Brynja Árnadóttir
Brynja Árnadóttir verður með sýningu á pennateikningum sínum í Samkaup Úrval. Sýningin byrjar á sumardaginn fyrsta og stendur í 4 daga.
Brynja er fædd á Siglufirði sama dag og Elvis Presley fæddist þ.e.a.s 8. janúar 1942. Hún ólst upp á Siglufirði og var á Sigló til 17 ára aldurs. Aðspurð um æskuminningar er efst í minningunni frelsið sem krakkar höfðu og vonandi hafa ennþá hérna á Siglufirði, hvort sem leikvöllurinn var fjallið eða fjaran. Æskuheimili Brynju var á Skaftabryggju í Antonsbragganum, og leikfélagarnir voru til dæmis Gylfi Ægis, Anna Lú, Rósa Arthúrs og fleiri eðal Siglfirðingar sem voru að alast upp á þessum tíma.
Brynja man sérstaklega vel eftir Siggu og Palla á Höfninni sem áttu heima rétt hjá bryggjunni og voru þau einstaklega góða við krakkana sem voru alltaf velkomin á heimili þeirra. Einnig eru góðar minningar um Skafta á Nöf, hvað hann var einstaklega góður við krakkana og leyfði þeim að leika á bryggjunni þegar ekki var verið að vinna þar.
Við renndum okkur á síldarvagninum og farið var í eltingarleiki þar sem við máttum ekki stíga á bryggjuna sjálfa. Við stelpurnar bjuggum til bú úr tunnuhringjum o.s.frv. Að ógleymdu að upplifa síldina og byrja að salta með mömmu, standa á kassa og síðar að fá að skera og salta sjálf. Lífið á bryggjunni var ævintýri segir Brynja.
Foreldrar Brynju voru Guðrún Guðmundsdóttir ættuð frá Ólafsfirði og faðir hennar var Árni Steindór Guðmundsson frá Skagafirði. Þess má geta að Árni var bróðir Jónasar Guðmundssonar sem var faðir Hauks Jónasar (Hauks bólstrara).
Á spjalli okkar heyrði ég á henni að hún var mjög ánægð með að vera komin heim og hvað væri orðið stutt yfir á Ólafsfjörð sem henni þykir greinilega vænt um. Þegar hún var að alast upp var farið með Drang eða rútu til Ólafsfjarðar og tók þá ferðalagið töluvert lengri tíma en nú. Brynja segir að Ólafsfjörður hafi verið hennar annað heimili og dvaldi hún þar löngum stundum.
Hún lærði meðal annars teikningu hjá Birgi Schött í gagnfræðaskólanum á Siglufirði og seinna í gamla myndlistaskólanum við Freyjugötu í Reykjavík hjá Ragnari Kjartanssyni myndlistamanni. Brynja bjó í Keflavík í 25 ár og stundaði nám við myndlistaskóla þar í bæ sem er nefndur Baðstofan. Þar lærði hún hjá Jóni Gunnarssyni listmálara frá Hafnarfirði og lærði á olíu, vatnsliti, krít og fl.
Árið 1985 byrjaði hún að teikna með penna og þá var hennar myndlistaframtíð ráðin. Menn sem hafa mun meira vit á myndlist en ég hafa túlkað listaverkin Brynju sem súrrealíska myndlist, þær eru oftar en ekki órökréttar og ekki útpældar þegar hún byrjar. Hún veit sjaldan eða aldrei hvernig myndin endar þegar hún byrjar á henni þó hún hafi örugglega alltaf einhverja hugmynd um myndina í grófum dráttum.
Ég fékk að sjá nokkrar myndir og ég var alveg stórhrifinn. Ég hafði einhvern veginn aldrei gert mér grein fyrir því að það væri hægt að gera svona listaverk einungis með penna. Ég hélt alltaf að þetta væri bölvað krass þessi pennalistaverk en svo er alls ekki og pennalistaverk krefst mikillar nákvæmni og útsjónarsemi.
Brynja er ekki bara að teikna, hún grípur annað slagið í spilastokk og leggur andlegan kapal fyrir vini og kunningja (Tarrot). Hún vill þó lítið gefa út á það hvort hún vilji taka svoleiðis spilakvöld að sér, hún segist ennþá vera að læra á spilastokkinn.
Ég mæli eindregið með því að þegar þú ferð í Samkaup Úrval næst að þú skoðir myndirnar sem eru þar við endann á afgreiðslukössunum. Eða hreinlega gerir þér bara ferð til þess að skoða myndirnar. Þetta eru að mínu persónulega mati, vægast sagt magnaðar myndir og ótrúlegt að þetta sé gert með penna.
Brynja er búin að sýna verk sín á mörgum stöðum og fengið mikið lof fyrir myndirnar sínar. Hérna geti þið farið inn á heimasíðu Brynju og skoðað nokkrar myndir.
Athugasemdir