De seglade från Tjörn.......Til SIGLÓ. (50 myndir)

De seglade från Tjörn.......Til SIGLÓ. (50 myndir) Það er makalaus upplifun að það virðist vera að sama hvar ég sting inn nefinu í öllum þessum litlu

Fréttir

De seglade från Tjörn.......Til SIGLÓ. (50 myndir)

Séð yfir höfnina í Skärhamn
Séð yfir höfnina í Skärhamn

Eins og þið öll vitið hef ég haft gaman af skoða síldveiðisögu vesturstrandar Svíþjóðar og tengsl þeirra við Siglfirska síldarsögu. Það er makalaus upplifun að það virðist vera að sama hvar ég sting inn nefinu í öllum þessum litlu gömlu sjávarþorpum og bæjum að þar finnur maður alltaf ljósmyndir og sögur frá Sigló í skrifuðu og töluðu máli hjá fólki sem er ekki ólíkt okkur sjálfum og þessi saga skiptir þetta fólk verulegu máli og hún má ekki tínast.

Þetta er áhugafólk og oft eldra fólk sem leggur á sig mikla vinnu við að varðveita þessa sögu.

Þegar ég er þarna þá finnst mér ég oft vera “heima á Sigló”,  fólkið hugsar og lifir svo líkt því sem ég er vanur, á sér svo svipaða sögu í baráttunni fyrir lifibrauði sem tengist hafinu sem með sinni góðmennsku gefur oft vel en með sinni miskunnarlausu hörku samtímis tekur mikið í staðinn.

Séð yfir smábátahöfnina í Skerhöfn, stór hvít gömul fraktskúta til hægri, lengst til vinstri sjáum við skútuna Atena og magasínhúsið, þar fyrir ofan stendur glæsileg kirkja.
Kirkjurnar eru oft hæðsti punkturinn í þessum sjávarþorpum, þær eru eins og vitar fyrir sjómenn á heimsiglingu.

Fór í skemmtilegan dagstúr til Skärhamn (Skerjahöfn segja þeir sjálfir) sem liggur á eyjunni Tjörn ca. 100 km norðan við Gautaborg. Þessi bær er einn af yngstu síldarbæjunum á vesturströnd Svíþjóðar en byggð blómstraði þarna á tímabili sem kallað er þriðja síldveiðitímabilið. (ca 1877-1906)

Þá kom síldin enn einu sinni í miklu magni að vesturströndinni og inní skerjagarðinn. Það var næstum hægt að standa í landi á litlum hólma og háfa hana upp beint í tunnurnar.

Síldveiðar  utan við Fjällbacka 1877. Teikning eftir Jacob Hägg úr tímaritinu Ny Illustrerad Tidning.

Síldveiði tímabil í skerjagarðinum í Bohuslän:

  • 1556–1589
  • 1660–1680 (Stutt)
  • 1747–1809 ("stóra síldveiði tímabilið")
  • 1877–1906

Það var fallegur bjartur haustdagur svo ég tók mér góðan tíma í að taka fullt af myndum í og í nágrenni Skerhamn. Það er ákaflega fallegt þarna í skerjagarðinum og mörg lítil sjávarþorp með húsum sem standa þétt á nöktum klettum. Hér sér maður langt í allar áttir og út á haf, allstaðar annarstaðar í Svíþjóð sér maður ekki skógin fyrir trjám sem eru út um allt.

En hér er ekki mikið af trjám, þau eru öll orðinn af síldartunnum fyrir löngu löngu síðan.

Þessi grein er bæði ferðasaga og og samantekt á staðreyndum um síldveiðisögu Svía við Íslandsstrendur og allir komu þeir við á Sigló.

Sænskar skútur liggja hlið við hlið, bundnar við hina svokölluðu "Sænsku staura" í höfninni á Siglufirði.

Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson. Að sjálfsögðu eru líka til ljósmyndir af sænskum skútum í okkar frábæra ljósmyndasafni á Siglo.is.

 Siglingaleið Svíana eftir viðkomu í Noregi. Síldveiðimiðin eru aðallega vestan og norðan við "KAP Langanes" og síðsumars fyrir austan landið.

Byrjaði daginn á því að kíkja á litla eyju sem heitir Klädersholmen sem ég hef skrifað um áður. 

Sjá grein hér: SIGLUFJORDUR er nafli alheimsins og SILLENS CLONDYKE

 Kirkjugarðurinn fyrir Klädersholmen er í landi, það er ekki pláss fyrir látna á þessari litlu eyju. Á öðru skiltinu stendur SALT & SÍLD sem er skemmtilegur veitingastaður og svo var annar þarna sem heitir DILL ef ég man rétt. 

 Horft yfir Klädersholmen, við brúarendan er síldarverksmiðjan Petterson & Karlsson sem er enn í gangi en hér áður fyrr var hún ein af ca 15 litlum síldarverksmiðjum eyjarinnar, hver af þeim með eigin leynilegar uppskriftir af dásamlegum síldarréttum. Þegar ég kom í heimsók til Petterson & Karlsson vorið 1991 þá héngu þrjár risastórar ljósmyndir frá Siglufirði í matsalnum á annari hæð.
Sjá upplýsingar hér um nokkur af þessum fyrirtækjum sem hafa slegið sér saman í Klädesholmens Síld ehf

Síðan skrapp ég á sýningu í Norræna vatnslitasafninu en þar er íslenska Bera Nordalh við völd og er landi og þjóð til sóma með frábærri stjórnun. Þar hitti ég aðra íslenska konu sem heitir Sigurbjörg Þ Óskarsdóttir og hún er frá Seyðisfirði og það passaði fínt inn í þennan dagstúr því hún kom með í sjóminjasafnið og gat hjálpa mér að sjá hvaða myndir voru frá Seyðisfirði, því það getur stundum verið frekar erfitt að aðgreina það, þetta eru svo líkir firðir.

Fjallganga í landlegu á Siglufirði,

 Sigurbjörg Þ Óskarsdóttir stendur á bryggjunni við "Nordiska akvarell" safnið í haustsólinni. í bakgrunninum sér maður hluta af Skerjahöfn og til vinstri sérst í tvo af átta listamannabústöðum safnsins.  

Síðan var farið um borð í skútuna Atena, í sjóminjasafnið og endar dagstúrinn í magasínhúsinu stóra við höfnina en þar var fjöldin allur af fólki á öllum aldri að dýfa skipakökum í kaffi og borða þær heitar og blautar með smjöri og sykri.

 Bengt-Erik Strandberg stjórnarfulltrúi "De Seglade för Tjörn" og greinarhöfundur um borð í Atene.

 Fólk á öllum aldri samnaðist saman í magasínhúsinu til að bleyta grjótharðar skipskökur í kaffi.

Ég hafði verið í sambandi við Beng-Erik Strandbeg sem er í stjórn “De seglade för Tjörn” sem er ekki ólíkt FÁUM (Félag áhugamanna um minjasafn) félaginu sem var stofnað á Siglufirði kringum stofnun Síldarminjasafnsins.

Fékk þar góðar móttöku, félagið lét mig fá yfir 100 gamlar ljósmyndir sem sýna veiðar og vinnslu í þessum erfiðu og löngu túrum til Íslands og einnig hljóðritaðar sögur frá viðtölum við eldri sjómenn og aðra sem kunna mikið um þessa síldveiðisögu.

 Magasínhúsið og við bryggjuna liggur hin glæsilega Atene og annar fallegur gamall trébátur. Aðalgatan liggur meðfram hafnarsvæðinu.

Ég lagaði allar þessar myndir sem voru í frekar lélegum gæðum, bætti skerpu, lýsingu o.fl. og sendi þessu yndislega fólki í Skerjahöfn allan pakkann og fékk stórt þakklæti fyrir og leyfi til að birta þessar myndir hér og einnig að senda Síldarminjasafninu allt saman.

Félagið í Skerjahöfn rekur í dag sýningar og skólaskútuna Atena og stórt gamalt magasínhús ásamt Sjóminjasafni sem er til húsa í gömlu “útgerðar fjölskyldu” húsi rétt fyrir ofan höfnina. 

 Bengt-Erik við Sjóminjafafnið í Skerjahöfn.

Í tímaritinu Länspumpen nr. 1. 2017 "Tímarit fyrir áhugafólk um skip og báta" (þetta eintak verður bráðlega til í Síldarminjasafninu) er stór grein um þessa skútu sem er sögð vera ein sú fallegasta í sinni stærðagráðu á Norðurlöndum.
Mundi allt í einu eftir því þegar ég kleif um borð að ég hafði reyndar sjálfur siglt með þessari skútu í nokkra sólarhringa í skólaferðalagi vorið 1991.

Fékk að upplifa þrælavinnu við að setja upp segl með handafli og klifra upp í möstur í veltingi og vindi.

 Fyrir utan innganginn á safninu stendur þessi AGA viti. Þetta er heimsfræg sænsk uppfinning, gasdrifinn sjálfvirkur viti, uppfinning sem hefur bjargað mörgum sjómönnum út um allan heim.

 Skútan EROS LL 972 og minjagripur frá íslandi. LL þýðir að skútan er skráð í (L)yseki(L).

 Gamlar sænskar bátavélar.

 Líkan af gamalli fallegri fraktskútu.

 Lítil skerjagarða fraktskúta. Á miðannum stendur:  Útskýring 324 “Liten jakt”
Litlar skútur af þessari gerð voru lengi vel notaðar sem “fljótandi smávöruverslanir” sem fóru siglandi með ströndum Svíþjóðar og seldu síld, salt, fisk og síld í dósum. Sölutúrarnir tóku oftast fleiri fleiri vikur.

 Sundmagi úr Löngu notaður í kaffi. "Útskýring 508 á Sjóminjasafninu:" 
KLARSKINN (Tæra-skinn) 

Þegar verið var að vinna Löngu í “LUTFISK” (langa var þá þurrkuð eins og skreið og áður en hún er soðin þá er hún bleyt upp í lút, það er mjög svo einkennilegt lykt og skrítið bragð af þessu.) en þá var sundmaginn skorin úr og hann þveginn og þurrkaður. Síðan var þetta klippt niður í ca 2 cm stóra bita og selt í litum pokum í smávöruverslunum út um alla Svíþjóð.
Tæra-skinn var notað á hallærisárum í “soðkaffi” til þess að gera kaffi vökvann tærari á litinn. Þessu var hætt í lok 1940 þega aftur var hægt að kaupa almennilegt innflutt kaffi.

Ég hef fundið mikið af allskyns heimildum en það hefur verið erfitt að ná saman einhverskonar heildarmynd af þessum síldveiðum Svíanna og hvernig þær fórum fram og breyttust í gegnum árinn með nýrri tæki og veiðiaðferðum.

 Reknetaveiði (Drivgarn) útskýrð.

Reknet – snurpunót – (og í lokin hringnót.)

 (Seinna í lok síldarævintýrsins með aukinni tækni eins og blokkspili getur einn bátur lagt hringnót og móðurskipin verða stærri í stíl við verksmiðjuskip sem Rússar og Pólverjar notuðu á þessum árum. Örlygur Kristfinnsson og Hafþór Rósmundsson og fl. vita örugglega meira um þessa tækniþróun.)

Sjá mynd í grein af stóra móðurskipinu “Mexicano” á sigo.is: PÅ VÄG MOT ISLAND…. á heimaslóðum sænskra síldveiðimanna! 

Ljósmynd: Steingrímur Kristinnsson. Sænskur "tilraunaveiðifloti á innsiglingu á Siglufirði 1963.

Ljósmynd: 
Steingrímur Kristinnsson. Sænskur "tilraunaveiðifloti" 1963. GG þýðir að hringnótaveiðibátarnir eru skráðir í (G)autabor(G).

Gömul auglýsing um sýningu um reknetaveiðar við Ísland 1948 með bátnum M/S Gerd. Að sjálfsögðu er mynd frá síldarsöltun á Sigló notuð í auglýsinguna.

Ég er náttúrulega eingin fræðimaður á þessu sviði en ég tel að innkaupasaga Svíana og þeirra hlutur í söltun í landi sé nokkuð vel skráð og þekkt á Íslandi.
Svíar voru lengi vel stærstu síldarkaupendurnir, keyptu oft um og yfir 50% af öllu sem var saltað á Siglufirði.
Þeir höfðu einnig stór áhrif á vinnsluþróun og voru með menn á Sigló í gæðaeftirliti öll söltunarsumur.

 Sænskar síldarskútur á Siglufirði með fullt af tómum tunnum um borð.

Sjálf veiðisagan er svolítið hulin og ókunnug fyrir okkur og það er náttúrulega ekkert skrítið, hún gerðist út á sjó en samt beint fyrir framan nefið á okkur og hún er líka tengd sjálfstæðisbaráttu Íslands og vilja landsmanna að ráða yfir sínum auðæfum sjálf.

Sænskir síldarsjómenn í góðu veðri við norðurland. Faðir Bengt-Eriks er annar frá vinstri.

Lög frá 1922 um bann við vinnslu erlenda aðila í landi, en þar kemur skýrt fram að öll erlend veiði og vinnsla um borð verður að fara fram utan við 3 mílna landhelgi Íslands.  

Landhelgisþróunin var svona:

1901 - 3 mílur 
1952 - 4 m
1958 - 12 m
1972 - 50 m
1975 - 200 m

En núna nýlega hef ég náð þessu saman og heildarmyndin er að koma fram og hérna um daginn fékk ég dásamlega stutta sögu frá Bengt-Erik í Skerjahöfn og afrit af ráðningarsamning frá 1935 sem staðfestir ýmislegt sem ég hef fengið í gegnum hinar og þessar munnmælasögur hjá eldra fólki sem ég hef hitt og gegnum að skoða gamlar ljósmyndir og aðrar heimildir.

Skipsverji og skipshundur við bryggjuna í Skerjahöfn á góðri stund rétt fyrir brottför til Íslands.

Bráðlega kemur þýðing mín á þessari sögu og hún er dásamlega falleg vegna þess að þarna er eldri sjómaður að segja syni sýnum sögu af mikilli ævintýraferð sem hann fór í sumarið 1935 þar sem risastóru þriggja mastra vöruflutninga skútunni Svaninum er breytt snögglega og tímabundið og hún síðan notuð sem fljótandi söltunarplan og móðurskip fyrir þrjá aðra minni báta sem veiða síld í snurpunót. (Snurpvad)

Hér er verið að smíða "söltunarplan" í einni fraktskútunni.

Það kemur einnig skýrt fram í ráðningarsamningum sem fylgir með sögunni að þeir voru skráðir af Svaninum sem áhöfn (7 menn) á fraktskútu og síðan ráðnir aftur undir merki Öckerö Sillfiskarförening og þá sem hluti af 27 manna áhöfn, plús áhöfn á þremur minni fiskibátum sem sáu um snurpunótaveiðina og lönduðu þeir öllu um borð í Svaninn eða aðra stærri báta sem voru á samningi hjá Öckerö Sillfiskarförening.

Bohusläns Islandsfiskares ekonomiska förening er álíka félagsskapur þar sem kaupendur síldarinnar og útgerðarmenn slá sér saman til að minnka áhættu og kostnað gegnum samvinnu og markaðastjórnun.

Samtímis sem að þessi saga er manneskjuleg þá er hún líka full af fræðandi atriðum og staðreyndum um hvernig þetta gekk fyrir sig og staðfestir að Svíar notuðu TVÆR mjög svo ólíkar aðferðir við sínar síldveiðar við Íslandsstrendur.  

Snurpunótaveiðar á litum bát sem er einn af fleirum fylgifiskum fyrir stóra fraktskútu.

 Stórir leður reknetabelgir, stór þriggjamastra skúta í bakgrunninum. 

Reknet í stærra magni en snurpunót.

Reknetaveiðar eru mun hægvirkari aðferð og krefst minni mannafla, snurpunót er hraðvirkari aðferð en er miklu meira fyrirtæki og þar af leiðandi er þar tekin miklu meiri áhætta og hún notuð í minna mæli.

 Reknetabelgir á reki í miðnætursól.

Útskýringin á þessu snýst um bátana og hverskonar bátar þetta eru og samtímis um tíðarandann og samfélagsaðstæður og þróun samfélagsins í Svíþjóð.

Veiðiaðferð 1:

Reknetaveiðar (Drivgarn) og söltun um borð í tveggja til þriggja mastra fraktskútum með hjálparmótor.

  • Þessar minni skútur eru “vöruflutningabílar” síns tíma. Vesturströnd og austurströnd Svíþjóðar er full af þröngum fjörðum og skerjagörðum með minni bæjarfélögum og sjávarþorpum oft eru þarna grunnar og erfiðar hafnir líka.
    Þessar skútur eru í harðri samkeppni við aukningu á stálskipum í skipulögðum strandsiglingum.
    Með tímanum allt eftir sem að vegir, járnbrautir o.fl  og brýr bæta samgöngur minkar þörfin fyrir þessar skútur sem oftast sigla fyrir seglum en eru með minni hjálparmótóra og kannski en ekki alltaf litla ljósavél líka.
    Það er greinilega ágætis gróði af þessari þrælavinnu í þröngum bát í þrjá mánuði.
    Sjá mynd af uppgjöri úr svona túr á skútinni EROS 1954.

Tómar tunnur út um allt....... 

Það var frekar lítið vinnsurými um borð.

  • Það verður snemma árlegur viðburður að breyta dekkinu á skútunum, taka með sér allt sem þarf til síldarsöltunar og fylla bátinn af tómum tunnum, bæði gömlum (endurnýttum) og nýjum. Þetta til að drýgja þekjur fraktútgerðarinnar.

  • Samningur er gerður við kaupendur síldarinnar áður en lagt er í túrinn. Eigendur skútunnar slá sér saman við aðra í félagskap eins og t.d. Öckerö Sillfiskarörenig eða Bohuslän Islandsfiskares Ekonomiska förening


Reknetið dregið um borð.

  • Áhöfnin er ca 7-9 manns og þeir veiða bara í REKNET vegna þess að það ráða þeir við að draga um borð sjálfir. 

  • Undirbúningur var hafinn í lok júní og siglt á miðinn fyrir norðurland í byrjun júlí, stefnt er á að finna fyrstu feitu “Islandsillen” á Húnaflóa þegar hún er búinn að éta sig feita og fína á leiðinn suður og vestur af Íslandi.

Það tók ca 7 – 10 sólahringa að sigla frá vesturströnd Svíþjóðar, oft smá stopp í Noregi, kannski í Færeyjum og svo norður fyrir land, byrjað að veiða (ef síldin lætur sjá í seinni hluta júlí), síldinni er síðan fylgt þar sem hún er við norðurland og hún síðan elt austur fyrir land og síðan endar túrinn í september, siglt heim á leið með fullfermi. Heimkoma í lok september. Samanlagt um þriggja mánaðar túr.

Landlega á Siglufirði. Skúturnar á myndinni eru allar skráðar í Lysekil. Allar LL.

  • Þessir bátar komu oft í land í brælu, eða þegar eitthvað bilaði og jafnvel til að hvíla áhöfnina og leyfa þeim að fara í bað og á dansleiki, fara í bíó, fá póst og senda bréf heim til fjölskyldu og vina. Byrjuðu oft með að kannski fara inná Ingólfsfjörð, síðan mest til Siglufjarðar og seinna í túrnum inná Húsavík, Rauðsvarhöfn og í lokin inn á Seyðisfjörð. 

 Stór byrðarskip komu og hittu flotann út á hafi með vistir, varahluti og annað og tóku fullar tunnur á markað.
(Hversu oft veit ég ekki en líklega 1 – 2 sinnum, í lokin var allt rími notað fyrir fullar tunnur og veiðibúnað.) 

Sænskir landhelgisgæsludátar við Ísland.

Landhelgisgæsla (Kustbevakningen) Svíþjóðar var oft með í för og aðstoðaði við slys með læknisþjónustu og fl.


 

Smá pása í góðu verði við Jan Majen.

  • Aflinn skilar ca 700 til 1200 tunnum á hvern bát. (Fer eftir stærð skútunnar)
  • Margar ljósmyndir eru til sem lýsa undirbúningi, vinnslu og lífinu um borð, landlegu með ljósmyndum sem sýna síldarsöltun á Sigló og göngutúra um náttúru Íslands. 

 Setið og spjallað á "SKIPAKOPPUM"  það var náttúrulega enginn önnur salernisaðstaða um borð.

Veiðiaðferð 2:
Snurpunótaveiðar (Snurpvad) og söltun um borð í stórum þriggja og fjögurra mastra fraktskútum með hjálparmótor og seinna í öðrum stórum móðurskipum, sérstaklega í lok síldarævintýrisins þegar síldin heldur sig mjög langt frá ströndum Íslands.

"Móðurskip" með tvo fylgibáta á Siglufirði.

  • Stórar fraktskútur eru notaðar og seinna stór móðurskip með áhöfn uppá 27 -30 manns, 2 – 3 minni fiskibátar með í för og þeir veiða í snurpunót eða hringnót seinna.

  • Þessir túrar eru að öllum líkindum eitthvað styttri í tíma. (hef ekki getað fengið það staðfest.)

  • Hluta af lestarrími er breytt í svefnsal og matsal fyrir áhöfnina. Tunnur saltaðar um borð eru ca 1.800 og meira, fer eftir stærð móðurskipsins.

(Í sögunni um Svaninn frá 1935 eru saltaðar 1.780 tunnur.)
Síldarsöltun á fljótandi síldarsöltunarplani

  • Að öðru leyti er það mesta líkt veiðum reknetabátana þegar kemur að skipulagsmálum og öðru kringum þetta. Þetta er þó miklu stærra fyrirtæki og miklu meiri fjárhagsleg áhætta. (Ráðningasamningur sem fylgir með túrnum á Svaninum segir mikla sögu um skipulag og annað tengt þessari veiðiaðferð.

Uppgjör eftir reknetatúr 1954.

Þýðing á sögunni úr túrnum með Svaninum og á ráðningarsamningum kemur seinna.

SAGAN UM SVANINN! Síldveiðar, landlega og slagsmál o.fl. á Sigló 1935

Skipakökur í kaffi!

 Agneta Hermansson selur "En kaga i koppen" 
Skipakökurnar eru bakaðar í opnum viðarofnum í miklu magni, það er gat í miðjunni og þær eru annað hvort þræddar uppa á kústaskaft eða snæri og hengdar upp í þakið á eldhúsinu.
Þar eru þær látnar þorna og svo komast ekki mýs og rottur í þær heldur.

Skipakökur settar í tómar tunnur fyrir brottför.

Amma að kenna barnabarninu að bleyta skipakökur í kaffi.

 Brjóta kökuna og troða þétt í könnuna.

 Setja svo smjör eða sykur á og mums.... góðgæti.

Lifið heil
Texti og myndir:
Jón Ólafur Björgvinsson

Aðrar myndir: Myndir úr safni De seglade från Tjörn. 3 myndir úr Ljósmyndasafni Siglufjarðar.
Heimildir: Bengt-Erik Strandberg, Stig Selander o.fl.
ISLANDSFISKE, en kort historik hämtad ur boken "53 år inom fiskkonservindustrin" av Göthe Grussell.

Aðrar heimildir um síldveiðar Svía og Norðmanna við Ísland:

Drivgarnsfisket vid Island på 1900-talet

Bohuslän var landets sillcentrum

SILDEFISKET VED ISLAND (Del 1) Norsk síða.

SILDEFISKET VED ISLAND (Del 2)

Aðrar greinar um Siglufjörð og vesturströnd Svíþjóðar:

SAGAN UM SVANINN! Síldveiðar, landlega og slagsmál o.fl. á Sigló 1935

PÅ VÄG MOT ISLAND…. á heimaslóðum sænskra síldveiðimanna! 

Siglfirðingar, síld og sakamálasögur í Fjällbacka

Stórkostleg kvikmynd frá 1954 fundin

SILLSTULKOR I SIGLUFJORD / Sænsk myndasyrpa frá 1945

SIGLUFJORDUR er nafli alheimsins og SILLENS CLONDYKE (Myndir og myndband) 


Athugasemdir

21.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst