Bolludagur á Íslandi
http://is.wikipedia.org/wiki/Bolludagur | Fréttir á landsvísu | 15.02.2010 | 07:00 | | Lestrar 389 | Athugasemdir ( )
Á Íslandi er ung hefð fyrir því að borða bollur á þessum degi. Bollurnar eru oftast bornar fram með sultu og rjóma innan í og hattur bollunnar skreyttur með súkkulaðihulu. Oftast er um tvær tegundir af bollum að ræða: vatnsdeigsbollur (sem eru mjúkar og frauðkenndar) og gerdeigsbollur (sem eru öllu fastari í sér). Bollur bolludagsins breytast lítið frá ári til árs, en bolluskrautið breytist alltaf lítillega eftir smekk tímans.
Bolluátið mun vera leifar af því „að fasta við hvítan mat“, en áður fyrr nefndu menn mjólkurmat hvítan mat. Bolluát og feitmetisát virðist á öðrum Norðurlöndum reyndar hafa verið meir bundið við þriðjudaginn næsta í föstu. En á Íslandi hafa menn þennan sið við mánudaginn, sennilega til að trufla ekki hefðbundin matarsið sprengidagsins.
Það er einnig rík hefð fyrir því að föndraðir séu bolludagsvendir sem yngri börn flengja foreldra sína með eða forráðamenn og hrópa: „Bolla! Bolla! Bolla!“. Í upphafi taldist flenging ekki gild nema flengjarinn væri alveg klæddur og fórnarlambið óklætt, og því ekki óalgengt að börn vöknuðu snemma til að geta „bollað“ foreldra sína í rúminu. Sá sem er flengdur getur losnað undan þjáningunum með því að gefa bollu í staðinn, og fyrir hvert högg átti barnið að fá eina bollu. Flengingar þessar eiga sér líklega kaþólska fyrirmynd í táknrænum hirtingum á öskudag. Vöndurinn minnir á stökkul sem notaður var til að dreifa vígðu vatni við föstuinngang. Sumir telja hýðingarnar upprunalega lið í frjósemisgaldri og með þeim eigi að vekja alla náttúruna til lífs og starfa þegar vorið sé í nánd.
Athugasemdir