Birkir sækist eftir varaformannsembætti

Birkir sækist eftir varaformannsembætti Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hyggst bjóða sig fram til embættis varaformanns flokksins á

Fréttir

Birkir sækist eftir varaformannsembætti

Birkir Jón Jónsson. Ljósmynd visir.is
Birkir Jón Jónsson. Ljósmynd visir.is
Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hyggst bjóða sig fram til embættis varaformanns flokksins á komandi flokksþingi sem verður í janúar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Birki til fjölmiðla. Þar segir þingmaðurinn að mikil umbrot einkenni íslenskt samfélag, þjóðin standi á krossgötum og við blasi mikið uppbyggingarstarf. Nýir tímar kalli á breytingar og lausnir. Birkir segist hafa fengið margar áskoranir að undanförnu um að sækjast eftir forystuhlutverki í Framsóknarflokknum á næsta flokksþingi.
„Mér þykir vænt um þá hvatningu og stuðninginn sem í henni felst. Jafnframt tel ég að ungt fólk eigi að ganga fram fyrir skjöldu eins og ástatt er því að næstu kosningar munu fremur en áður snúast um lausnir og hvert beri að stefna til framtíðar. Á þessum tímamótum á Framsóknarflokkurinn að standa undir nafni og sækja fram, vera skýr valkostur í íslenskum stjórnmálum. Ég treysti mér til slíkra verka og vil leggja mitt af mörkum til að sameina framsóknarmenn um nauðsynleg úrlausnarefni og vinna í samhentri forystu fyrir flokkinn. Að vel ígrunduðu máli er það niðurstaða mín að bjóða mig fram til varaformanns fyrir Framsóknarflokkinn á komandi flokksþingi," segir Birkir sem er 29 ára og hefur verið þingmaður frá árinu 2003.
„Grundvallarhugsjónir mínar kristallast í því að ég vil byggja upp á Íslandi mannvænlegt samfélag samvinnu og jafnaðar þar sem lýðræði og mannréttindi eru í hávegum höfð. Samfélag þar sem allir hafa jöfn tækifæri, óháð efnahag eða búsetu. Þjóðfélag framtíðarinnar þarf að byggja á aukinni þátttöku almennings í allri ákvarðanatöku, raunverulegri þrískiptingu ríkisvaldsins þar sem Alþingi skipar þann sess sem því ber í lagasetningu og aðhaldi gagnvart framkvæmdavaldinu, og heiðarleika þar sem leitast er við að ná fram sanngjörnum niðurstöðum með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna. Fólk og velferð þess á að vera í öndvegi þess nýja samfélags sem við munum byggja upp á næstu árum. Forysta Framsóknarflokksins á að sækja fram með fólk í fyrirrúmi og manngildi ofar auðgildi. Að því vil ég vinna," segir Birkir enn fremur.

Athugasemdir

27.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst