Bátssmíðin í Slippnum vekur athygli
Smíði litla árabátsins í Slippnum hefur vakið mikla athygli. Þar hefur m.a. ágæt umfjöllun fjölmiðla haft sitt að segja. Ætla má að nærri þrjú hundruð gestir hafa lagt leið sína á staðinn og allnokkuð hefur verið um það að menn hafi komið sérstaklega til Siglufjarðar til að kynna sér verkið.
Þannig komu t.d. undir lok júlímánaðar þrír bátasmiðir vestan af landi sem smíðuðu árabátinn Vinfast á Reykhólum fyrir nokkrum árum - en þá má telja ákveðna frumkvöðla í þeirri viðleitni að endurheimta og varðveita þessa fornu verkmenningu.
Þá komu nokkrir gamlir eyfirskir bátasmiðir nú fyrir skemmstu í sérstaka heimsókn í Slippinn og gáfu sér góðan tíma til að skoða smíðina, rifja upp gamlar minningar úr Slippnum á Akureyri og ræða við Skúla Thoroddsen trésmið Síldarminjasafnsins. Þeirra á meðal var Jóhann Már Jóhannsson, sá frægi söngvari og bóndi. Fleiri dæmi mætti nefna um slíkar heimsóknir.
Þegar þetta er ritað, í hádeginu á föstudegi, er báturinn fullsmíðaður og verður brátt fluttur úr gömlu bátasmíðastöðinni sem safnið hefur haft afnot af nú í tvo mánuði.
Á myndinni eru Hafliði Aðalsteinsson, Björn Lillevoll. Hjalti Hafþórsson og Eggert Björnsson.
-ök
Athugasemdir