Dagskrá í Alþýðuhúsinu á Siglufirði helgina 5. – 6. mars 2016
Opnun í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði
Laugardaginn 5. mars kl. 15.00 opnar Brynhildur Kristinsdóttir sýninguna ÉG LÆT TIL LEIÐAST í Kompunni Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Sýningin stendur til 20. mars.
Brynhildur Kristinsdóttir (f.1965) nam myndlist í Myndlistaskólanum á Akureyri og í Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Eftir útskrift úr myndmótunardeild 1989 fór Brynhildur til Ítalíu þar sem hún vann með myndhöggvurum en síðan lá leið hennar í Iðnskólann í Reykjavik þar sem hún lærði húsgagnasmíði en árið 2011 lauk hún kennaranámi frá Háskólanum á Akureyri. Auk þess að starfa við eigin myndsköpun hefur hún kennt myndlist og átt í samstarfi við ýmsa listamenn, gert leikmynd og búninga fyrir gjörninga og dans. Brynhildur hefur haldið nokkrar einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum. Hún starfar nú á Akureyri sem athafnasamur kennari og myndlistarmaður.
ÉG LÆT TIL LEIÐAST
"Ég læt til leiðast" er yfirskrift sýningar Brynhildar Kristinsdóttur í Alþýðuhúsinu á Siglufirði þar sýnir hún skúlptúra og myndverk. Verkin eru flest mótuð úr pappamasssa og álpappír og fjalla um tjáningu mannsins, hvernig hugmyndir hlutgerast og orð falla í stafi.
Sunnudagskaffi með skapandi fólki.
Nú eru að hefja göngu sína viðburður í Alþýðuhúsinu á Siglufirði sem nefnist sunnudagskaffi með skapandi fólki. Fyrsta sunnudag í hverjum mánuði verður fólk frá ýmsum stöðum í samfélaginu með klukkutíma erindi. Öll eiga þau það sameiginlegt að vera skapandi í sínu starfi eða áhugamáli. Um er að ræða fyrirlestra, gjörninga, kynningar og spjall yfir kaffibolla.
Sigríður María Róbertsdóttir ríður á vaðið sunnudaginn 6. mars með kynningu á uppbyggingu Rauðku í ferðaþjónustu.
Frá árinu 2010 hefur Rauðka verið áberandi í uppbyggingu ferðaþjónustu í Fjallabyggð. Margar nýjungar hafa litið dagsins ljóss síðan þá með tilkomu Hannes Boy, Kaffi Rauðku, iðnaðareldhúss og nú síðast Sigló Hótels. Í dag starfa 25 manns hjá Rauðku/Sigló Hótel á heilsársgrunni. Frá árinu 2011 hefur Sigríður María gegnt stöðu framkvæmdastjóra Rauðku í viðamikilli uppbyggingu félagsins í ferðaþjónustu á Siglufirði.
Athugasemdir