Addi Þór í flugukasti.
sksiglo.is | Afþreying | 12.06.2013 | 06:00 | Jón Hrólfur Baldursson | Lestrar 668 | Athugasemdir ( )
Ég fór reiðhjólarúnt síðustu helgi með fjölskyldunni. Ég fór þennan hjólarúnt reyndar ekki alveg sjálfviljugur, mér var fyrirskipað að gera það. Ég reyndi að fá að fara hjólarúntinn á vespu sem faðir minn á en það var alveg engan veginn nógu gott fyrir strangari aðilann í ástarsambandinu sem ég er flæktur í.
Ég reyndi eftir fremst megni að útskýra að ég væri á
hjóli þó það væri mótor í hjólinu. Strangari aðilinn í sambandinu hafði akkúrat engan skilning á minni hlið
á málunum. Stundum er hún bara eins og herforingi. Hún Lord Ólöf.
En jæja, ég ætla ekkert að ræða þetta meira að þessu
sinni. Það kemur líklega sér pistill um þetta málefni og herforingjastjórn Ólafar einhverntíman seinna. En allavega þegar ég var
lafmóður og kófsveittur að hjóla niður í bæ, nánar tiltekið mjög nálægt Aðalgötu bæjarins sá ég
Adda Þór vera að veifa einhverju priki fram og til baka. Ég stoppaði dauðfeginn hjólið og dáðist að honum sveifla þessu áhaldi
(reyndar var ég líka að spá í hvort að bæjarfjélagið ætti ekki að sjá sóma sinn í því að hafa
legubekki og hengirúm hingað og þangað um bæinn svo fólk geti nú lagt sig aðeins þegar það er uppgefið á
hjólamennskunni).
Ég gat auðvitað ekki bara horft á þetta þegjandi , ég
þurfti að spyrja líka hvað í ósköpunum hann væri að gera.Addi Þór var að kenna dóttur sinni fluguveiði. Og svo
sýndi hann mér þetta ansi hreint sniðuga áhald sem lýtur frekar út fyrir að vera hestasvipa en flugustöng og fyrst hélt ég að
Addi væri byrjaður í hestatamningum. Þetta er sérhannað fyrir æfingar í fluguveiði og þó þetta sé ekki eins og fullvaxin
flugustöng þá hegðar þetta sér víst á allan hátt eins og flugustöng. Þarna fylgdist ég með þeim feðginum
æfa sig með flugustöngina og spögguleraði annað slagið í því hvort Brynja Baldurs listakona ætlaði virkilega ekki að koma með
einhvern rosalega góðan svaladrykk út og gefa mér. Ég sá fyrir mér einhvern sætan svaladrykk. Það er til dæmis mjög gott
að blanda óáfengum epla eða perusíder, jarðaberjasvala og rauðu Fanta saman í alveg hreint fullt af klaka. 1 Svali, dash af epla eða perusíder
og svo fyllt upp með rauða Fantanu. En það gerðist ekki. Vonandi gerist það bara næst. Brynja hefur örugglega ekki verið heima.
Svo spáði ég aðeins í það hver væri að kenna hverjum.
Ég veit ekki hvort ég má segja það en ég ætla samt að segja það. Ég er ekki frá því að Sigríður R.
Marrow Arnþórsdóttir sé hreinlega betri í því að kasta flugu en faðir sinn og er hann nú nokkuð lunkinn. Þannig að
það er spurning hver var að kenna hverjum.
Annars var þetta mjög flott hjá þeim báðum og þau virtust alveg
vita hvað þau væru að gera.
Athugasemdir