EINSTÆÐIR FORELDRAR

EINSTÆÐIR FORELDRAR Það hefur brunnið á mér lengi að tjá mig um stöðu einstæðra foreldra – ekki síst þeirra foreldra sem fara með forsjá barnanna eða

Fréttir

EINSTÆÐIR FORELDRAR

Þóra Sigurðardóttir
Þóra Sigurðardóttir
Það hefur brunnið á mér lengi að tjá mig um stöðu einstæðra foreldra – ekki síst þeirra foreldra sem fara með forsjá barnanna eða teljast aðal-umönnunaraðilinn.

Í þó nokkurn tíma hef ég verði hálfgerð sjómannsfrú eða grasekkja ef kalla skyldi. Í því felst að sambúðaraðilinn eða eiginmaðurinn dvelst langdvölum í burtu og fyrirbæri eins og pabbahelgar eru ekki til.
Ég er alls ekki ein í þessari stöðu og sérstaklega verður mér hugsað til þeirra foreldra þar sem hins foreldrisins nýtur aldrei við og því eru pabbahelgarnar engar.

Fyrir þessa foreldra – sem oftast eru mæður – er lífið nokkuð mikið flóknara en hjá öðrum. Í stað þess að deila ábygðinni og fá andrými af og til ertu alltaf á vakt. Ef að börnin þín eru árrisul færðu aldrei að sofa út. Ef að börnin veikjast ert það þú sem missir úr vinnu. Svo verður þetta flóknara. Ef þú ert ein(n) með tvö born og annað veikist – hvernig kemurðu þá hinu í skóla eða til dagmömmu? Að fara að versla með fleiri en eitt barn er krónískur höfuðverkur, að hjálpa til við heimalærdóminn og þurfa líka að elda er mikil kúnst og að þurfa í ofanálag að vakna á nóttunni til að sinna börnunum tekur á þegar að svefnmissirinn fer að segja til sín.

Á meðan flestir hlakka til að slappa af um helgar bý ég mig undir stíft prógramm. Börnin verða vöknuð á laugardagsmorguninn milli sex og sjö. Síðan er það allur dagurinn. Við búum í mjög lítilli íbúð þannig að ég reyni yfirleitt að fara einhvert annað með þau. Að fá mig og bæði börnin í heimsókn er sjálfsagt engin draumaheimsókn. Við skiljum yfirleitt eftir okkur slóð eyðileggingar – eða að minnsta kosti mikið drasl. Því reyni ég að heimsækja vini sem sjálfir eiga mikið af börnum og eru umburðarlynd í garð litlu ormanna minna.

Á laugardagskvöldum hvarflar ekki að mér að fara út úr húsi. Ég er dauðþreytt og ef ég myndi gerast svo djörf að fara út – og jafnvel fá mér drykk eða tvo þá þarf ég að gjalda þess morguninn eftir. Að vakna milli sex og sjö – þreytt og timbruð er hreinlega ekki í boði.

Svo eru það tómstundirnar. Þriggja ára sonur minn er í fimleikum á sunnudagsmorgnum. Ég mætti spennt í fyrsta tímann og tók litlu dóttur mina með sem er eins ár. Hvað átti ég að gera? Það er ekki um auðugan garð að gresja í barnapössunarmálum klukkan half tíu á sunnudagsmorgnum.

Fyrsti tíminn var algjör martröð. Sonur minn (þriggja ára) var að fríka út af spenningi og hlýddi engu sem að kennararnir sögðu honum að gera. Til þess voru tækin allt of spennandi enda hef ég sjaldan séð hann svona glaðan. Á meðan grét sú litla því hún vildi vera með. Með eitt organdi og annað sem hlýddi engu fann ég hvernig ég svitnað meira og meira og hvernig dæmandi augu fimleikakennaranna (sem allar voru undir tvítugu) störðu á mig. Að klukkutíma liðnum var martröðinni lokið og ég var tilbúin að fara heim og grenja í uppgjöf.

En svona er þetta og ég er ekki sú eina. Ég ætti meira að segja ekki að kvarta það mikið því reglulega kemur minn heittelskaði til landsins og þá deilist ábyrgðin.

Þá verður mér enn og aftur hugsað til þeirra sem eru ekki jafn heppin og ég. Hvað með mömmurnar sem eiga börn sem eru veik í sífellu – missa þær ekki vinnuna? Hvað með mömmurnar sem rétt skrimta um hver mánaðarmót?
Það er nógu erfitt að stunda vinnu, sinna börnum og halda öllu gangandi svo að krísur á borð við peningaleysi setji ekki strik í reikninginn – en því miður er það þó þannig víða.

Þið sem þetta lesið vil ég byðja um eftirfarandi:

Ef þú þekkir einstætt foreldri – bjóddu því í mat, reyndu að létta undir – sérstaklega ef þú ert amma eða afi barnanna. Hjálpin þarf ekki að vera mikil en hún er ómetanleg. Fáðu að sækja börnin einu sinni í viku. Knúsaðu foreldrið og segðu því að það sé að standa sig vel.

Sýndu líka skilning. Ef börnin eru ekki alltaf tipp topp, eru ekki eingöngu á lífrænu fæði eða ekki búin að fara í klippingu nýlega. Ekki dæma og settu þig frekar í spor viðkomandi.

Reyndu hvað þú getur því það er hlutverk okkar allra að styðja við bakið á þeim sem eru að ala upp komandi kynslóðir.

Mér finnst að það eigi að tileinka einn dag á ári einstæðum foreldrum – hinu sönnu hvunndagshetjum þessa heims – því það er ekkert sjálfgefið við að vera foreldri en guð blessi þá sem reyna…


Athugasemdir

15.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst