Efst í huga um áramót
Um áramót reikar hugurinn til liðinna atburða.
Þegar maður les fyrirsagnir veffjölmiðlanna mætti halda að árið 2008 hafi byrjað þann 6.október. Fréttaannáll ársins hjá Sjónvarpinu (RUV) í gærkvöldi var vel unnið yfirlit sem kippti aftur fram í dagsljósið ýmsum atburðum sem fallið höfðu í gleymsku í skammtímaminni okkar neytendanna. Kryddsíldin er vinsæll vettvangur til þess að gera upp árið. Ég er reyndar ekkert hrifin af stjórnmálaforingjaþáttum í sjónvarpi, enda kemur fátt þar fram svona yfirleitt. Varla áttum við t d von á yfirlýsingu í beinni frá forsætisráðherra þó hann hefði komist á staðinn, að nú skuli efnt til kosninga eða að nú skuli farið í ESB aðildarviðræður. Ingibjörg Sólrún stóð sig vel við aðstæður sem mér fannst ekki boðlegar þ e með hlutdrægan þáttastjórnanda, aðrir þátttakendur voru að mestu þegjandi og utanaðkomandi skrílslæti voru óviðeigandi. Kjarkleysi lögreglu til að taka á aðstæðum sem þessum ætti að vera okkur öllum umhugsunarefni. Ef ég hef tekið rétt eftir lýsti Steingrímur því yfir að EINN fulltrúi þjóðarinnar væri velkominn í þáttinn. Eru kjörnir alþingismenn þá ekki fulltrúar þjóðarinnar?Gleði, hamingja og líka vonbrigði og sorg er nokkuð af því sem helst stendur uppúr af atburðum ársins hjá mér sjálfri. Það sem mér þykir helst viðeigandi að fjalla um hér er fráfall elsku mömmu minnar núna í desemberbyrjun. Við hrun bankanna missti ég skemmtilegt starf sem ég var að sinna mjög vel og varð um leið fyrir tekjuskerðingu. Einhver myndi kalla það veraldleg vandamál og líklega með réttu. Heilsufarið er jú í fínu lagi og vel rúmlega það sem er dýrmætara en flest annað.
.
Að fylgjast með bloggheimum á árinu hefur verið skrýtið ferðalag sem ég reyndar kaus að loka á um sinn. Mér þótti nóg um æsinginn og skammirnar sem fólk lét dynja hér í bloggheimum, oft af litlu tilefni og í rangar áttir. Það er með bloggið eins og aðra fjölmiðla, maður getur jú valið úr og lokað þegar mann lystir.
Ég hef vanrækt uppáhalds bloggvinahópinn minn síðustu vikur og mánuði, verið ódugleg við að flakka á milli síðna lesa og kvitta og bið mína góðu bloggvini velvirðingar á því. Í fyrra voru skrifin okkar flestra skemmtilegri minnir mig :-) en vonandi munu næstu misserin færa okkur eitthvað gott og fallegt til að fjalla um.
.
Kæru bloggvinir.
Ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar árs og friðar og þakka fyrir eftirminnilegt bloggár.
Athugasemdir