Draumsýn sósíalistanna sjö

Draumsýn sósíalistanna sjö Undirritaður er hugsi eftir lestur greinar í BB undir nafninu „Sátt um atvinnufrelsi er sátt um byggðir." Greinin er skrifuð

Fréttir

Draumsýn sósíalistanna sjö

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson
Undirritaður er hugsi eftir lestur greinar í BB undir nafninu „Sátt um atvinnufrelsi er sátt um byggðir." Greinin er skrifuð af sjö „sérfræðingum" um sjávarútvegsmál. Hugmyndir sjömenningana byggja á því að RÍKIÐ sé alltumlykjandi og einstaklingurinn aðeins hluti af heildinni og eigi að fela sig í hlýjum faðmi hins alvitra ríkisvalds. Margir áhrifamenn í stjórnmálum hafa tilhneigingu til að halla sér að sósíalisma og telja nauðsynlegt að „skipuleggja" atvinnulífið til að reka þjóðfélagið samkvæmt sanngjarnri áætlun.Til þess þurfa þeir vald sem oft er notað miskunarlaust í „þágu fjöldans." Einstaklingurinn skiptir þá engu máli og nauðsynlegt að fórna lýðræði með frelsisskerðingu til að ná fram skipulaginu. Sósíalistar trúa því að með því að svipta einstaklinginn frumkvæði og valdi og láta ríkisvaldið taka ákvarðanir sé valdið úr sögunni. Slíkt er mikill misskilningur þar sem hið miðstýrða vald er miklu hættulegra en vald sem dreifist á fjöldann. Þar sem ríkið hefur náð „nauðsynlegum" yfirráðum verður vesæll skriffinni í skjóli yfirvalda valdameiri en stór-atvinnurekandi og reynslan kennir okkur að hann mun ekki hika við að nota það.

Frelsi eða fjötrar

Þessar hugrenningar, sem sóttar eru til Friedrich von Hayek, sækja að mér við yfirlestur hugmynda sjömenningana.  Skoðanir þeirra byggja ekki á rannsóknum, vísindum, viðmiðunum né reynslu annarra.  Þetta eru svona hægindastólahagfræði, en fyrst og fremst snýst þetta um að þjóðnýta sjávarútveginn, færa tekjur og völd frá einstaklingum til ríkisins.  Fidel Castro og Hugo Chaves gætu verið stoltir af kenningum sjömenninganna.  Castro sagði bændum á Kúbu að rækta kaffi, en sást það yfir að jarðvegur og loftslag hentaði ekki til þess.  Þetta kostaði hungursneyð hjá landsmönnum og hugmyndin minnir á framsetningu sjömennúningana um að ríkið eigi að taka ákvarðanir um hvað sé hagkvæmt að veiða, hvenær, af hverjum og hvernig.  Þeir vita að smábátar eru hagkvæmir og stærri bátar óhagkvæmir.

Castro og Chaves gætu líka verið stoltir af frösum sjömenningana. „Atvinnufrelsi í sjávarútvegi er lífakkeri sjávarþorpanna allt í kringum landið og þegar fyrir það er tekið verða afleiðingarnar eins og sjá má í hnignandi byggð í öllum landsfjórðungum, fjötruð í böndum einokunar, ánauðar og arðráns." Þó svo að hugmyndir þeirra gangi þvert gegn atvinnufrelsi eru slagorðin notuð til að villa mönnum sýn og málstaðnum til framdráttar. 

Takmörkuð endurnýjanleg auðlind

Ef við viðurkennum að takmarka þurfi aðganginn að auðlindinni þá er spurningin hvort við viljum nota samkeppni eða sósíalisma (ríkisforsjá).  Samkeppni þar sem þeir sem best standa sig og skila mestri arðsemi veiða, eða hvort  stjórnmálamenn ákveði hverjir fá að veiða og hverjir ekki.  Án takmörkunar á aðgengi verður auðlindin einfaldlega ofveidd, engum til góðs.

Við þekkjum það úr sögunni að í byrjun níunda áratugarins veiddu Íslendingar meira en nokkru sinni, um 460 þúsund tonn af þorski, þrátt fyrir það var tapið á útgerðinni að sliga samfélagið og fiskstofnar að hruni komnir.  Efnahagslegt sjálfstæði Íslendinga var í hættu þar sem óðaverðbólga geisaði eftir endalausar gengisfellingar til bjargar sjávarútveginum.  Við slíkt varð ekki unað og kvótakerfinu troðið upp á útgerðina, sem þar með tók við þeim kaleik að skera niður sóknargetu, en aðgengi að auðlindinni yrði takmarkað í staðinn.

Um þetta geta allir lesið sig til um og þurfa því ekki að vera með vangaveltur um að gefa veiðar frjálsar aftur.  Við vitum hvað það þýðir af biturri reynslu.

Arðsemi eða magn

En sjömenningarnir, eins og Castro og Chaves, skilja ekki út á hvað þetta gengur.  Stjórn fiskveða snýst ekki um að fjölga störfum!  Við viljum hafa eins fáa sjómenn og starfsmenn í vinnsluhúsum eins og mögulegt er, til að hámarka arðsemi.  Sjömenningarnir tala hinsvegar um framleiðslumagn en ekki verðmæti.  Að framleiðsluaukning í veiðum frá 1991 til 2007 hafi ekki aukist og það sé stjórnkerfi fiskveiða að kenna.  Engin tengsl eru á milli aflahlutdeildarkerfis og veiðimagns og kerfið ekki sett á til að byggja upp fiskistofna, enda slíkt ómögulegt.  Hafró gerir mælingu á stofnstærðum og ákvörðun um veiðimagn er samkvæmt veiðireglu, nú 20% af veiðistofni.  Kvótakerfið hefur ekkert með þessa ákvörðun að gera.

Það sem mestu máli skiptir er hinsvegar að verðmætasköpun hefur tífaldast frá árinu 1991 til 2009, frá því að vera 2.2% í 22%.  Þetta þvælist fyrir sósíalistum enda segir sagan að naglaverksmiðja í gamla Sovét hafi átt að framleiða 10 tonn af nöglum á dag, samkvæmt ákvörðun ríkisstofnunar í Moskvu.  Þeir framleiddu því einn tíu tonna nagla á dag, enda mun þægilegra og ekki þurfti að hugsa um hégóma eins og markaðinn.

Megin málið

Höfundar tala mikið um jafnræði og atvinnufrelsi máli sínu til stuðnings og skrauts, en í raun og veru leggja þeir til skipulag ríkisins.  Ákvarðanir verða teknar í ráðuneyti í Reykjavík og arðurinn af auðlindinni rennur í ríkissjóð.  Í raun snýst þetta um þrennt:

  • 1. Viljum við nota samkeppni við útdeilingu aflaheimilda eða skipulag ríkisins?
  • 2. Viljum við viðskiptalegar forsendur fyrir rekstri sjávarútveg eða ríkisforsjá?
  • 3. Viljum við að tekjur af auðlindinni renni til sjávarbyggða eða til ríkisins í formi skattheimtu?

Hnignun byggða hefur ekkert með kvótakerfið að gera og rétt að skoða hvernig aflaheimildir dreifast um landið í dag.  Rannsóknir sýna að engin tengsl eru milli kvótakerfis og brottflutnings íbúa Ísafjarðar suður á mölina.  Flutningur fólks úr dreifbýli í þéttbýli er alþjóðlegt vandamál og varla geta Kínverjar kennt kvótakerfinu um þróunina hjá sér.  Vestfirðingar eiga hinsvegar þann eina kost í stöðunni til að snúa vörn í sókn, að byggja á öflugum sjávarútveg í framtíðinni.  Mikil sóknafæri liggja þar ef greinin fær frið til að vaxa og eflast.  Það snýst ekki bara um að veiða fleiri tonn heldur að auka verðmætasköpun.  Auðlindagjald af sjávarútvegi er ekki til þess fallið að efla sjávarbyggðir og hugnast íbúum 101 betur.

Aðskilja veiðar og vinnslu

Sjömenningarnir tala um að aðskilja vinnslu og veiðar, og er rétt að drepa á því máli aðeins nánar.  Verðmyndun á fiski er mikilvægt mál þar sem hætta er á, að fiskvinnslur í eigu útgerða verðleggi hráefni of ódýrt til sín sem kallar á sóun.  Verðmunur á fiskmörkuðum og Verðlagsstofu skiptaverðs hefur reyndar aldrei verið minni en í dag, og hefur jafnt og þétt dregið þar á milli.  Þetta skiptir miklu máli þar sem almennt er viðurkennt að náið samstarf í virðiskeðju, eða full stjórnun frá veiðum, vinnslu og markaðssetningu, er nauðsynleg þegar kemur að vel heppnaðri markaðssetningu á flókinni afurð eins og ferskum fiskflökum. Fersk fiskflök hafa aldrei verið mikilvægari fyrir íslenskan sjávarútveg, enda skila þau lang hæstu markaðsverði og þar af leiðandi mestum tekjum í þjóðarbúið.  Vilja sjömenningarnir koma í veg fyrir þessa jákvæðu þróun í sjávarútveg, sem með bættum samgöngum hefur blómstrað hér við norðanverða Vestfirði?  Hafa þeir kynnt sér þessi mál og lesið um reynslu annarra þjóða, ein og t.d. Norðmanna þar sem aðskilnaður veiða og vinnslu hefur skaðað þá mikið í samkeppni við íslenskan sjávarútveg og sölu á ferskum fiski?

Samanburður við ESB

Staðan er einfaldlega þessi:  Íslendingar þurfa sem aldrei fyrr að treysta á sjávarútveg og að hann skili áfram þeirri arðsemi sem hann gerir í dag.  Eina sóknarfæri Vestfirðinga er í sjávarútvegi enda er hann ráðandi í hagkerfi fjórðungsins. 

Ágæti lesendi, ég skora á þig að kynna þér þessi mál og greina á milli tálsýnar og raunveruleika.  Frjáls veiði er ekki raunhæfur kostur, heppilegri eru skynsamlegar leikreglur um fiskveiðiauðlindina sem hámarka arðsemi og jafnframt stuðla að því að fiskveiðiarður dreifist með réttlátum hætti til samfélagsins.  Við höfum raunhæfan samanburð á því að nota viðskipta- og samkeppnisumhverfi í fiskveiðistjórnun, við ESB þar sem skipulags og ríkisforsjá er beitt.  Þrátt fyrir að báðir aðilar hafi nánast sömu markmið með fiskveiðistjórnun, hafa Íslendingar náð sínum en ESB alls ekki.

  • - Að tryggja sjálfbærar veiðar, sem í raun felur í sér að miða þær við s.k. Maximum Sustainable Yield (hámarka nýtingu stofna)
  • - Sá grunnur muni skila hámarks framleiðni í greininni og þar með hámarka tekjur þeirra sem byggja lífsafkomu sína á sjávarútvegi, tryggja réttláta skiptingu fiskveiðiarðsins ásamt því að gæta hagsmuna íbúa strandsvæða og neytenda

Við eigum ekki að kasta spanna í tannhjól öflugs sjávarútvegs til þess þóknast kerfiskörlum sem vilja í raun þjóðnýta auðlindina í þágu 101.  Að færa hlutlægar reglur aflamarkskerfisins í huglægar reglur stjórnmálamannsins lofar ekki góðu.  Reglur sem koma í veg fyrir hagkvæmni og arðsemi, útiloka sjávarbyggðir frá því að nýta auðlindina sér í hag.  Öflugur sjávarútvegur sem rekin er á viðskipalegum forsendum og á samkeppnisgrunni er mikilvægasta hagsmunamál Vestfirðinga.


Athugasemdir

08.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst