Burst í Ljónagryfjunni

Burst í Ljónagryfjunni KS-ingarnir í handboltanum steinlágu fyrir stórliði Fram í handboltanum í gær, 14-42 tap var staðreynd eftir að jafnræði hafði

Fréttir

Burst í Ljónagryfjunni

Leikmenn KS, ljósmyndir : Ingibjörg Ásgeirsdóttir
Leikmenn KS, ljósmyndir : Ingibjörg Ásgeirsdóttir
KS-ingarnir í handboltanum steinlágu fyrir stórliði Fram í handboltanum í gær, 14-42 tap var staðreynd eftir að jafnræði hafði verið með liðunum fyrstu mínúturnar.

Fram átti aldrei í vandræðum með lið KS sem sýndu þó ágætis tilþrif og skópu sér fullt af færum en ekki vildi boltinn í markið.

Framarar mættu til leiks með sitt sterkasta lið og leikmenn innanborðs sem hafa verið viðriðnir landslið Íslands og ber þar helst að nefna stórskyttuna Jóhann Gunnar Einarsson sem er nýkominn heim úr atvinnumennsku í Þýskalandi.

Það er skemmst frá því að segja að Fram er einu númeri of stórt fyrir lið KS og gæðamunurinn slíkur að það var aldrei um neina keppni að ræða.

Framarar keyrðu á fullu allan leikin og gáfu liði KS engan grið, framliggjandi vörn þeirra var heimamönnum erfiður ljár í þúfu og röðuðu þeir bláklæddu inn mörkum eftir hraðaupphlaup.

Leiðindaatvik átti sér stað í leiknum þegar markvörður heimamanna fékk rautt spjald fyrir að stjaka við leikmanni Fram. Var það samdóma álit manna að annars ágætir dómarar leiksins hefðu þarna tekið ranga ákvörðun þar sem markvörðurinn var skiljanlega ósáttur eftir að hafa fengið boltann í andlitið frá leikmanni Fram.

Leikmenn KS náðu þó á köflum að opna vörn Fram og skapa sér góð færi en markvörður Fram varði eins og berserkur í markinu. Spilið var á köflum gott en formið eða öllu heldur formleysið fór að segja til sín þegar leið á leikinn.

Framarar hefðu að ósekju mátt slaka aðeins á klónni en þeim hafa greinilega borist fregnir af góðri frammistöðu KS í utandeildinni og því undirbúið sig undir hörkuleik.

Ef mið er tekið af lokatölum leiksins þá má segja að lið KS sé svipuðum klassa og úrvalsdeildarlið Vals sem Framarar kjöldrógu einmitt í undirbúningi þeirra fyrir bikarleikinn á Siglufirði.

Að venju var fjöldi áhorfanda á leiknum enda um stórkostlega skemmtun að ræða þar sem vel er tekist á.

Liðið hefur skráð sig til leiks í utandeildinni og er hún að sjálfsögðu aðalmarkmið liðsins. Liðið sigraði í sínum fyrsta leik og margir hörku leikir framundan í vetur.



Leikmenn sýndu ágætis tilþrif í sókn



Ekki voru tilþrifin síðri í vörninni



Þorsteinn Þór Tryggvason svífur hér inn í teiginn eins og fuglinn fljúgandi.

,,Hvaðan kom hann ? Hvert er hann að fara ? Hvað er hann "?
Adolf Ingi Erlingsson íþróttafréttamaður hefði sjálfsagt lýst þessum flottu tilþrifum á þennan hátt.

Athugasemdir

15.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst