða forystumenn flokksins á Alþingi og í sveitarstjórnum að svara. Annars mun flokkurinn ekki ná sínum fyrri styrk.
Sjálfstæðisflokkurinn verður að endurnýja sáttmála við millistéttina og við sjálfstæðu atvinnurekendurna sem hafa lagt allt sitt undir. Slíkur sáttmáli er forsenda nýrrar sóknar.
Athugasemdir