Alvarlegar blikur á lofti – samstarf í uppnámi

Alvarlegar blikur á lofti – samstarf í uppnámi Strax í kjölfar þess að efnahagskerfi okkar hrundi í byrjun október 2008 setti Alþýðusamband Íslandssér

Fréttir

Alvarlegar blikur á lofti – samstarf í uppnámi

Gylfi Arnbjörnsson
Gylfi Arnbjörnsson
Strax í kjölfar þess að efnahagskerfi okkar hrundi í byrjun október 2008 setti Alþýðusamband Íslands
sér skýr markmið um að verja yrði hag launafólks og heimilanna. Lögð var áhersla á þann gríðarlega
greiðslu- og skuldavanda sem blasti við og að unnið yrði hratt að endurreisn efnahags- og atvinnulífs.
Markmiðið var skýrt og verkefnið stórt því draga varð úr tekjutapi og kaupmáttarrýrnun launafólks og
skapa forsendur fyrir fjölgun starfa til þess að mæta hratt vaxandi atvinnuleysi.Þrátt fyrir langan meðgöngutíma og tregðu í kerfinu hefur okkur loks tekist að knýja ríkisstjórnina til
verulegra breytinga á réttarstöðu skuldara við gjaldþrot og réttlátari og skilvirkari úrræði til
greiðsluaðlögunar skulda. ASÍ lítur á það sem sitt verkefni að fylgja þessum tillögum eftir í samstarfi
við nefndir Alþingis og síðan að tryggja að löggjöfinni verði hrint í framkvæmd þannig að fólk njóti
þeirra réttarbóta sem unnið hefur verið að.

Þá lögðum við, í samstarfi við aðra aðila á vinnumarkaði, mikilvægan grunn að samstarfi við hið
pólitíska vald í landinu og nokkru fyrir kosningar vorið 2009 voru sett niður töluleg markmið um helstu
lykilhagstærðir í árslok 2010 og fram til ársins 2013. Markmiðið með þessum stöðugleikasáttmála var
að verja grunnstoðir velferðarkerfisins samhliða endurreisn efnahags- og atvinnulífsins. Þá hefur
Alþýðusambandið lagt áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um norræna vinnumarkaðsmódelið
þar sem saman fari kjarasamningar öflugra samtaka á vinnumarkaði og traust löggjöf um
lágmarksréttindi. Jafnframt höfum við bent á nauðsyn þess að öflugar stofnanir á vinnumarkaði sem
lúta sameiginlegri stjórn aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda hafi burði og yfirsýn til að sinna sínu
verkefni.

Ljóst er að skort hefur á samstöðu um framkvæmd stöðugleikasáttmálans þar sem ótrúlegs
seinagangs hefur gætt af hálfu stjórnvalda við að koma ákvörðunum í framkvæmd. Ég ætla ekki að
rifja upp atburðarásina eða tína til þá einstöku þætti sem ekki hafa verið efndir. Það er hins vegar mín
skoðun að meginástæða þessa samstöðuskorts um efndir, sé að við erum við að glíma við djúpstæða
pólitíska, hugmyndafræðilega og stjórnskipunarlega kreppu, ofan í gjaldeyris- og fjármálakreppuna. Á
ársfundi ASÍ í október 2008 vöruðum við við því að pólitísk upplausn ofan í gjaldeyris- og
efnahagshrunið gæti dýpkað kreppuna enn frekar og tafið fyrir endurreisninni. Því miður erum við að
upplifa þá stöðu núna. Stjórnmálavaldið, bæði stjórnarflokkarnir og stjórnarandstaðan í landinu hlaupa
í sífellu útundan sér með lýðskrumi og endalausu málþófi, þar sem hagsmunir þjóðarinnar virðast ekki
vera í fyrsta sætinu.

Síðustu vikuna hafa samskipti Alþýðusambandsins við ríkisstjórn og Samtök atvinnulífsins verið afar
stirð. Úthlaup SA úr samstarfi um endurreisn efnahags- og atvinnulífsins að kröfu LÍÚ vegna deilu um
skötusel er að okkar mati algerlega óásættanlegt. Haldi SA þessu til streitu er það okkar krafa að
atvinnurekendur efni þegar þær launahækkanir sem frestað var á grundvelli þess samstarfs sem SA er
að segja sig frá.

Um miðja síðustu viku sendi síðan miðstjórn ASÍ ríkisstjórninni harðort bréf vegna framgöngu félagsog
tryggingamálaráðherra um breytingar á lykilstofnunum vinnumarkaðarins. Með tillögunum stefndi í
að rofin yrði áratuga sátt um samstarf og samábyrgð aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um þróun
og uppbyggingu vinnumarkaðarins. Slíkt hefði verið í hrópandi andstöðu við markmiðið um endurreisn
efnahags- og atvinnulífsins á grundvelli hugmyndafræði hins norræna velferðarkerfis. Einnig
gagnrýndum við það að þurfa að standa í síendurteknum deilum við ríkisstjórnina til að tryggja réttindi
allra félagsmanna aðildarfélaga ASÍ til starfsendurhæfingar en allt að 1/3 félagsmanna okkar eru ekki
tryggðir í dag þar sem launagreiðendur þeirra standa utan SA.

Það er því fagnaðarefni að samkomulag náðist nú í vikunni milli ASÍ og félags- og
tryggingamálaráðherra um sameiningu Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlitsins með óbreyttri aðkomu
aðila vinnumarkaðarins að stjórn nýrrar stofnunar. Jafnframt verður skipuð nefnd með fulltrúum
vinnumarkaðarins sem fjalla mun nánar um skipulag og verkefni nýrrar Vinnumarkaðsstofnunar. Þá
var fallist á kröfu ASÍ um að nefndin ræði einnig mögulegar breytingar á verkaskiptingu milli stjórnvalda
og aðila vinnumarkaðarins, m.a. varðandi málefni atvinnulausra. Loks náðist samkomulag við
fjármálaráðherra um nauðsynlega lagasetningu til að tryggja réttindi allra launamanna til
starfsendurhæfingar.

Eftir stendur hins vegar meginmálið – aðgerðaleysi í atvinnumálum! Meira er 15.000 Íslendingar eru án
atvinnu og stórir hópar hafa þurft að taka á sig mikla skerðingu á vinnutíma og kjörum. Á
formannafundi aðildarsamtaka ASÍ 29. mars s.l. kom fram hörð gagnrýni á bæði ríkisstjórn og
stjórnarandstöðu fyrir aðgerðaleysi. Einnig var mikil óánægja með ákvörðun SA um að segja sig frá
stöðugleikasáttmálanum. Samtök atvinnulífsins geta ekki hlaupið burt því forsenda samkomulags
okkar við SA um frestun launahækkana byggði á samstarfi um endurreisn og fjölgun starfa. Þá geta
menn ekki látið þrönga hagsmuni útgerðarmanna setja hagsmuni þjóðarinnar í slíkt uppnám.
Með gerð stöðugleikasáttmálans hefur verkalýðshreyfingin og allt launafólk axlað mikla ábyrgð með
það að markmiði að stuðla að endurreisn efnahags- og atvinnulífsins á grundvelli siðferðis,
samfélagslegrar ábyrgðar á grundvelli norræna velferðarkerfisins.

Það er ljóst að samstarfið við
ríkisstjórn hefur ekki gengið eins vel og ASÍ hefði kosið og stöðugleikasáttmálinn ekki reynst sá
vettvangur sem við væntum, m.a. vegna þess að stjórnvöld hafa ekki litið á hann sem forsendu
ákvarðana. Hvað sem þessu líður stendur verkefnið eftir óleyst og enn brýnna nú en áður að finna
lausnir sem gagnast fólki og fyrirtækjum. Fólkið okkar býr við mikinn vanda vegna minnkandi
kaupmáttar, tekjulækkunar og vaxandi fjöldi má þola nánast algjöran tekjumissi vegna atvinnuleysis.
Þessi framkoma samstarfsaðila okkar er því með öllu óásættanleg og ekki verður við hana unað.
Alþýðusamband Íslands mun hins vegar ekki hlaupast undan ábyrgð og krefst þess að bæði
stjórnmálavaldið í landinu og atvinnurekendur komi að borðinu.

Alþýðusambandið telur í ljósi þessara aðstæðna mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins setjist aftur að
rökstólum í Karphúsinu, horfi aftur til þeirra markmiða sem sett voru í mars 2009. Endurskoði þau ef
með þarf og leiti eftir endurnýjuðu samstarfi við bæði ríkisstjórn og stjórnarandstöðu þannig að tryggt
verði að mál sem þurfa að fara í gegnum Alþingi hafi nægan þingstyrk. Þá þarf að kalla eftir virkari
aðkomu sveitarfélaganna að því uppbyggingarstarfi sem framundan er.

Endurreisn atvinnulífsins og baráttan gegn atvinnuleysi eru brýnustu verkefni næstu mánaða og
missera.

Athugasemdir

05.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst