Bankaleyndin og Skattmann, í þágu hverra?
Í dag er tími sparnaðar í ríkisútgjöldum. Þeir sem minnst mega sín verða gjarnan fyrstir til að líða fyrir þegar stjórnvöld ætla að spara. Á sama tíma erum við sem samfélag (þ e a s við skattgreiðendur) beinlínis að "eyða peningunum okkar” í að borga atvinnuleysisbætur og ýmsar aðrar tekjutengdar bætur til fólks sem er í fullri vinnu - svartri vinnu!
Ég er sjálf bankamaður og kýs almennt að fjalla ekki hér á síðunni um málefni sem tengjast starfsvettvangi mínum. Ástæðan er þessi: ég stofnaði þessa bloggsíðu á sínum tíma hér á mbl.is einfaldlega til að fjalla um tómstundaiðju mína og áhugamál þeim tengd og misgóðar hugdettur af ýmsu tagi.
Nú ætla ég að gera undantekningu og fjalla aðeins um fyrirbærið bankaleynd.
Bankaleynd er þagnarskylda sem hvílir á fjármálastofnunum. Í bankaleyndinni felst trúnaðarsamband milli bankamannsins og viðskiptavinar hans svipað og milli læknis og sjúklings, lögmanns og skjólstæðings. Bankaleyndin er í gildi um allan heim og er lögbundin.
Svo virðist sem ýmsir aðilar telji nú að hún eigi ekki lengur við ekki síst gagnvart skattayfirvöldum er talað um að aflétta megi bankaleyndinni til að komast hjá hugsanlegum undanskotum fólks og fyrirtækja. Það er staðreynd að lög vernda ekki bara löghlýðna borgara heldur líka lögbrjóta. Á bak við bankaleyndina telja margir að þrífist mikil spilling. Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra hefur haldið því fram að bankaleyndin hafi í reynd verið það sem gaf bönkunum möguleika á því að vaxa fram úr hófi sem síðan orsakaði hrunið á Íslandi.Vissulega má færa rök fyrir því að bankaleynd komi í veg fyrir að eðlilegir hlutir komi fram í dagsljósið. Vilji menn gera breytingar á núverandi fyrirkomulagi um bankaleyd þarf að tryggja að bankaleynd haldi þar sem hún á að halda.
_______
Í lögum um fjármálafyrirtæki er að finna skilgreiningu á bankaleynd, en hún var birt í úttekt Markaðarins fyrir nokkru. Þar var rætt um þagnarskyldu um hvaðeina sem starfsmaður fjármálafyrirtækis verður áskynja í starfi sínu. Í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga er bankaleyndin ekki skilgreind sérstaklega eða flutt fyrir henni rök. Hún þykir svo sjálfsögð að rætt er um „almenn" ákvæði um bankaleynd. Bankaleyndin virðist vera einhvers konar óskoruð grunnregla. Forsenda sem ekki þurfi að rökstyðja. Þá eru almannahagsmunir ekki alltaf taldir liggja í þagnarsambandi bankans við viðskiptamann sinn. Ríki á meginlandi Evrópu berjast gegn skattaparadísum og krefjast upplýsinga. Þýsk yfirvöld borguðu stórfé fyrir skrá um viðskiptavini banka í Liechtenstein. Sama gerðu önnur ríki. Hæstiréttur hefur dæmt að skatturinn geti fengið upplýsingar sem alla jafna bankaleynd hvílir yfir. Bæði Ríkisskattstjóri og viðskiptaráðherra hafa bent á að þetta traust, bankaleynd, megi ekki verða til þess að menn komist upp með að svíkja samborgara sína; stinga undan skatti. Bankaleyndinni sé ekki ætlað að vera skálkaskjól.
______
En það er önnur hlið á þessum pening eins og flestum öðrum. Bankaleyndin virðist hætta að eiga við um leið og einhver lendir í vanskilum. Þá er í lagi, ekki einungis að birta fjárhagsupplýsingar einstaklinga, heldur að selja þær. Og það með opinberu leyfi. Um leið og einhver lendir í vanskilum, þá hættir bankaleyndin að vera grundvallarmál og verður í staðinn praktískt úrlausnarefni þess sem þarf að innheimta. Svo hugsar maður til saksóknara og afnáms bankaleyndar. Er það lögbrot að lenda í vanskilum? Stjórnvaldið sem veitir söluleyfið segist raunar ekki líta á fjárhagsupplýsingar sem viðkvæmar persónuupplýsingar og þannig eru lögin. Einhver gæti orðað það svo að það sé í lagi að sparka í þann sem liggur, en bannað að líta hvað þá að benda í áttina að öðrum.
_____
Þegar erfiðir tímar eru er mikilvægt að skoða orsök og afleiðingar en það er ekki síður mikilvægt að horfa fram á veginn og vanda til verka um þær umbætur sem gerðar eru m a á löggjöf. Ráðstafanir sem gerðar eru vegna skammtímasjónarmiða geta orðið skaði þegar til langs tíma er litið. Aflétting bankaleyndar vegna upplýsinga til skattayfirvalda finnst mér vel hægt að færa rök fyrir í jafn skuldsettu ríki og Ísland er. Hinsvegar ef við afléttum bankaleynd alfarið á Íslandi, vegna þeirra mála sem nú eru til úrlausnar getum við átt á hættu að bæði einstaklingar og fyrirtæki kjósi einfaldlega að eiga sín bankaviðskipti annarsstaðar þar sem bankaleyndin er í gildi.Að lokum vil ég vitna í orð Geirs Haarde fyrrv ráðherra frá 6.mars 2003 (sjá tilvitnun hér):
"Hið nýja og opna umhverfi í viðskiptum og fjármálum á ekki að vera
gróðrarstía spillingar og skattundandráttar heldur þvert á móti
farvegur fyrir heiðarlega starfsemi öllum til ávinnings".
Grein um bankaleynd eftir Gylfa Magnússon
Komið að endurskoðun á umgjörð fjármálakerfisins | |
Athugasemdir