Jaðrakanamerkingar

Jaðrakanamerkingar Hinar árlegu jaðrakanamerkingar á Siglufirði fóru fram nú um miðja vikuna og lögðu tvær ungar stúlkur þeim lið. Það voru þær Eyrún

Fréttir

Jaðrakanamerkingar

Ljósmynd ÖK
Ljósmynd ÖK
Hinar árlegu jaðrakanamerkingar á Siglufirði fóru fram nú um miðja vikuna og lögðu tvær ungar stúlkur þeim lið. Það voru þær Eyrún Brynja Valdimarsdóttir og Stefanía Þórdís Grétarsdóttir 13 ára sem buðu sig fram og fengu síðan það hlutverk að vigta fuglana og sleppa þeim hverjum og einum eftir merkingu og nákvæma skráningu. Árangurinn að þessu sinni var 27 jaðrakanar, en í fyrra voru merktir hér 29 fuglar, en þá var stór hópur siglfiskra krakka sem tók þátt í merkingunum. Alls hafa um það bil 80 jaðrakanar verið merktir hér á Siglufirði. Það er hópur breskra fuglaáhugamanna sem hefur komið hingað ár eftir ár til þessa verkefnis. Þeir fara á nokkra staði svo sem Reykhóla, Dýrafjörð og Fljót og eiga þar ákveðna tengiliði t.d. Þorlák Sigurbjörnsson í Langhúsum og Guðnýju Róbertsdóttur kennari á Siglufirði. Í tengslum við þetta verkefni hefur Guðný komið á samstarfi milli skólans okkar og grunnskóla í Cobh í Cork á Írlandi og þess þriðja á Englandi. Greinargerð hennar fylgir hér á eftir. Góða myndaseríu má sjá á hér.


Það eru þau Ruth Croger og Peter Potts sem eru fyrir hópunum sem koma hingað árlega til jaðrakanamerkinga. Að þessu sinni með aðstoðarfólk sitt Richard, Wilf og Andy en erindi þeirra er að merkja jaðrakana á Siglufirði.
Þau eru búin að vera á Íslandi síðan í byrjun júlí og voru m.a. fyrir vestan, á Reykhólum þar sem mikið er um jaðrakana.

Undanfarnar tvær vikur hafa verið um 50 jaðrakanar í firðinum en fyrr í vor voru þeir um 100. Vonir stóðu til að geta merkt stóran hluta þeirra, en alls náðist í 27 fugla að þessu sinni. Eyrún Brynja Valdimarsdóttir og Stefanía Þórdís Grétarsdóttir mættu galvaskar og fengu að merkja hvor sinn fugl. Það voru kvenfuglar sem hvor um sig vóg um 400 grömm, feitar og pattaralegar og tilbúnar í langflug. Eins og margir vita hefur bekkur þeirra tekið þátt í þessum merkingum undanfarin sumur og fylgst með hvort merktir fuglar komi að vori og tilkynnt það til þeirra sem stunda rannsóknir á fuglunum.

Með því að hafa áhugasamt fólk víða um heim sem skráir fuglana og sendir upplýsingar er hægt að fylgjast með ferðum þeirra og ná ýmsum upplýsingum um ferðir þeirra og atferli. Grunnskóli Siglufjarðar og Scoil Iosaef Naofa í bænum Cobh sem er í Cork á Írlandi hafa átt í samskiptum undanfarin fjögur ár og á síðasta ári bættist annar skóli í hópinn, en það er grunnskólin í Topsham í Devon í Englandi, en þar eru krakkar í 2. og 3. bekk komin í samstarf með jafnöldrum sínum í Grunnskóla Siglufjarðar og má segja að það sé búið að yngja upp í verkefninu því að bekkur þeirra Stefaníu og Eyrúnar hefur ekki lengur jaðrakanana sem kennsluefni.

Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig þetta þróast, en það síðasta sem var gert í verkefninu í vor var að hvert barn í 2. og 3. bekk "ættleiddi" einn merktan jaðrakana úr hópnum sem var merktur hér á Siglufirði í fyrra, en þá voru alls merktir 29 fullorðnir fuglar. Ætlunin er svo að fylgjast með þessum fuglum og læra landafræði og fleira í svipuðum dúr og áður hefur verið unnið með hinum bekknum. Heimasíða jaðrakanaverkefnisins er http://www.scoiliosaefnaofa.com/Godwit.htm










Athugasemdir

28.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst